Katla og Sölvi

þriðjudagur, janúar 9

Nú árið er liðið...


Barasta komið 2007... hvernig endar þetta eiginlega? Í ellinni munu árin fljúga hjá á ofurhraða sem geitungur í vígahug eða kannski sem Fokker 50 í aðflugi.
Við erum sem sagt mætt aftur til leiks eftir 2ja vikna jólafrí á klakanum. Höfðum það afskaplega gott yfir jól og áramót við hefðbundnar athafnir svo sem borða, spila og hitta fólk. Hálffúlt að koma aftur í útlegðina hér en sem betur fer voru Gulla og Össi svo góð að bjóða okkur í mat strax um kvöldið og áttum við mjög náðugt kvöld með góðum mat, söng og gítarundirleik húsbóndans. Á sunnudaginn skelltum við okkur svo til höfuðborgarinnar, fórum á skautasýninguna Disney on Ice sem var afskaplega flott og skemmtileg, þaðan beint í mat til Gunnu og Didda sem var líka afskaplega flott og skemmtilegt.
Hér er ennþá sumarveður eða að minnsta kosti haustveður, bólar hvorki á frosti né snjó. Veit ekki hvernig fer með gönguskíðaferil húsmóðurinnar. Líkamsræktarátakið fyrir Vasagönguna stendur sem hæst; fór einu sinni út að hlaupa í fríinu og gafst upp eftir 17 mínútur, reyndi einu sinni að synda og gafst upp eftir 200 metra. Er farin að hallast að því að sú ákvörðun að splæsa í forfallagjald þegar ég borgaði þátttökugjaldið hafi verið afar skynsamleg...
Það er allt í rugli eftir fríið hjá okkur, greinilegt að fólk hefur ekki verið að vakna klukkan 7 og fara í rúmið klukkan 21 í jólafríinu. Í gær sofnaði Sölvi á eldhússtól klukkan 17.45 og svaf til 21.30 (sjá mynd!), vaknaði þá eldhress og vakti í fleiri klukkutíma, fleiri en ég kæri mig að rifja upp. Katla sofnaði hins vegar á réttum tíma en vaknaði klukkan 22.30 og hélt það væri morgun, held hún hafi ætlað að drífa sig í skólann. Meira ruglið...
Hef sjaldan fengið jafn mörg komment eins og við síðustu færslu, það er greinilegt að ég verð að setja reglulega inn myndir af mér við hin ýmsu störf, næst er ég að spá í að hafa myndaseríuna Dr. Sigríður stöðvar óstöðvandi nefblæðingu. Ahh... blóð út um allt, hvað er dásamlegra?


Free Hit Counters
Free Counter