Skíðagönguraunir
Börnin voru á Íslandi um helgina, smá skreppitúr til að knúsa pabba sinn og ýmislegt fleira skemmtilegt. Þau eru orðin svo sjóuð að fljúga ein, finnst þetta ekkert mál. Katla hafði víst fengið blóðnasir á leiðinni heim í gær en Sölvi hringdi bjöllunni og fékk aðstoð flugfreyju við að stöðva blóðbaðið hjá stórusystur.
Ég var sem sagt ein í kotinu um helgina og þótt það sé auðvitað alltaf hundleiðinlegt að vera einn þá fann ég óskaplega lítið fyrir því þar sem ég var nánast ekkert heima. Á fimmtudaginn fórum við Gulla í fyrstu alvöru skíðagönguna, tókum 7 kílómetra og vorum afar ánægðar með okkur. Ég dreif mig svo í bíó, fór ein... gæti við fyrstu sýn virst hálf brjóstumkennanlegt en vil benda á að þetta ber merki um andlegan þroska og styrk... Á föstudaginn var ég svo á síðustu vaktinni minni í bili, það er að segja bundinni vakt. Ég er sem sagt að skipta tímabundið um deild, verð á lýtadeildinni í 6 mánuði frá og með 1. febrúar og þar eru engar bundnar vaktir heldur bara bakvaktir. Þar að auki er ég ekki á neinni vakt í febrúar, veit ekki hvað ég á að gera við allan þennan aukatíma sem ég eignast, verð eiginlega að fá mér fleiri áhugamál... Nú svo á laugardaginn var afmælisboð með kvenlegum undirtóni hjá Gunnu, unaðslegur matur og afburða félagsskapur, ég gisti svo þar og pikkaði börnin upp á flugvellinum á leiðinni heim.
En aftur að gönguskíðunum. Ég er búin að komast að því að það þarf a.m.k. 5 ára háskólanám og þó nokkur endurmenntunarnámskeið til að skilja hvernig á að valla, það er að segja bera áburð undir skíðin. Svo þarf spannið að vera rétt miðað við þyngd, það get ég upplýst að þýðir hlutinn á skíðinu sem bognar upp og snertir ekki jörðina þegar maður stendur í báða fætur, á hins vegar að leggjast niður þegar maður stígur bara í annan fótinn. Get ekki skilið þetta öðruvísi en að það sé afar mikilvægt að maður haldi sömu þyngd og þegar skíðin voru keypt, annars fer allt til fjandans. Ég fór smá túr á laugardaginn og gekk hroðalega, rann aðallega afturbak (mér skilst að það sé ekki meiningin). Við Gulla fórum svo aftur á skíði í gær, gekk nokkuð vel fannst okkur þar til við áttuðum okkur á tímanum sem var afar slakur þrátt fyrir góða viðleitni. Er búin að fá loforð fyrir einkakennslu hjá einum sem vinnur hjá mér, held það veiti ekki af, við búum ekki yfir einu einasta snifsi af því sem kallast tækni og nú eru ekki nema tæpar 4 vikur til stefnu...
<< Home