Á skíðum skemmti ég mér trallalala....
Sjúbb sjúbb... mikið óskaplega er gaman á skíðum! Hin árlega skíðaferð var farin í síðustu viku og var afskaplega vel lukkuð í alla staði. Ég brunaði með börnin tvö og eitt að auki (fengum Guðrúnu Söru að láni þessa viku) upp í Idre Fjäll og þar kom saman mjög svo góður hópur af fólki, samtals 9 fullorðnir og 11 börn. Vaknað snemma og borðað af morgunverðarhlaðborði, drifið sig út í brekkurnar fram að lokun, gufan í stöðugri notkun eftir það, ljúffengur matur sem við skiptumst á að elda, spjall og kósíheit par excellans fram eftir kvöldi. Held ég verði að segja að þetta gerist ekki betra! Í ár var ný fjölskylda tekin inn í hópinn til reynslu og stóðu þau sig afar vel enda samanstendur þessi mæta fjölskylda af 3 vel uppöldum börnum, fyrirmyndar húsmóður og ofvirkum heimilisföður. Þó eigi reyndar eftir að telja atkvæðin þá grunar mig að þau hafi staðist prófið og verði boðin velkomin að ári (en Dísa, þá viljum við aftur fá heitar pönnukökur á morgnana, kampavín í gufuna og að Ásgeir skelli sér með öll börnin í sund á meðan hinir leggja sig...)
Börnin voru svakalega ánægð, fóru öll í skíðaskóla og tóku heilmiklum framförum. Stelpurnar fengu að vera mikið einar tvær að renna sér og fannst það mjög mikið sport, voru meðal annars í svörtum brekkum (erfiðustu!). Við Sölvi héldum okkur að mestu leyti fjarri svörtu brekkunum, en stunduðum þessar rauðu grimmt, hann er algjörlega óhræddur og tæknin hans er að láta sig bara gossa!
Eftir frábæra ferð var ekki síðra að koma heim því vorið er komið til Uppsala. Ég vil minna á að það er ennþá mars mánuður, en í gær þegar ég kom heim úr vinnunni voru 19 gráður á mælinum og börnin úti á hlírabolum. Samkvæmt áræðanlegum heimildum (hinum rótgróna og áreiðanlega prentmiðli Aftonbladet) er vorið komið til að vera. Ég trúi auðvitað öllu sem ég les og heima hjá okkur er því búið að pakka vetrarfötunum, þvotturinn kominn út á snúrur og húsfreyjan formlega byrjuð að hjóla í vinnuna. Yndislegt...
<< Home