Svíi í húð og hár!
Ég held ég fari að flokkast sem slíkur; komin á gönguskíði, byrjuð í innebandy og var sofnuð klukkan hálftíu á laugardagskvöldið. Þetta er hinn dæmigerði Svíi, mætti kalla öðru nafni lúser....
Katla fór í partý til Guðrúnar Söru á föstudagskvöldið og var það sem Svíarnir kalla föräldrafritt. Við foreldrarnir hírðumst því saman; ég, Gulla, Össi og Gunnar eldri ásamt sonum okkar fjórum. Væsti reyndar ekki um okkur, ég bauð uppá sushi og húsnæði, Össi kom með gítarinn og söngbækurnar svo að úr varð hin besta skemmtun. Það var langt gengið á næsta dag þegar því partýi lauk og eyddi ég síðan afgangnum af nóttinni með þrjá karlmenn uppí hjá mér, hver öðrum myndarlegri; Sölvi, Þorri og Krissi litli sæti.
Á laugardaginn lögðum við svo land undir fót og skelltum okkur til heimsborgarinnar Örebro þar sem farið var í ævintýrabað og svo gist á hóteli um nóttina. Vorum afskaplega þreytt, rétt náðum að fylgjast með fyrstu undanúrslitakeppninni fyrir sænska Eurovision og um það leyti sem úrslitin voru kunn vorum við öll sofnuð. Hótelherbergið var því vel nýtt, mér reiknast til að samtals höfum við sofið 32 klukkustundir!
<< Home