Katla og Sölvi

miðvikudagur, júní 6

"Sverige gjorde fiskpuré av Island!"

"Island mosades på Råsunda!", "Sverige slaktade Island!" Lauslegar þýðingar til glöggvunar: fiskpuré = fiskistappa, mosades = voru stappaðir, slaktade = slátruðu, held ég þurfi ekki að halda áfram, mig grunar að þið skiljið innihaldið. Verð eiginlega að viðurkenna að einstaka sinnum væri gaman að tilheyra þjóð sem ætti einhverja möguleika á árangri á alþjóðavettvangi og þyrfti ekki að lesa slíkar fyrirsagnir um sig í blöðunum. Ekki skemmtilegt. Gæti farið svo að maður þyrfti að sjúkskrifa sig í nokkra daga, varla hægt að láta sjá sig eftir þessa niðurlægingu!

Nú en að öðru leyti var þetta afar góður dagur enda þjóðhátíðardagur Svía, og mikið óskaplega er indælt að fá frídag í miðri viku. Eyddum deginum að miklu leyti í skerjagarðinum á snekkjunni í bongóblíðu (eins og er reyndar búið að vera alla síðustu daga), stoppuðum á lítilli strönd og létum fara vel um okkur þar áður en haldið var heim á leið. Læt fylgja með nokkrar myndir frá þessum frábæra degi.

Hér má sjá skvísurnar um borð, sumar óléttar og geislandi og aðrar bara geislandi. Skipstjórinn athugar áhyggjufullur hvað tímanum líður á úrinu mínu....

Börnin fengu að sitja framan á bátnum þegar ekki var siglt á rúmsjó og mæltist það mjög vel fyrir. Katla, Katla, Eyrún, Sölvi og Guðrún Sara.

Fruss og miklar öldur, þá er gaman að lifa!

Stýrimaðurinn gefur sér augnablik til að líta upp frá stýrinu og horfa ábyrgðarfullur í myndavélina.
Um síðustu helgi fór ég á geggjaða tónleika með Antony and the Johnsons ásamt nokkrum úr vinahópnum, hópferð í Dalhalla sem er ótrúlega flottur staður, dáldið eins og Kerið bara stærra, vatn neðst og sviðið út í vatninu, síðan búið að byggja áhorfendapalla upp í hallann. Alveg frábærir tónleikar í alla staði!
Sölvi á heimleiðinni áðan við Guðrúnu Söru: "Afi minn sko, hann vinnur við að fljúga til mismunandi landa og fara á fundi! Það er vinnan hans og þegar hann kemur til okkar, þá fer hann í vinnuna!"


Free Hit Counters
Free Counter