Katla og Sölvi

fimmtudagur, júlí 26

Laugavegurinn

Hér á sér stað gjörningur mikill sem aldrei áður hefur verið framinn og er í eðli sínu andstæður uppruna sínum. Ég er með öðrum orðum að skrifa þessa færslu frá Íslandinu góða, en upphaflega átti þetta blogg að þjóna þeim tilgangi að færa fréttir af börnunum frá Svíþjóð, en er nú kominn út í það að færa fréttir af móðurinni frá Íslandi. Ekki má maður bregðast dyggum lesendum...

Hef ekki frá neinu merkilegu að segja nema afreki mínu á hálendi Íslands, skellti mér í göngu um Laugaveginn ásamt Lindu vinkonu og fleira góðu fólki. Frábær hópur, tekið vel á því og endað í blíðskaparveðri í Básum í Þórsmörk þar sem var grillað og haldið upp á sigurinn. Gengum yfir 70 km á þremur dögum, 25 fyrsta daginn, 27 annan daginn og 19 síðasta daginn. Nú gætu einhverjir besservisserar risið upp og bent mér á að Laugavegurinn sé einungis 54 km, en ég neyðist til að þagga niður í þeim og upplýsa um að gönguhópnum nægði engan veginn þessi hefðbundna leið, heldur voru farnir útúrdúrar hinir mestu, þannig að sumum þótti nóg um. Nefnum engin nöfn en viðkomandi getur sagt frá því sér til varnar að skófatnaðurinn var algerlega óviðunandi og til mikilla trafala, fer aldrei sjálfviljug í þessa skó aftur á ævinni! Hér má svo sjá allan þennan vaska hóp og göngudrottninguna Sigríði aðra frá vinstri í neðri röð.



Nú að lokum er gaman að segja frá því að fyrir nákvæmlega 7 árum síðan var ég með hríðir, glöggir menn geta þá eflaust reiknað út að elskulegur sonur minni eigi afmæli á morgun. Hér á Hólavöllum verður haldin veisla að vanda og ég er svo stálheppin að hoppukastalinn kemur um hádegi, þannig að ég get verið búin að hoppa frá mér ráð og rænu áður en lýðurinn birtist. Alltaf er maður að græða!


Free Hit Counters
Free Counter