Katla og Sölvi

sunnudagur, ágúst 5

Sumar og sól

Gott að vera komin heim aftur. Bragi kom með okkur út og mamma kom svo daginn eftir og við erum búin að hafa það afskaplega gott. Sölvi kaffærir frænda sínum og ömmu í spurningum: "Bragi, hvað er straumur mjór? Amma, hvað er stærsta engispretta sem þú hefur séð? Bragi, hvað er það sem er lífshættulegt og fer upp og niður? Gefstu upp? Það er tómatur í lyftu sem er með byssu sem sprautar tómatsósu!"
Hann er orðinn 7 ára drengurinn og ég er ekki frá því að hann hafi stækkað við það. Afinn kemur í lok mánaðarins og þá verður aðalverkefnið að kenna barninu að lesa. Reyndar stoppar hann ekki nema í 6 daga og þetta er ærið verkefni þannig að við erum aðeins byrjuð. Hann var mjög stoltur af sjálfum sér í gær eftir blaðsíðu dagsins, greip fullorðinsbók og byrjaði að leita að kunnuglegum orðum. Fann strax "og" og "á" en var alveg steinhissa og bit að það væri hvergi "ól" eða "mús". Greinilega ekki mikið varið í þessa bók. Sofnaði samt með hana í fanginu sæll á svip og fannst hann hafa lesið alvöru bók.
Ég er búin að jafna mig eftir gönguna og byrjuð að hlaupa aftur. Keypti mér í fríhöfninni ógisslega flott hlaupaúr (gat ekki verið minni kona en Þóra mágkona...) sem segir mér allt sem hugurinn girnist; hraða, vegalengd, tíma, púls og síðast en ekki síst brenndar kaloríur! Nú eru ekki nema 3 vikur í næstu hlaupakeppni sem er 10 km og fer fram 26. ágúst. Vona að úrið fína hjálpi mér í gegnum þetta. Hef hingað til hlaupið lengst 7,7 km....
Á morgun liggur leið okkar í Legoland, mjög spennandi, förum fljúgandi til að spara tíma og ferðaþreytu og gistum tvær nætur. Vonandi verður jafngott veður á Jótlandi eins og veðurspáin lofar hér um slóðir næstu tvo dagana, en annars gerir ekkert til þó rigni á okkur allan tímann því eins og alþjóð veit veldur sólin ótímabærri öldrun og krabbameini.


Free Hit Counters
Free Counter