Heimsborgarar

Úff, hvar á ég að byrja? Ferðalagið var afskaplega gott í alla staði, finnst ég ekki hafa gert annað en að hvíla mig og borða...
Ferðin hófst í Feneyjum og gistum við þar eina nótt á hóteli:
Alltaf sígildar myndirnar þar sem eitt myndefnanna smellir af um leið og allir klessa sér saman til að reyna að komast fyrir....
Ég gat ekki séð að dúfunum á Markúsartorginu hefði fækkað neitt síðan ég var þarna síðast árið 1980! Þær eru auðvitað afskaplega gæfar og féll þetta allt saman dýravininum vel í geð:
Þarna erum við Sölvi í gömlum bæ sem heitir Alberobello og er í nánd við Bari á Ítalíu, þetta var fyrsta stoppið með skipinu.
Næst var stoppað í Katakolon á Grikklandi, það voru alltaf nokkrar ferðir í boði og í þetta skiptið völdum við að fara á ströndina.
Í Tyrklandi var fyrst stoppað í Izmir en þann dag ákváðum við einróma að vera bara eftir um borð, mjög notalegt.
Næsta stopp var Istanbul sem var mikil upplifun, mjög mikið fólk, ys og þys, og kebab-lykt yfir öllu... Þarna er Sölvi fyrir framan hina frægu bláu mosku.
Í Dubrovnik í Króatíu fann skordýrafræðingurinn þessa líka fínu eðlu sem hlaut nafnið Tómas. Sölvi dröslaðist með hana um allt þar til það rann upp fyrir honum að þetta væri líklega eðlustrákur sem hann væri að taka frá mömmu sinni, og var Tómasi því gefið frelsi á ný!
Í kringum gamla bæinn var borgarvirki sem hægt var að ganga uppá allan hringinn.
Dubrovnik kom skemmtilega á óvart, mjög gaman að koma þangað fannst okkur öllum þótt að minnsta kosti 2/3 hluta hópsins hafi þótt ívið of heitt.
Og svo þessar endalausu spurningar sem dundu á manni í sífellu:
"Mamma, var langalangalangalangalangalangafi minn risaeðla?" Hmm... ætti maður kannski að kenna honum frekar sköpunarsöguna, hún er einhvern veginn einfaldari en Darwin...
"Í hvaða stjörnumerki var Gustav Wasa?" Eigum við ekki bara að segja að hann hafi verið ljón eins og þú gullið mitt!
"Eru Inga og Ella nógu gamlar til að ráða yfir sér sjálfar?" Já ástin mín, þær eru 51 árs gamlar afasystur þínar og ráða reyndar yfir sér sjálfar!
<< Home