Hitt og þetta í upphafi hausts
Jæja, þá er búið að halda uppá afmælið hans Sölva... aftur! Í íslenska afmælið vantaði auðvitað alla aðal vinina þannig að það var loksins slegið upp veislu á laugardaginn til heiðurs árunum 7. Veislan gekk bara nokkuð vel og fyrir utan eitt beinbrot fór hún friðsamlega fram. Eins og allir vita er ekki hægt að tala um almennilegt partý nema einhver endi á Slysó... Þetta var hann Viktor litli Helgason, 2ja ára snáði kominn af Keflvíkingum í báðar ættir, sem með hoppi og skoppi tókst að meiða sig svona. Þar sem faðir hans er barnalæknir og þar að auki röggsamur maður var barnið komið upp á bráðamóttöku og í gips upp að nára um það leyti sem gestirnir sporðrenndu síðustu kökubitunum.
Minnir mig á þegar Bragi bró var einmitt 2ja ára og fótbrotnaði, þá átti ég reyndar mun meiri hlut að máli. Þar sem Bragi var svo mikið krútt (og er enn!) með spékoppa og bollukinnar átti hann að vera lukkudýr á fótboltamóti sem ég var að keppa á í skólanum. Ég skellti drengnum því á bögglaberann og hjólaði af stað á fullu spani en neyddist til að hægja á mér þegar upphófust mikil hljóð og drengurinn sat pikkfastur með annan fótinn í afturdekkinu. Ja svei, svona er lífið!
Sé mig tilneydda til að leiðrétta þann misskilning að við séum búin að fara í siglinguna fínu, á erfitt með að segja ferðasöguna svona fyrirfram, en við förum sem sagt af stað á föstudaginn og gistum fyrstu nóttina í Feneyjum og höldum síðan úr höfn með öll segl þanin á laugardaginn. Ítalía, Grikkland, Tyrkland og Króatía - here we come!
Sölvi er kominn á sundnámskeið enda ekki seinna vænna að drengurinn læri að synda. Hann fílar það bara vel þótt móður hans finnist fullsnemmt að mæta í sund klukkan hálftíu á laugardagsmorgnum. Og ekki nóg með það heldur er hann líka kominn í karate. Fór með hann og Þorra í fyrsta tímann í fyrradag og það var stórkostlega fyndið. Þeir eru langyngstir og þar af leiðandi ekki einungis minnstir heldur líka vitlausastir. Við Katla hlógum svo tárin runnu en blessaðir drengirnir voru hæstánægðir og eru mjög spenntir að halda áfram. Mánudagarnir eru að verða ansi strembnir hjá okkur því Katla er í bæði badminton og dansi, Sölvi í karate og ég í innebandy. Katla ætlar líka að halda kórsöngnum áfram og svo eru þau auðvitað bæði í íslensku, nóg að gera hjá þessu unga fólki nú til dags!
Næst kemur ferðasagan...
<< Home