Katla og Sölvi

föstudagur, ágúst 31

Um skóflur og fleira

Nú gæti einhver bölsýnismaður ályktað sem svo að þar sem 5 dagar eru liðnir frá hlaupakeppninni og ekkert verið bloggað að það hafi ekki gengið vel, en ég get með gleði í hjarta og sinni staðfest að svo er alls ekki. Gekk betur en áhorfðist, hafði sem takmark að hlaupa á undir klukkutíma, þá hafði ég reyndar ekki gert mér grein fyrir að það yrði troðið af röltandi kellingum sem tefðu för mína til muna. Fyrsta einn og hálfan kílómeterinn hefði ég eins getað labbað, komst ekkert áfram, en eftir það var gefið í og kláraði ég á 59 mín og 10 sek. Var mjög sátt...

Annað fréttnæmt er að ég er hvorki meira né minna en orðinn eigandi fasteigna í tveimur löndum. Fjárfesti í íbúð í Reykjavík í síðustu viku með stuttum fyrirvara og það er mjög gott að vita að minnsta kosti hvar við munum búa þótt margt annað sé enn óljóst.
"Sölvi, veistu hvað?!! Við vorum að kaupa íbúð!!"
"Í alvöru?? Vá, vorum við að kaupa ísbúð?!!!"
"Nei.... Íbúð!"
"Nú..."


Allt er að komast í fastar skorður, börnin byrjuðu í skólanum og ég að vinna í síðustu viku. Katla og Guðrún Sara voru að byrja að æfa badminton og sögðu sigri hrósandi frá því eftir fyrstu æfinguna að þær hefðu sko ekki verið lélegastar! Þær voru ekki með badmintonspaða og spurðu því kennarann: "Kan man få låna spade?" Þjálfarinn horfði furðu lostinn á þær og skildi ekki hvað þær ætluðu að gera við skóflu á æfingunni...


Free Hit Counters
Free Counter