Katla og Sölvi

mánudagur, febrúar 25

Sjúbb sjúbb

Erum búin að vera á skíðum síðustu vikuna, algjörlega frábær ferð. Vorum ásamt 6 öðrum fjölskyldum í tveimur samliggjandi íbúðum og gekk sambúðin furðu vel, maður ætti kannski bara að stofna kommúnu, greinilega ekkert mál að búa saman 13 fullorðnir og 15 börn...

Einn fjölskyldumeðlimurinn fór reyndar ekkert á skíði, er enn í endurhæfingu eftir handleggsbrotið í síðustu skíðaferð, en hún las, fór í göngutúra og ýmislegt fleira. Sölvi skellti sér í skíðaskóla eins og venjulega, gekk mjög vel og fór stöðugt fram. Á laugardaginn skelltum við Dísa okkur í Tjejvasan, fyrir þá sem ekki vita hvað það er, þá er um að ræða 30 kílómetra skíðagöngukeppni sem fer fram einu sinni á ári. Færið var afleitt, snjórinn líktiskt mest hálfbráðnuðum sorbet, en mér til mikillar gleði náði ég þrátt fyrir það að bæta mig um 38 mínútur frá því í fyrra og var samt ekki nærri því eins þreytt í þetta skiptið. Ég held að þetta hljóti að vera afrakstur hlaupanna síðustu vikurnar, það er ekkert annað sem hefur breyst frá því í fyrra. Þetta var samt hörkupúl, líkaminn undirlagður af hreyfingu. Í gær var þó allt annað uppi á teningnum, líkaminn undirlagður af harðsperrum....

Í bílnum á heimleiðinni í gær var verið að spila Abba og Sölvi vildi sífellt heyra Money, money aftur. Ég var aðeins að reyna að draga úr þessum peningaáhuga drengsins sem er víst nógur fyrir, en síðan þegar ég spurði hvort hann skildi hvað sungið væri um kom í ljós að hann hélt það væri verið að syngja um mömmu. Hann fékk því að halda áfram að hlusta og syngja af hjartans lyst: "Mamí, mamí, mamí...."


Free Hit Counters
Free Counter