Katla og Sölvi

miðvikudagur, júlí 5

Í sól og sumaryl

Rétt upp hönd allir sem fóru hjólandi í vinnuna í morgun í hlýrabol og berfættir í sandölum. Nú, bara ég? Er ekki sól og blíða á Íslandi eins og hér? Múhahaha.....
Sveitt er eiginlega besta orðið þessa dagana, brýt reglur spítalans um klæðnað með því að vera sokkalaus í inniskónum, ólíft annars.
Um helgina var gæsagleði í Stokkhólmi fyrir Sunnu og komu vinkonurnar úr öllum heimshornum til að heiðra hina tilvonandi Mrs. Kristinsson. Mér var falið það erfiða verkefni að fara með gæsina í bæinn eftir vinnu og koma henni síðan heim til sín þar sem allar hinar biðu með öndina í hálsinum. Að sjálfsögðu án þess að hana grunaði neitt. Ég var með hjartslátt allan tímann og blaðraði taugaveiklað um allt og ekkert á milli þess sem ég í laumi var í símasambandi við restina af hópnum. Sýndi það og sannaði öllum að óvörum að ég er nokkuð lunkinn lygari.... (allt í góðum tilgangi, þá er það í lagi, ekki satt?) Loksins þegar þessu krefjandi hlutverki var lokið og ég búin að ná gæsinni með herkjum úr bænum var ég alveg búin á því, en þá hófst fjörið. Þetta var frábær helgi í góðra kvenna hópi og er þegar farið að skipuleggja næsta hitting sem mun nefnast "Annar í gæs".
Á sunnudagskvöldið var svo matarboð hjá Jóhönnu og Gísla sem drógst hressilega fram á nótt, verð bara að nota vaktirnar til að hvíla mig.... Nú eru liðnir 10 dagar síðan ég kom frá Íslandi en ég hef aðeins verið heima hjá mér eitt kvöld, vaktir og aðrar skemmtanir taka allan minn tíma. Enda má sjá þess merki á heimilinu, varla búið að taka uppúr töskunum, þvottur og óopnaður póstur út um allt, svo að við minnumst nú ekki á blettinn sem ég reyndi að slá í gær en grasið lagðist bara niður undir sláttuvélina og neitaði að láta stytta sig.
Er á vakt í kvöld, nr. 4 af 6 þessar þrjár vikur sem ég er í vinnu, þetta skotlíður, bara 9 dagar þangað til ég kem til Íslands aftur!


Free Hit Counters
Free Counter