Gleðilegt sumar!
Hér var yndislegt veður í dag og nú finnst manni sumarið vera komið. Kirsuberjatréð meira að segja farið að blómstra. Tuttugu stiga hiti og glampandi sól, svona á sumardagurinn fyrsti að vera! Allir úti á stuttbuxum og freknum heimilisins fór snarfjölgandi í dag.
Bíllinn okkar er nú enn á ný fær um að bakka, það var smá skortur á því um tíma. Var farin að gera mér grein fyrir að þetta gengi ekki lengur. Það er ekki endalaust hægt að leita að stæðum sem eru uppí brekku svo að það sé hægt að láta bílinn renna úr stæðinu. Það er ekki hægt að bjóða börnunum sínum eða óléttum vinkonum uppá að þurfa að ýta bílnum í tíma og ótíma. Það gerði eiginlega útslagið þegar við Katla vorum að verða of seinar í dansinn á mánudaginn, sé þetta ennþá fyrir mér: ég við stýrið með svip sem átti að virka uppörvandi en gæti mögulega hafa túlkast sem uppgjöf eða jafnvel örvænting, Katla eins og karfi í framan að ýta bílnum út úr bílskýlinu og nágrannarnir útí glugga með svip sem er ekki hægt að túlka sem annað en undrun í sambland við hneykslun. En... bílinn kominn í lag! Þvílíkur lúxus að geta bakkað! Fyrirgefðu elsku UDJ 199 ef ég hef ekki sýnt þér tilhlýðilega virðingu í gegnum árin, jafnvel tekið þér sem sjálfsögðum hlut. Ég kann svo sannarlega að meta þig núna!
Ofurafinn er væntanlegur á laugardaginn, erum búin að panta kúlusúkk, SS-pylsur, remúlaði og léttlopa, allt eintómar nauðsynjavörur...
p.s. náði prófinu!
<< Home