Hús til sölu
Prófið búið, gekk þokkalega. Hefði gengið mun verr ef við hefðum ekki verið svo heppin að hafa súperafann hérna alla vikuna, hann hélt á spöðunum á heimilinu og rúmlega það. Pabbi var sífellt dyttandi að, fór helst ekki úr vinnufötunum og það yrði of langur listi að telja upp allt sem hann náði að betrumbæta hérna á heimilinu. Farinn að minna meir og meir á afa Magnús (svo sannarlega ekki leiðum að líkjast!), vantar bara lúrinn eftir hádegi (þann tíma notar pabbi hins vegar í að spjalla við nágrannana sem hann þekkir umtalsvert betur en við hin...)
Fór í klippingu í gær. Þetta var í annað skiptið sem ég neyðist til að treysta svía til verksins, hef yfirleitt reynt að treina slík ævintýri til Íslandsferða, en Nanna klippari var búin að taka af mér heilagt loforð um að ég mætti ALLS EKKI láta hárið vaxa óáreitt til næstu heimferðar. Fór sem sagt á dýrustu stofu Uppsala sem var svo sem ekki frásögu færandi. Hef yfirleitt ekki gaman af því að láta þvo mér um hárið, er með einhvern anatómískan varíant á hálshrygg sem gerir það að verkum að kanturinn á vasknum borast alltaf inn í mig, hvorki afslappandi né þægilegt. Þar að auki er ég hárssárari en bæði skrattinn og amma hans til samans (sérstaklega skrattinn ku vera mjög hársár, enda með þykkan og mikinn makka...), og þegar álpappírinn er rifinn harkalega úr mér þá langar mig mest að fara að gráta. Getið rétt ímyndað ykkur hversu mikill gleðidagur það var á mínu heimili þegar hætt var að nota strípuhetturnar, halelúja! Í gær varð ég hins vegar fyrir yfirnáttúrulegri upplifun því þvottastóllinn var samtímis nuddstóll! Ahhh... Fann ekki fyrir nokkrum hlut og borgaði með bros á vör fúlgu sem hefði nægt fyrir útborgun á litlu einbýlishúsi.
Talandi um hús þá er næsta mál á dagskrá að selja elsku litla húsið okkar. Seinna í dag verður formleg sýning og svo aftur um helgina. Ég er svo bráðheppin að dóttirin er með 39 stiga hita og hósta og við erum því báðar heima, önnur undir teppi og hin með tuskuna á lofti. Það verður gott að koma þessu máli frá svo að hægt sé að fara að einbeita sér að öðru, til dæmis að kaupa eitthvað fallegt fyrir allan hagnaðinn af húsinu!
<< Home