Próflestur á gamals aldri
Þegar ég skrifaði undir ST-samninginn minn var klausa um að ég yrði að taka svokallað ST-próf í lok námsins. Á sínum tíma fannst mér þetta hið besta mál, auðvitað væri sjálfsagt að sýna hvað maður kann og yrði bara hressandi að lesa sér til um það sem á vantaði. Nú hefur eftirfarandi hugsun tekið völdin hjá mér: "Það stendur bara að ég þurfi að taka prófið, ekki að ég þurfi að ná því...."
Síðast þegar ég sat við próflestur var árið 2000. Ég var ólétt af barni sem er núna nánast unglingur og nær mér upp að þriðja rifbeini, þótt hann deili reyndar rúmi með mér því það er svo notalegt!
Mér finnst eiginlega ekki hægt að ætlast til þess að ég geti þetta komin á þennan aldur, orimligt eins og svíinn myndi segja.
Bragi bró kom í heimsókn á skírdag og var fram á laugardag. Voða gaman að fá hann og hann fær líklega fálkaorðu heimilisins fyrir að hafa komið oftast af systkinunum. Kristín Björg var reyndar einu sinni í 6 vikur, hún fær að deila verðlaununum með ástkærum stórabróður sínum.
Við fórum á Naturhistoriska museet á föstudaginn langa, vorum reyndar óviss hvort það væri opið, en þessir hundheiðnu svíar eru sko ekki heima að láta sér leiðast þennan dag, allt opið. Gunna sagði mér í gær frá sænskri stelpu sem kom til Íslands um páska og skildi ekkert í því að alls staðar væri flaggað í hálfa stöng á föstudaginn langa, spurði hvort einhver frægur íslendingur hefði dáið!
Börnin fóru svo til Íslands á laugardaginn og verða í 8 daga, hentaði mér í raun mjög vel út af þessu prófi, en svo kemur í ljós algjörlega óvænt að próflestursúthaldið er ekkert. Er í alvöru að spá í hvort þurfi ekki nauðsynlega að þvo gluggana að utan í dag (hef aldrei gert það síðan við fluttum hingað), já þetta getur ekki beðið mínútunni lengur!
<< Home