Katla og Sölvi

mánudagur, maí 19

Móðir, kona, maraþonhlaupari

Ójá, maður rúllaði þessu auðvitað upp, nema hvað! Hljóp á 2.02.19 og var mjög ánægð með árangurinn, leið ótrúlega vel allan tímann og nýt nú harðsperranna í botn...
Ég vona að þið gerið ykkur öll grein fyrir hvað þetta er mikið persónulegt afrek hjá mér, hef aldrei getað hlaupið nokkurn skapaðan hlut, þegar ég byrjaði fyrir rúmu ári hafði ég ekki hlaupið síðan ég var unglingur (minnist ekki að það hafi verið mikið hlaupið þá heldur...) fyrir utan þetta eina skipti sem við Ingi fórum út að hlaupa vorið 1995, ég gafst upp eftir 200 metra og labbaði heim!

Ákvað að keyra til Gautaborgar þar sem hlaupið fór fram, fannst svo dýrt bæði að taka lest og fljúga, en ég hefði betur flogið og það jafnvel á fyrsta farrými því ég var stoppuð af lögreglumanni í gervi venjulegs mótorhjólatöffara og hlaut sekt sem hefði auðveldlega borgað fyrir flugið og rúmlega það. Afar svekkjandi svo ekki sé meira sagt, reyndi svo að slaka á og njóta útsýnisins það sem eftir var ferðarinnar, en það var nokkurn veginn svona: Barrtré, lauftré, barrtré, lauftré... í 6 klukkutíma...

Börnin skelltu sér hins vegar til Íslands um helgina, urðu miklir fagnaðarfundir við endurkomuna hingað í dag. Nú eiga þau bara eina helgarferð eftir og svo pantaðan miða aðra leiðina til Íslands!


Free Hit Counters
Free Counter