Katla og Sölvi

sunnudagur, júlí 27

Takk fyrir okkur!

Hann Sölvi minn er 8 ára í dag, litla ungabarnið mitt. Því miður er heilt Atlantshaf á milli okkar, en hann var búinn að fá gjöf áður en hann fór og svo koma afmælisdagar eftir þennan... Ég er hins vegar á vakt, hinni síðustu á sænskri grundu!

Heimilið er eins langt frá því að vera kósý og hugsast getur. Pabbi kom í gær og tók til við að stýra pökkunarverkefninu af fullum krafti, hvergi slakað á. Gámurinn kemur á þriðjudaginn og þá er að raða í hann á skynsamlegan hátt, því miður kemst hann ekki fyrir framan húsið hjá okkur þannig að þetta verður smá spotti sem þarf að bera allt en ég er búin að virkja fullt af fólki og þetta ætti allt að ganga upp.
Yfirlæknirinn skrifaði klausu í vikubréfið um daginn:
Nú er komið að því að kveðja Siggu. Föstudagurinn er síðasti dagurinn sem hún er skemalögð á sænskri grundu. Við hefðum gjarnan viljað hafa þig áfram. Allir vonast í fyrsta lagi til þess að allt muni fara á besta veg á Íslandi, og í öðru lagi að einhver geri breytingu á handritinu og að þú sért skyndilega meðal okkar á ný. Takk fyrir þitt fína framlag, ég er viss um að þú veist hversu vel við kunnum að meta þig. Og ef einhver vill sýna þakklæti sitt í verki á enn greinilegri hátt þá býðst tækifæri til þess á þriðjudaginn þegar sett verður í gáminn!
Þetta þótti mér vænt um. Það er frábært fólk sem ég hef verið að vinna með og mun sakna þeirra mikið, fórum einmitt nokkur saman út að borða á föstudaginn og að dansa á eftir. Allir á hjólum auðvitað, krökkt af hjólum fyrir utan skemmtistaðinn og fólk skilar inn hjálmum í fatahengið. Um 4-leytið þegar ég var að hjóla heim í stuttu pilsi og bol varð mér hugsað: "Hvenær mun ég gera þetta aftur, hjóla léttklædd heim af djamminu?" Líklega verður það ekki á næstunni.

Jæja.... komið að kveðjustund.
Þann 23. janúar 2005 var fyrsta bloggfærslan skrifuð og ég verð að segja að þetta hefur gefið mér mjög mikið. Svo er auðvitað ómetanlegt að eiga skriflega heimild um þessi ár okkar, mjög margt úr hversdagslífinu myndi gleymast annars. Þetta eru sem sagt rúmlega 3 og hálft ár sem lesendur hafa fengið að skyggnast inn í hið æsispennandi líf okkar. En nú er mál að linni. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa nennt að fylgjast með okkur og vona að hver og einn einasti sem les þessa færslu kvitti fyrir sig, enda síðasti séns!
Takk fyrir elskurnar!


Free Hit Counters
Free Counter