Heitt og sveitt
"Mamma, hvað var fyrsta orðið þitt, var það kaldhæðni?"
Hmmm.... ekki líklegt...
Hér hefur verið þvílík og önnur eins bongóblíða síðustu daga, uppundir 30 stiga hiti og glampandi sól. Þótt Svíarnir eigi að heita frændur okkar virðast þeir vera af allt öðru sauðakyni því þeir eru flestir orðnir hressilega kaffibrúnir nú þegar, á meðan við erum meira í litunum ljósbleikt og yfir í hárautt. Spáð áframhaldandi veðurblíðu næstu daga, ótrúlega ljúft þegar börnin geta hlaupið út berfætt í sundfötum, beint í garðslönguna til að kæla sig. Og hér hafa svo sannarlega hlaupið börn bæði út og inn um helgina því ég hef verið einstæð 5 barna móðir síðan á föstudaginn, og er enn. Gengið ótrúlega vel, greinilega ekkert mál að bæta á sig þremur gríslingum!
Góða veðrið hefur gert það að verkum að maður er svona mátulega spenntur að flytja heim í jarðskjálfta, 9 stiga hita og súld. Við bætist svo að kostnaðurinn við að flytja gáminn er gríðarlegur svo ekki sé meira sagt, held ég hafi ekki efni á þessu, tími því að minnsta kosti ekki...
Nú fer þessi síða að syngja sitt síðasta innan tíðar, og mikið óskaplega þætti mér vænt um að fá dáldið af kommentum svona undir lokin, bara til að finnast ég ekki hafa setið að skrifum til einskis. Þó ekki væri nema bara að kvitta fyrir komuna, bara fyrir mig, plís...?
<< Home