Afar róleg helgi
Á föstudaginn fyrir rúmri viku voru einungis 6 börn mætt í bekknum hans Sölva. Sjálfur var hann á Íslandi en afgangurinn var heima hjá sér að halda uppá lok Ramadan. Segir ýmislegt um fjölda innflytjenda í hverfinu, að minnsta kosti fjölda múslima!
Er enn ekki hætt við það háleita markmið að hlaupa hálfmaraþon. Er byrjuð í svaka prógrammi sem ég fann á hinum svokallaða veraldarvef. Fór á föstudaginn og keypti mér ný hlaupaföt, sagði afgreiðslumanninum nákvæmlega hvað ég vildi; buxur sem væru alls ekki þröngar en samt andandi. Hann leit á mig með svip sem einkenndist samtímis af samúð og meðaumkun og sagði: "Þú hefðir átt að vera að hlaupa á 80-talet!" Jahá, fékk þar með staðfestingu á því hversu mikil lumma ég er... Skjögraði út úr búðinni með buxur sem eru svo þröngar að þegar ég er komin í þær má velja sér rautt blóðkorn og fylgja leið þess niður arteria femoralis (eða hvað það nú heitir þetta dót, geri mitt besta til að gleyma öllu fyrir neðan viðbein!).
Fórum í bíó í gær að sjá Ratatouille sem er svo sem ekki í frásögur færandi í sjálfu sér, skemmtileg mynd sem við mælum með fyrir unga og ekki síður aldna. Bíóið er kannski ekki það stærsta í Uppsala og augljóslega mjög heimilislegt, í dyrunum stóð vinalegur maður með kokkahúfu (í takt við þema myndarinnar) og bauð okkur hjartanlega velkomin. Síðan þegar allir voru sestir í salinn með poppið sitt þá kom vinalegi maðurinn aftur, trítlaði upp á svið og stillti sér þar upp fyrir miðju og sagði: "Halló kæru börn! Eruð þið ekki spennt að sjá myndina? Munduð þið ekki örugglega eftir að segja mömmu og pabba að slökkva á símanum sínum? Fyrst kemst smá stuttmynd, ekki verða áhyggjufull og halda að ég hafi sett ranga mynd af stað, ónei! Svo yrði ég afar þakklátur ef þið takið með ykkur ruslið og setjið í tunnurnar á leiðinni út. Góða skemmtun!" Huggulegt, ekki satt?! Mér fannst líka svo kósý að átta mig á því að sami maðurinn rifi af miðana, sýndi myndina og þrifi salinn á milli sýninga!