Katla og Sölvi

sunnudagur, október 21

Afar róleg helgi

Á föstudaginn fyrir rúmri viku voru einungis 6 börn mætt í bekknum hans Sölva. Sjálfur var hann á Íslandi en afgangurinn var heima hjá sér að halda uppá lok Ramadan. Segir ýmislegt um fjölda innflytjenda í hverfinu, að minnsta kosti fjölda múslima!

Er enn ekki hætt við það háleita markmið að hlaupa hálfmaraþon. Er byrjuð í svaka prógrammi sem ég fann á hinum svokallaða veraldarvef. Fór á föstudaginn og keypti mér ný hlaupaföt, sagði afgreiðslumanninum nákvæmlega hvað ég vildi; buxur sem væru alls ekki þröngar en samt andandi. Hann leit á mig með svip sem einkenndist samtímis af samúð og meðaumkun og sagði: "Þú hefðir átt að vera að hlaupa á 80-talet!" Jahá, fékk þar með staðfestingu á því hversu mikil lumma ég er... Skjögraði út úr búðinni með buxur sem eru svo þröngar að þegar ég er komin í þær má velja sér rautt blóðkorn og fylgja leið þess niður arteria femoralis (eða hvað það nú heitir þetta dót, geri mitt besta til að gleyma öllu fyrir neðan viðbein!).

Fórum í bíó í gær að sjá Ratatouille sem er svo sem ekki í frásögur færandi í sjálfu sér, skemmtileg mynd sem við mælum með fyrir unga og ekki síður aldna. Bíóið er kannski ekki það stærsta í Uppsala og augljóslega mjög heimilislegt, í dyrunum stóð vinalegur maður með kokkahúfu (í takt við þema myndarinnar) og bauð okkur hjartanlega velkomin. Síðan þegar allir voru sestir í salinn með poppið sitt þá kom vinalegi maðurinn aftur, trítlaði upp á svið og stillti sér þar upp fyrir miðju og sagði: "Halló kæru börn! Eruð þið ekki spennt að sjá myndina? Munduð þið ekki örugglega eftir að segja mömmu og pabba að slökkva á símanum sínum? Fyrst kemst smá stuttmynd, ekki verða áhyggjufull og halda að ég hafi sett ranga mynd af stað, ónei! Svo yrði ég afar þakklátur ef þið takið með ykkur ruslið og setjið í tunnurnar á leiðinni út. Góða skemmtun!" Huggulegt, ekki satt?! Mér fannst líka svo kósý að átta mig á því að sami maðurinn rifi af miðana, sýndi myndina og þrifi salinn á milli sýninga!


sunnudagur, október 7

Af karlmennsku og kvenleika

Af hverju ætli kvenleiki sé karlkynsorð og karlmennska kvenkynsorð? Tilviljun...? No way. Forfeður okkar hafa augljóslega verið jafnréttissinnaðri en almennt hefur verið talið.

Og svo nokkur orð frá fulltrúum beggja kynja:

Núna er haustið komið, hvað finnst þér vera best við haustið?
Katla: Emmm... hmmm... veturinn er að koma og haustlitirnir eru fallegir.
Sölvi: Þegar ég er búinn að safna hrúgu af laufum þá ætla ég að henda mér ofan á hana, bara ef hún er ekki blaut.
Hvað finnst þér skemmtilegast í skólanum?
K: Tónlist og íþróttir, af því bara.
S: Það er frímínúturnar, þá megum við gera hvað sem er úti.
En leiðinlegast?
K: Mér finnist ekkert leiðinlegt í skólanum!
S: Þegar við erum að gera lexur, því þá þarf maður að hlusta svo vel og maður þarf að vinna svo hart.
Í hverju er þú góð/góður?
K: Að lesa og prjóna.
S: Ég er góður í að taka til og í GameBoy leiknum mínum og ég er góður í að leika mér og búa til Turtles-tjaldið!
En léleg?
K: Að greiða mér og vakna á morgnana.
S: Ég er lélegur að finna símann þegar hann hringir og að fara úr sturtunni því þá er mér svo kalt!
En er mamma góð í einhverju?
K: Hlaupa og gera sudoku.
S: Já! Að knúsast og að tala endalaust við fullorðna.
Kanntu að elda?
K: Sumt... núðlur, kakósúpu og baka alls konar bara ekki kleinur.
S: Já ef þú segir mér hvað ég á að gera.
Hvaða heimilisstörf eru skemmtilegust?
K: Að elda og að gera lexur og taka úr uppþvottavélinni.
S: Það er að taka til.
Hvað ætlarðu að verða þegar þú verður stór?
K: Kennari og rithöfundur, kannski.
S: Ég ætla annað hvort að verða skordýrafræðingur og uppfinningamaður, eða læknir eða vinna í banka, og bara ekkert meira.
Heldurðu að þú munir giftast og eignast börn?
K: Hmmmm... veit ekki...
S: Kannski...
Hvernig manneskja viltu vera?
K: Góð, bara góð.
S: Rosa góður við börn, góður við fátæka, gefa þeim alltaf pening. Ég ætla að vera góður á móti vini mína.
Hvernig á maður að koma fram við aðra?
K: Fer eftir því hvernig þeir koma fram við mig, fer eftir hversu vondir hinir eru, en annars bara vel.
S: Fínlega, bara svona venjulega. Samt ekki við alla, sumir eru svo þreytandi.
Hvað finnst þér vera mikilvægast í lífinu?
K: Skólinn! Og að eiga vini og fjölskyldu.
S: Að hugsa um fjölskylduna og lífið sitt.

Vilt þú bæta einhverju við?
Katla: Einu sinni voru ég mamma og Sölvi úti að labba í bænum og þá sagði Sölvi "mamma hvað blikkarðu oft á dag?" og þá sagði mamma "þúsund sinnum" en ég heyrði vitlaust og þá sagði ég "HA, skiptirðu um nærbuxur þúsund sinnum á dag?"
Sölvi: Einu sinni var ég sofandi, mamma sat í tölvunni og hún heyrði eitthvað svo mikið brölt í mér að hún kíkti frá tölvunni og sá að ég var að ganga í svefni og var að draga niður buxurnar og ætlaði að pissa í fataherbergið!
Sigga: Einu sinni var ég í vinnu þar sem ég varð að vera í aðþrengdum búning og þar var skylda að vera með varalit, ilmvatn, langar neglur og naglalakk, en núna er ég í vinnu þar sem ég er í hólkvíðum náttfatalegum vinnufötum, og þar er stranglega bannað að vera með ilmvatn, langar neglur eða naglalakk!


Free Hit Counters
Free Counter