Katla og Sölvi

fimmtudagur, apríl 24

Gleðilegt sumar!

Hér var yndislegt veður í dag og nú finnst manni sumarið vera komið. Kirsuberjatréð meira að segja farið að blómstra. Tuttugu stiga hiti og glampandi sól, svona á sumardagurinn fyrsti að vera! Allir úti á stuttbuxum og freknum heimilisins fór snarfjölgandi í dag.
Bíllinn okkar er nú enn á ný fær um að bakka, það var smá skortur á því um tíma. Var farin að gera mér grein fyrir að þetta gengi ekki lengur. Það er ekki endalaust hægt að leita að stæðum sem eru uppí brekku svo að það sé hægt að láta bílinn renna úr stæðinu. Það er ekki hægt að bjóða börnunum sínum eða óléttum vinkonum uppá að þurfa að ýta bílnum í tíma og ótíma. Það gerði eiginlega útslagið þegar við Katla vorum að verða of seinar í dansinn á mánudaginn, sé þetta ennþá fyrir mér: ég við stýrið með svip sem átti að virka uppörvandi en gæti mögulega hafa túlkast sem uppgjöf eða jafnvel örvænting, Katla eins og karfi í framan að ýta bílnum út úr bílskýlinu og nágrannarnir útí glugga með svip sem er ekki hægt að túlka sem annað en undrun í sambland við hneykslun. En... bílinn kominn í lag! Þvílíkur lúxus að geta bakkað! Fyrirgefðu elsku UDJ 199 ef ég hef ekki sýnt þér tilhlýðilega virðingu í gegnum árin, jafnvel tekið þér sem sjálfsögðum hlut. Ég kann svo sannarlega að meta þig núna!
Ofurafinn er væntanlegur á laugardaginn, erum búin að panta kúlusúkk, SS-pylsur, remúlaði og léttlopa, allt eintómar nauðsynjavörur...

p.s. náði prófinu!


fimmtudagur, apríl 17

Vikan okkar


Karatemeistarar



Ég á leið í galaveislu ásamt Clöru og Össa.



Skákmeistararnir


Húsið selt!
Fór eftir ráðum Sunnu þar sem hún er sú vinkona mín sem hefur mesta reynslu af flutningum; keypti afskorin blóm, viðraði vel og var með nammi í skál. Svínvirkaði!
Mér skilst að vísu að söluverðið myndi ekki duga fyrir ósamþykktri 2ja herbergja kjallaraíbúð í Sandgerði, en það er nú annað mál.

Dóttir mín er ekki bara bókagleypir, bakarameistari og svefnpurrka, heldur nú einnig nánast alþjóðlegur stórmeistari í skák og er á leið í hina merku höll Globen (þar sem ég hef meðal annars séð George Michael þenja raddböndin) ásamt bekknum sínum að keppa í úrslitum. Nú verðum við að leggjast yfir taflborðið og æfa, lumar einhver á góðum vörnum/sóknum sem hún gæti nýtt sér á ögurstundu?

Hlaupin ganga ekki alveg nógu vel, búin að vera með hósta og barkabólgu síðustu daga og logsvíður í pípurnar, hef ekki komist út að hlaupa í viku. Hef samt engar áhyggjur af hlaupinu mikla þótt einungis séu rúmar 4 vikur til stefnu (ó mæ god!) því nú er ég komin á gullskó sérinnflutta frá Ameríku og er án efa glæsilegasti keppandinn fyrr og síðar. Fyrir algjöra tilviljun er ég líka með rétta lagið í Ipod-inum:

Diggelo diggeley alla tittar på mig,
när jag går i mina gyllene skoooooor...


Sölvi: Mamma, ég er alltaf með svo mikið ansvar (ábyrgð).
Mamma: Nú, hvernig þá?
Sölvi: Æi bara, tek til dæmis oft ansvar af hinum. Eins og um daginn þá tók ég ansvarið af öllum strákunum nema tveimur.
Mamma: Ha, hvernig gerðirðu það?
Sölvi: Náði í mjólk fyrir alla í matsalnum.
Mamma: Frábært! Svo veistu að þegar þú ert einn heima þá ertu með ansvar á húsinu.
Sölvi: Já, ég og lásinn! En veistu mamma, þegar ég er einn heima, þá er ég yfirleitt að brjóta saman þvott og svona.

Og mamman (sem vissi mætavel að þetta með þvottinn var ekki alveg sannleikanum samkvæmt) fékk tár í augun af stolti...


fimmtudagur, apríl 10

Hús til sölu

Prófið búið, gekk þokkalega. Hefði gengið mun verr ef við hefðum ekki verið svo heppin að hafa súperafann hérna alla vikuna, hann hélt á spöðunum á heimilinu og rúmlega það. Pabbi var sífellt dyttandi að, fór helst ekki úr vinnufötunum og það yrði of langur listi að telja upp allt sem hann náði að betrumbæta hérna á heimilinu. Farinn að minna meir og meir á afa Magnús (svo sannarlega ekki leiðum að líkjast!), vantar bara lúrinn eftir hádegi (þann tíma notar pabbi hins vegar í að spjalla við nágrannana sem hann þekkir umtalsvert betur en við hin...)

Fór í klippingu í gær. Þetta var í annað skiptið sem ég neyðist til að treysta svía til verksins, hef yfirleitt reynt að treina slík ævintýri til Íslandsferða, en Nanna klippari var búin að taka af mér heilagt loforð um að ég mætti ALLS EKKI láta hárið vaxa óáreitt til næstu heimferðar. Fór sem sagt á dýrustu stofu Uppsala sem var svo sem ekki frásögu færandi. Hef yfirleitt ekki gaman af því að láta þvo mér um hárið, er með einhvern anatómískan varíant á hálshrygg sem gerir það að verkum að kanturinn á vasknum borast alltaf inn í mig, hvorki afslappandi né þægilegt. Þar að auki er ég hárssárari en bæði skrattinn og amma hans til samans (sérstaklega skrattinn ku vera mjög hársár, enda með þykkan og mikinn makka...), og þegar álpappírinn er rifinn harkalega úr mér þá langar mig mest að fara að gráta. Getið rétt ímyndað ykkur hversu mikill gleðidagur það var á mínu heimili þegar hætt var að nota strípuhetturnar, halelúja! Í gær varð ég hins vegar fyrir yfirnáttúrulegri upplifun því þvottastóllinn var samtímis nuddstóll! Ahhh... Fann ekki fyrir nokkrum hlut og borgaði með bros á vör fúlgu sem hefði nægt fyrir útborgun á litlu einbýlishúsi.

Talandi um hús þá er næsta mál á dagskrá að selja elsku litla húsið okkar. Seinna í dag verður formleg sýning og svo aftur um helgina. Ég er svo bráðheppin að dóttirin er með 39 stiga hita og hósta og við erum því báðar heima, önnur undir teppi og hin með tuskuna á lofti. Það verður gott að koma þessu máli frá svo að hægt sé að fara að einbeita sér að öðru, til dæmis að kaupa eitthvað fallegt fyrir allan hagnaðinn af húsinu!


Free Hit Counters
Free Counter