Gleði gleði
Takk fyrir öll kommentin elskurnar mínar!! Mikið óskaplega gladdi þetta mitt gamla hjarta. Ég á líklega eftir að skrifa örfáa pistla til viðbótar áður en yfir lýkur, þannig að þið fáið nokkur tækifæri enn til að gleðja mig!
Hér er alltaf gott veður. Ekki hægt að tala endalaust um það.
Börnin fóru til Íslands um helgina og gerðu eflaust margt og mikið, en eitt hið merkasta var þó að Sölvi bjargaði ömmu sinni frá bráðum bana. Til allrar lukku voru þau stödd hjá ömmu Kriss þegar hún kom að hamstri uppi á eldhúsborði (hverra manna hann var veit enginn...), hljóp æpandi og skrækjandi niður í kjallara og læsti að sér, en Sölvi sá um að koma óargadýrinu út. Get ekki hugsað þá hugsun til enda ef móðir mín hefði verið ein heima, því hún er með músafóbíu á háu stigi. Auðvitað veit ég að hamstrar eru ekki mýs og eflaust veit hún það líka, en sumt er bara ekki hægt að útskýra.
Ég fór hins vegar til Malmö ásamt nánast öllum vinahópnum, áttum þar frábæra helgi enda ekki við öðru að búast þegar sómahjónin Halla og Hákon standa fyrir heimboðinu.
Í dag er fyrsti dagurinn í bökunarvikunni miklu. Ég þarf að fara með köku í vinnuna, á 4 ólíka staði, samtals um það bil 60 manns, þar að auki ætlar Sölvi að halda afmælis/kveðjuveislu fyrir strákana í bekknum á miðvikudaginn. Og ég sem á ekki einu sinni hrærivél...