Katla og Sölvi

sunnudagur, júlí 27

Takk fyrir okkur!

Hann Sölvi minn er 8 ára í dag, litla ungabarnið mitt. Því miður er heilt Atlantshaf á milli okkar, en hann var búinn að fá gjöf áður en hann fór og svo koma afmælisdagar eftir þennan... Ég er hins vegar á vakt, hinni síðustu á sænskri grundu!

Heimilið er eins langt frá því að vera kósý og hugsast getur. Pabbi kom í gær og tók til við að stýra pökkunarverkefninu af fullum krafti, hvergi slakað á. Gámurinn kemur á þriðjudaginn og þá er að raða í hann á skynsamlegan hátt, því miður kemst hann ekki fyrir framan húsið hjá okkur þannig að þetta verður smá spotti sem þarf að bera allt en ég er búin að virkja fullt af fólki og þetta ætti allt að ganga upp.
Yfirlæknirinn skrifaði klausu í vikubréfið um daginn:
Nú er komið að því að kveðja Siggu. Föstudagurinn er síðasti dagurinn sem hún er skemalögð á sænskri grundu. Við hefðum gjarnan viljað hafa þig áfram. Allir vonast í fyrsta lagi til þess að allt muni fara á besta veg á Íslandi, og í öðru lagi að einhver geri breytingu á handritinu og að þú sért skyndilega meðal okkar á ný. Takk fyrir þitt fína framlag, ég er viss um að þú veist hversu vel við kunnum að meta þig. Og ef einhver vill sýna þakklæti sitt í verki á enn greinilegri hátt þá býðst tækifæri til þess á þriðjudaginn þegar sett verður í gáminn!
Þetta þótti mér vænt um. Það er frábært fólk sem ég hef verið að vinna með og mun sakna þeirra mikið, fórum einmitt nokkur saman út að borða á föstudaginn og að dansa á eftir. Allir á hjólum auðvitað, krökkt af hjólum fyrir utan skemmtistaðinn og fólk skilar inn hjálmum í fatahengið. Um 4-leytið þegar ég var að hjóla heim í stuttu pilsi og bol varð mér hugsað: "Hvenær mun ég gera þetta aftur, hjóla léttklædd heim af djamminu?" Líklega verður það ekki á næstunni.

Jæja.... komið að kveðjustund.
Þann 23. janúar 2005 var fyrsta bloggfærslan skrifuð og ég verð að segja að þetta hefur gefið mér mjög mikið. Svo er auðvitað ómetanlegt að eiga skriflega heimild um þessi ár okkar, mjög margt úr hversdagslífinu myndi gleymast annars. Þetta eru sem sagt rúmlega 3 og hálft ár sem lesendur hafa fengið að skyggnast inn í hið æsispennandi líf okkar. En nú er mál að linni. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa nennt að fylgjast með okkur og vona að hver og einn einasti sem les þessa færslu kvitti fyrir sig, enda síðasti séns!
Takk fyrir elskurnar!


laugardagur, júlí 19

Óðir apar, white trash líf og kaffidrykkja

Jæja, börnin eru þá formlega flutt til Íslands, fóru í gær, nákvæmlega uppá dag fjórum árum eftir að við fluttum hingað. Ég sit ein eftir í húsi sem er fullkomin rúst, drasl og kassar út um allt!

Við reyndum að mjólka síðustu dropana úr Svíþjóðardvölinni og fórum í 2 ferðalög á 5 dögum. Fyrst til Gautaborgar með Malin vinkonu minni úr vinnunni og syni hennar, bjuggum á fínasta hóteli í miðbænum í 2 nætur og skelltum okkur í helstu afþreyingu borgarinnar, sem sagt Liseberg tívolíið og Universeum sem er mjög skemmtilegur staður nema hvað að ég fékk símtal inní miðjum "regnskóginum": "Ég heiti Jonas og vinn hérna í Universeum, sonur þinn varð bitinn af apa!" Það er ekki símtal sem maður fær á hverjum degi. Ég skundaði auðvitað á staðinn, fylgdi blóðslóðinni og fann drenginn minn kaldsveittan og náfölan inni á klósetti, allan í blóði þótt erfiðlega hafi gengið að staðsetja sárið vegna þess hve lítið það var. Læknarnir tveir skelltu piltinum á gólfið og lyftum upp fótleggjunum, enda vanar að sjúklingar líði út af í skoðunarstólnum hjá okkur í vinnunni, það er víst ekkert geggjað að láta opna kýli í hálsinum hef ég heyrt. Anyway, við slógum okkar klóku hausum saman, hringdum þar að auki í þriðja lækninn og niðurstaðan varð að best væri að setja hann á sýklalyf. Fengum líka frímiða til að komast aftur í Universeum við tækifæri, anyone??

Daginn eftir að heim var komið var svo lagt af stað í næstu ferð og það til stórborgarinnar Malmköping. Vinahópurinn vildi ólmur komast saman í útilegu, og á íslenskan máta var farið af stað að hringja út um allt 2 dögum fyrir, allt staðar fullt nema á þessum úrvalsstað og því var ferðinni heitið þangað. Frábær staður, lifðum poor white trash lífi í 2 daga og fíluðum það í tætlur. Þarna var allt sem við þurftum og meira til, þar að auki gott veður og mikil stemmning, meira að segja live tónlist á laugardagskvöldið á tjaldstæðinu, hin víðfræga hljómsveit Rhythm Boys lék fyrir dansi við mikinn fögnuð viðstaddra.
Í vikunni fór Katla ein í lest til Stokkhólms til að hitta nýja vinkonu, þær fóru svo saman í Gröna Lund og hún ein í lestinni heim. Gekk ótrúlega vel og stúlkan auðvitað að rifna úr stolti, en ég veit ekki hvað barnaverndaryfirvöld segðu um þetta (uss... þetta er bara okkar á milli!)

Gunna og Diddi eru orðin 3ja barna foreldrar og geri aðrir betur! Eignuðust yndislega dóttur 8. júlí, innilega til hamingju kæru vinir!

Að lokum verð ég að bæta við að móðirin er loksins orðin fullorðin. Til glöggvunar vil ég taka það fram að þetta er kaffi í bollanum!!




mánudagur, júlí 7

Ítalía og fleira

Er ekki alveg búin að leggja upp laupana enn, spái því að þetta sé... hmmm... þriðja síðasta færslan, enn er tækifæri til að kommentera áður en síðan kveður að eilífu!

Komum heim frá Ítalíu fyrir viku síðan, besta afmæli sem við höfum verið í. Amma Kriss var að fagna verðandi sextugsafmælinu með því að bjóða la grande famiglia til Toscana í 2 vikur, og þar dvöldum við í la dolce vita á miðri vínekru, í risa húsi með einkasundlaug og fínerí. Sem betur fer er ég áfram í sumarfríi, hefði verið erfitt að fara beint í vinnuna eftir þetta lúxusfrí.




Kvöldið áður en við lögðum af stað í ferðalagið fórum við Gulla á tónleika með Dolly Parton og hún var algjört æði.
"People ask me if I get offended by dumb blond jokes. Why should I? I know I'm not dumb... and I know I'm not blond either!" Hún er nýja idolið mitt!!

Sölvi hamast við að vera kaldhæðinn:
"Sölvi minn, viltu hafragraut í morgunmat?"
"Nei. Kaldhæðni!"
"Hmm... Sölvi minn, það er ekki nóg að bæta orðinu kaldhæðni fyrir aftan það sem maður segir til að það verði kaldhæðið... þú skilur þetta þegar þú verður eldri!
Katla, sem er dottin kylliflöt í Vina-pakkann, er samt farin að fatta. "Mamma, er Chandler ekki með kaldhæðnishúmor?"

Við erum byrjuð að pakka búslóðinni, hér er allt í rúst, og mikið óskaplega er leiðinlegt að flytja, var alveg búin að gleyma því...


Free Hit Counters
Free Counter