Katla og Sölvi

miðvikudagur, júlí 13

Mörg orð um ekki neitt

Hér hefur verið hitabylgja undanfarið, 33 gráður hæst og glampandi sól, örlítið of mikið fyrir minn smekk en ég er þó alls ekki að kvarta! Var reyndar á Íslandi um helgina og kom sér vel að hafa pakkað skíðaúlpunni, flíspeysunni og vettlingum enda 11 gráður og súld. Fór um mig vellíðunarstraumur þegar ég var að lenda á sunnudagskvöldið og tilkynnt var í hátalarann: "vid erum nú að koma inn til lendingar í Stokkhólmi, klukkan er korter yfir níu, hér er heiðskírt og 28 stiga hiti". Aahh.... Hallaði mér aftur og lokaði augunum, sá sjálfa mig fyrir mér í sólstól með sumarlegan drykk í hönd. Tókst meira að segja að bægja þeirri hugsun á brott að flugstjórinn væri fyrrverandi kærasti vinkonu minnar sem hegðaði sér alltaf eins og 12 ára krakki með athyglisbrest á þeim árum sem við umgengumst hvað mest, en honum tókst að lenda vélinni með glæsibrag. Ég fór svo í búð á heimleiðinni og rétt þar fram 2 rennblauta seðla, var að hugsa um að koma með klassísku afsökunina ("sko, sonur minn var eitthvað að sulla, ha ha, þessi blessuð börn") en ákvað svo að brosa bara á dularfullan hátt og segja ekkert, ekki einu sinni þegar maðurinn fyrir aftan mig í röðinni spurði hvort ég stæði í peningaþvætti. Held einhvern veginn að ég hefði ekki virkað vitund minna skrýtin ef ég hefði komið með sannleikann: "Jo det var så här att jag var på ett ställe i helgen som heter Thórsmörk på familjebilen som kallas Múkkinn och när vi körde över ån som heter Krossá då kom vatten in genom golvet och min väska blev blöt med alla mina pengar i..." Best að nota bara Mónu Lísu aðferðina.
Það var frábært að komast í skreppitúr í faðm fjölskyldunnar, verst að þurfa að fara svona fljótt aftur en nú eru einungis 6 dagar þangað til þau koma hingað! Ingi er þessa stundina með krakkana í Flatey á Breiðafirði í 2 daga, símasambandslaus þannig að ég get ekki fært ykkur neinar sjóðheitar fréttir af þeim, geri ráð fyrir að allt sé í lukkunnar velstandi.
Þurrkurinn undanfarið hafði verulega áhrif á garðinn okkar í fjarveru minni; öll sumarblómin dauð og grasið í andarslitrunum, ég er núna með blettinn í gjörgæslu og vökva þrisvar á dag, vona að hann nái sér á strik. Verð að fá einhvern nágrannanna til að vökva um helgina því þá er ég á vakt (árans vinnan alltaf að trufla mann frá mikilvægum hlutum eins og að sitja útá palli með góða bók og ískalt hvítvín!)


miðvikudagur, júlí 6

Hringnum lokað

Svo að við byrjum á Duran tónleikunum þá voru þeir í einu orði sagt frábærir! Æðið hefur augljóslega verið heldur dempaðra hér um slóðir heldur en á Íslandi, tónleikarnir voru á frekar litlum stað sem tekur aðeins 2000 manns og það skapaði auðvitað gríðar stemmningu, ég var afskaplega lukkuleg með að geta verið aðeins í 3ja metra fjarlægð frá gömlu goðunum.
Hér hefur verið bongóblíða síðustu daga, 25 stiga hiti og glampandi sól hvern einasta dag. Ég var á vakt á laugardaginn, rólegt eins og oft, ég sat úti í sakleysi mínu og las í dágóða stund og endaði sem rjúkandi brunarúst! Það er hins vegar óðum að jafna sig, nú er ég komin með freknur í milljónatali, ég bíð bara eftir að þær renni saman í eina risafreknu, þá verð ég kaffibrún og fögur eins og brasilísk fegurðardrottning.
Nú, svo er ég loksins komin á nýja bílinn og hann stendur sig með stakri prýði. Nú finnst mér hringnum vera lokað; flutt aftur til Uppsala og komin á bláan Volvo skutbíl eins og foreldrar mínir forðum. Ætli þessi endi ævina á sama hátt og sá gamli, vera seldur um borð í rússneskan togara fyrir 12 vodkaflöskur?
Annars er efst í huga mér að ég mun hafa ástkæra móðurjörðina undir fótum mér eftir 2 daga og fæ loks að knúsa restina af fjölskyldunni!


Free Hit Counters
Free Counter