Katla og Sölvi

miðvikudagur, ágúst 24

Hversdagsleikinn enn á ný

Jæja, þá er sumarfríið búið, ég byrjaði að vinna í fyrradag. Sjaldan verið jafn erfitt að vakna og sjaldan verið jafn löng leið í vinnuna. Krakkarnir byrjuðu líka í skólunum þá og eru bara alsæl með það, meira að segja Sölvi sem daginn áður var alveg ákveðinn í því að fara EKKI í leikskólann. Svo reyndist þetta bara hið besta mál. Reyndar var hann víst hundfúll í morgun og sagði við afa sinn að hann vildi alls ekki fara því það væri aldrei eftirréttur á leikskólanum!
Ferðalagið var afskaplega fínt. Í grófum dráttum var það svohljóðandi: Gränna - Visingsö - Astrid Lindgrens Värld - Kalmar - Öland - Norrköping og Kolmården. Þetta tók okkur 12 daga, komum reyndar heim 2 dögum á undan áætlun vegna almennrar þreytu og heimþrár. Kyrjuðum á heimleiðinni: "Uppalalla best! Uppalalla best!" (bein tilvitnun í Krissa litla nágranna okkar sem einnig var búinn að fá nóg af ferðalögum þegar þau heimsóttu okkur til Ölands og vildi bara komast heim til Uppsala). Nýji fjölskyldumeðlimurinn Pála beið okkar þolinmóð á meðan fjarveru okkar stóð (fékk reyndar innlit frá nágrönnum, óþarfi að senda Dýraverndunarsamtökin á okkur) og ég er ekki frá því að heyrst hafi fagnaðartíst þegar fjölskyldan ruddist inn úr dyrunum. Annars er þetta hljóðlátasti páfagaukur í norðurhveli jarðar.
Ingi fór síðan heim til Íslands fyrir viku, Landsbankinn var auðvitað í lamasessi á meðan hann var í burtu en þetta er víst allt að skríða saman aftur. Hann var að fara í dag að fylgjast með upptöku á einhverju svakalegu hópatriði í myndinni hans Clints (við erum á first-name basis þar sem maðurinn minn hefur tekið í hendina á honum og sagt einhver án efa vel valin orð). Annars skilst mér að það sé enginn maður með mönnum nema vera búinn að hitta Clint eða hafa pumpað í Laugum í návígi við hann.
Svo kom pabbi á laugardaginn og var strax settur í að passa, ég fór í hina árlegu kräftskivu hjá Sunnu og Sigurði Yngva, óskaplega gaman, góður matur (er ekki frá því að krabbarnir smakkist betur með hverju árinu sem líður), söngur, dans, glens, grín og trúnó. Síðan hefur pabbi séð um að halda hlutunum gangandi á heimilinu og mun halda því áfram út næstu viku. Ég byrja í Uppsala 1. sept og verður það auðvitað mikill léttir og mun þægilegra á allan hátt.
Við erum búin að fjárfesta í rafmagnspíanói fyrir heimasætuna sem fór í sinn fyrsta píanótíma í dag, gekk mjög vel að hennar sögn og var ekkert mál. Aldrei að vita nema móðirin grípi í hljóðfærið stöku sinnum og reyni að rifja upp eitthvað af fyrri kunnáttu.
Katla hefur engu gleymt af sænskunni og ég held að henni finnist mjög gaman að tala hana, fer einhvern veginn í eitthvað hlutverk, "Katla hin sænska". Við vorum á leiðinni í bíó á sunnudaginn ásamt Guðrúnu Söru og Margréti og bræðrum þeirra. Þá sveif á okkur blaðamaður frá Uppsala Nya tidning (AÐAL-blaðið hér) og vildi taka viðtal við stelpurnar, spyrja hvernig þeim litist á að vera að byrja í skólanum. Þetta birtist síðan daginn eftir, stúlkurnar mjög stoltar (myndin var hins vegar í einhverri míkró-stærð, bæði ég og pabbi flettum framhjá henni án þess að taka eftir).
Sölvi hins vegar var mjög ryðgaður í sænskunni eftir sumarið en þetta er allt að koma. Þegar við vorum í Astrid-garðinum voru þau systkinin að fylgjast með brúðuleikhúsi á meðan við foreldrarnir sóluðum okkur fyrir utan tjaldið. Ég heyrði útundan mér að Lína var að leita að Herra Níels, og þá heyrðist allt í einu rödd sem hrópaði yfir allt tjaldið: "Hann er förer aftan dej!" Drengurinn hefði líklega þurft intensívan sænskukúrs áður en hann byrjaði í leikskólanum, en ég haga mér bara eins og sú nútímamóðir sem ég er og læt fóstrurnar um að ala hann upp!


mánudagur, ágúst 1

Sumarfrí

Nú erum við fjölskyldan að pakka niður fyrir stóra ferðalagið okkar sem hefst á morgun og á að standa í 2 vikur (ef við höldum út það lengi og verðum ekki tilbúin til að gefa hvort annað til ættleiðingar). Hættum snarlega við að eyða nokkrum nóttum í tjaldi og var það ákveðinn léttir, sváfum í tjaldi um daginn og þótt það hafi verið yndislegt þá er margt ánægjulegra en að vakna á loftlausri vindsæng með tjaldið fullt af kvikindum af öllum stærðum og gerðum (reyndar var einn fjölskyldumeðlimur sem fannst það gefa ferðalaginu aukið gildi). Ætlum núna að taka lúxusútgáfuna og gistum í hinum og þessum kofum.
Fórum sem sagt í afmælissiglingu um skerjagarðinn með Sölva afmælisbarn, fundum frábæra eyju og tjölduðum þar í lítilli vík, sigldum (er hægt að segja það á mótorbát?) svo heim í blíðskaparveðri daginn eftir og hófumst handa við bakstur fyrir afmælisveisluna sem var haldin með pomp og prakt á laugardaginn. Þar komu saman vinir nær og fjær, það er að segja þeir sem komu á tveimur jafnfljótum héðan úr Herrhagen og svo þeir sem komu keyrandi frá Stokkhólmi. Tókst mjög vel, vorum svo heppin að hægt var að sitja úti allan tímann og var því hægt að loka á öll lætin inní húsinu og fullorðna liðið sat útá palli með hvítvínsglas allan tímann, ljúft! Reyndar var það að einhverju leyti að þakka forláta gashitara sem húsbóndinn fjárfesti í og slær út öllum rafmagnshiturum hverfisins, mun væntanlega sjá til þess að snjómokstur í vetur verður enginn.
Börnin eru öllum stundum með íslensku nágrönnum sínum, í gær voru þau hérna öll 7, mikið glens og grín. Ég fílaði mig eins og alvöru íslenska húsmóður þar sem ég stóð og skólfaði í þau grjónagraut. Það er auðvitað ómissandi fyrir þau að hafa þessa krakka nálægt og mikill samgangur einnig meðal foreldranna.
Við erum líka búin að afreka heimsókn í bústað til vinafólks mömmu og pabba, hann er 2,10 og hún 1,95, svo að við vorum litla feita parið.
En nú er sem sagt ferðalag framundan, best að drífa sig í háttinn. Fyrsta stopp er Gränna og Visingsö.
På återseende!



Sölvi segir: Hæ allir og takk fyrir gjafirnar! Posted by Picasa



Skipstjórarnir í afmælissiglingunni Posted by Picasa



Afmæliskakan hámuð í sig Posted by Picasa



Kvöldbað hjá Kötlu Posted by Picasa


Free Hit Counters
Free Counter