Katla og Sölvi

sunnudagur, janúar 15

Harðsperrur og heimavinnandi húsmæður

Húsmóðirin er nánast orðin heimavinnandi. Er reyndar ennþá í yfir 100% vinnu, dagvinnu og vöktum, en breytingin er sú að frá og með þessari viku fæ ég að taka út vaktafríið á fimmtudags eftirmiðdögum og verð því í fríi þá. Algjörlega yndislegt, vissum varla hvað við áttum af okkur að gera, óvön að vera heima þegar allir aðrir eru að vinna. Til að slá tvær flugur í einu höggi þá er ég einnig í barnseignarfríi þessa daga (já, ég veit að drengurinn er að verða 6 ára og er sterkari en ég, en svona er nú gott að búa í Sverige!). Þennan fyrsta hálfa frídag afrekuðum við að baka skinkuhorn og taka saman jóladótið. Hér er leyfilegt að hafa það fram í miðjan janúar og auðvitað nýttum við okkur það. Svíarnir eru þó ósköp dannaðir í þessu öllu saman og þykir nánast guðlast að hafa seríur í öðrum lit en hvítum. Þeir eru einnig miklu hæverskari varðandi rakettur á gamlárskvöld, eftir að hafa eytt áramótunum ytra síðast var ég alveg heilluð af ljósadýrðinni heima um þessi áramót og einnig mjög hugsi yfir því hvers vegna maður heyrir aldrei um að fólk slasist við að fá rakettuprik í hausinn.
Það gekk bara vel með nýju barnapíurnar (er hægt að segja píur þegar um strák er að ræða?), þau eru búin að passa tvisvar og þar af gist einu sinni, held að það hafi gengið bærilega, að minnsta kosti engar kvartarnir.
Í gær vorum við sjálf að passa, Örnólfsbörn voru hér á meðan foreldrar þeirra brugðu sér út að borða og í bíó. Það er heilmikið mál að vera með 2ja ára krakka, hvernig gat ég verið búin að gleyma því? Katla og Guðrún voru reyndar mjög duglegar við að passa Krissa, en það endaði samt þannig að þær gáfust upp enda ærið verkefni. Katla orðaði þetta mjög vel: "Maður þreytist svo fljótt, en hann ekki. Það er það sem klikkar."
Í dag fórum við á skíði, keyrðum 150 km til að komast á almennilegt skíðasvæði. Ég komst að því að það tekur verulega á taugarnar að fara á skíði og það virðist sem ég sé ekki í nægilega góðu jafnvægi til að höndla það. Einn fjölskyldumeðlimur hafði engu gleymt síðan síðast, annar hafði gleymt öllu og sá þriðji hefur alltaf verið lélegur. Ég var algjörlega búin á líkama og sál eftir 2 klst og þá fórum við bara heim, enda áttum von á góðum gestum, Sunnu og Sigurði og börnum.
"YESSS, við eigum æfingaspólu!" hrópaði drengurinn sigri hrósandi um daginn og hafði þá dregið fram hina rykugu og löngu gleymdu "Lyftu lóðum til að losna við fitu". Hann náði að plata mig í að taka þátt og eftir samningaviðræður um hver ætti að hafa lóðin þá hófust æfingarnar. Ég var ansi ánægð með mig eftir á og hugsaði með mér að það ætti nú ekki að vera mikið mál að gera þetta annað slagið. Ég var þó fljót að skipta um skoðun þegar ég vaknaði með harðsperrur dauðans daginn eftir sem bara ágerðust eftir því sem leið á daginn. Um kvöldið velti ég því alvarlega fyrir mér hvort ég þyrfti nokkuð að fara upp á efri hæðina, hvort ég hefði ekki allt sem ég þyrfti niðri; klósett, sturtu og tannbursta, ísskápinn og sófa til að sofa í, gæti verið í sömu fötunum daginn eftir og sett reykskynjarann af stað um morguninn til að vekja börnin! Það má vart milli sjá hvort okkar mæðgina er meiri íþróttaálfur....


sunnudagur, janúar 8

Nýtt ár

Jæja, þá erum við komin aftur eftir áramótaferð til Íslands, allir sem við náðum ekki að hitta fá sérstaka kveðju og loforð um bætta hegðun í næstu Íslandsferð. Höfðum það mjög fínt, náðum að upplifa rigningu, rok, lárétta snjókomu, slyddu, skafrenning og hið sívinsæla slabb. Ótrúlega gott að komast í vetur eins og vetur eiga að vera; skafa af bílnum með bros á vör og raula glaðlegan lagstúf á meðan mokað er frá útidyrunum í stillu og temmilegu frosti. Það er komið skautasvell nánast við húshornið hjá okkur og börnin voru auðvitað ekki lengi að skella sér þangað, við Sölvi ætlum að fjárfesta í skautum hið fyrsta svo að við getum þeyst á eftir heimasætunni. Þetta er hið fínasta svell sem er meira að segja upplýst á kvöldin, hægt að renna sér arm í arm með sínum heittelskaða í rómantísku vetrarljósi (fyrir þá sem hafa áhuga á slíku ....) Í dag var skautaþemanu haldið áfram, brunuðum til höfuðborgarinnar og skelltum okkur á skautasýningu sem er byggð á nokkrum Disney-ævintýrum, mjög flott og skemmtileg sýning. Munaði reyndar litlu að við misstum af fjörinu (sem hófst kl. 15) vegna þess að við sváfum svo lengi, allt í rugli eftir fríið.
Á morgun byrjar svo alvara lífsins á ný; vinna, skóli og nýjar barnapíur. Já, í fleirtölu í þetta skiptið, það eru systkini sem eru búin að taka að sér verkefnið í sameiningu og byrja á morgun. Höfum hitt þau einu sinni, virtust mjög ábyggileg og traust, vonandi er eitthvað fjör í þeim líka. Eins og sannir Svíar spurðu þau auðvitað hvort það væri eitthvað sem börnin mættu ekki borða, ég er ekki frá því að mikilvægustu orðin í sænskri tungu séu Allergi och överkänslighet.
Nú eru að verða komnir 3 mánuðir síðan Sölvi byrjaði nýtt líf og hefur hann ekki hvikað frá nýja lífsmátanum svo mikið sem augnablik síðan. Eins og margir vita þá hefur barnið tekið upp algjört heilsuæði, neitar að borða það sem ekki er hollt og gerir æfingar sem óður maður. Hann borðar auðvitað ekki nammi, vill ekki gos eða ís, ekkert sætabrauð og ekki einu sinni kanelsykur út á grjónagrautinn. Þegar það er fredagsmys hjá litlu fjölskyldunni sitjum við Katla með kók, nammi og samviskubit á meðan litla barnið hámar í sig gulrætur og vínber og skellir sér svo á gólfið og gerir armbeygjur með reglulegu millibili. I blame you, Magnús Scheving!
Ég fylltist eldmóði um daginn og sagði við Sölva að ég ætlaði sko að verða svona dugleg eins og hann að æfa vöðvana og hugsa vel um líkamann. Hann leit hins vegar á mig með svip sem var blanda af fyrirlitningu og meðaumkun, og sagði: "Mamma, þú ert ALLT OF GÖMUL!" Það er gott að einhver sér til þess að maður horfist í augu við raunveruleikann.
Þrátt fyrir að drengurinn sé með öll helstu næringarefni á hreinu þá getur hann aldrei munað hvenær hann á afmæli. "Ehh... 1. desember... eða kannski 7. júní..." Hann er samt með stjörnumerkin á hreinu og tilkynnti um daginn: "Sko ég er ljón, mamma og Katla eru fiskar, pabbi er hrútur og Rannveig er hamstur!" Ég hef reyndar ekki lesið stjörnuspána nýlega, hljómar samt eitthvað undarlega...


Free Hit Counters
Free Counter