Katla og Sölvi

föstudagur, október 21

Frí framundan

Ég fór með heimilissímann með mér í vinnuna um daginn, algjörlega utan við mig. Ætli maður ætti kannski að fara að taka Gingseng eða eitthvað? Bragi bróðir fór reyndar einu sinni með fullan ruslapoka með sér út í Hagaskóla, þannig að þetta er greinilega í genunum.
Nú er heldur betur farið að styttast í heimferð, komum á morgun og hlökkum mikið til. Ég er alveg til í að fá frí úr vinnunni í nokkra daga. Það er reyndar mjög fínt í vinnunni og ég held að þetta gangi bara vel.
Svíarnir mega nú eiga það að þeir eru góðir í að hrósa öðrum. Hef lent í því oftar en einu sinni að standa eins og illa gerður hlutur á meðan hrósinu er ausið yfir mann (verðskuldað? er ekki viss...), berst við mitt innra sjálf sem vill helst svara eins og sönn kona: "þetta er einhver misskilningur, ég er alveg ómöguleg". Mér líður reyndar eins og hálfvita oftast nær og finnst ég ekkert kunna, líður eins og ég hafi svindlað mér einhvern veginn inn í þetta, er alltaf að bíða eftir að einhver fletti ofan af mér og svipti hulunni af svikaranum þegar í ljós kemur að ég kann ekki neitt, heldur fékk í jólagjöf bókina "Bluff your way into otolaryngology". Slæ hins vegar ekki hendinni á móti hrósinu núna á þessum síðustu og verstu tímum, hugga mig við það að ég sé lítill en afar mikilvægur hlekkur í að halda gangandi því undraverða tannhjóli sem líkami mannsins er (gubb, gubb).


sunnudagur, október 9


Verð að monta mig aðeins af peysunum, eru þau ekki fín? Ef grannt er skoðað má einnig sjá nýja skarðið hans Sölva, 2 farnar í neðri góm! Posted by Picasa


laugardagur, október 8

Á vaktinni

Þýðir ekki að láta deigan síga, the blogg must go on...

7 down, 17 to go.... það er að segja klukkustundir þangað til ég er búin á vaktinni.
Afinn kemur í dag, verður ósköp gott að fá hann í nokkra daga. Sé hann reyndar ekki fyrr en í fyrramálið þegar vaktinni lýkur, en hann ætlaði að taka við af Rósu nýju barnapíunni okkar í dag og skella sér með börnunum í afmæli til Þorra. Amman kemur ekki í þetta skiptið en þau eru væntanleg bæði eftir 3 vikur. "Þetta var sko amma mín", sagði Sölvi við Rósu um daginn þegar hann var búinn að tala við ömmu Kriss í símann, "sko amma mín sem fæddi mömmu mína og er hrædd vid mýs."
"Getur maður dáið af því að missa tönn?", spurði litli drengurinn áhyggjufullur um daginn þegar hann var búinn að missa fyrstu tönnina sína (það er að segja sú fyrsta sem fer með eðlilegum hætti). Hann var agalega ánægður þegar ég fullvissaði hann um að svo væri ekki. Vildi alls ekki setja hana undir koddann heldur frekar bíða þangað til hann væri búinn að missa allar tennurnar og setja þær síðan allar saman undir koddann til að fá rosa mikið gull. Hann fór svo með hana í leikskólann þar sem hún týndist, fannst aftur og týndist enn á ný án þess að finnast. Kannski eins gott, hefði vaknað með hálsríg með allt þetta gull undir koddanum.
Að lokum hugleiðing frá Sölva: "Mamma, er allt gott sem endar vel?"


Free Hit Counters
Free Counter