Katla og Sölvi

sunnudagur, júní 17

Hæ hó jibbí jei

Fór lítið fyrir hátíðarhöldum á þessum bæ. Hér var dæmigert 17. júní veður, rigndi meira og minna allan daginn og endaði með því að við skrópuðum í íslendingagrillið á vegum Íslendingafélagsins, veit að það er ekki til fyrirmyndar, en grill og Hlaupa í skarðið missir einhvern veginn sjarmann í rigningu. Við Sölvi fórum í staðinn í grill til Örnu og Einars Gunnars og var guði sé lof borðað innandyra, Katla fór hins vegar í afmæli með Hawaii-þema til Guðrúnar Söru.
Ég er komin í tveggja vikna frí og þótt undarlegt megi virðast er það barnseignarfrí. Hálf kjánalegt að segja frá þessu þegar barnið sem um ræðir vinnur mig í sjómann og nær mér upp að geirvörtum (hér vil ég strax leiðrétta misskilning sem gæti ef til vill átt sér stað, mætti halda að hann væri ekkert sérlega hávaxinn og brjóstin á mér þar af leiðandi mjög sigin, en staðreyndin er fjarri lagi, hann er hæstur í sínum bekk og þar af leiðandi.... well, you do the math!)
Er sem sagt búin að vera í fríi síðan á fimmtudaginn og mikið óskaplega venst það vel. Verst hvað börnin í hverfinu eru búin að vera mikið heima þessa dagana, í samanburði við þau er ég mjög óspennandi að mér skilst. Erum samt búin að fara á Naturhistoriska museet í Stokkhólmi sem er svakalega skemmtilegt safn. Við keyrðum sem sagt alla leið þangað en þegar við stóðum í röðinni og ætluðum að kaupa miða kom í ljós að veski móðurinnar var í annarri tösku sem hékk alsaklaus á snaga á Herrhagsvägen 266. Við vorum öll hins vegar algjörlega innstillt á að fara á þetta safn og nákvæmlega þennan dag, þannig að það var ekki um annað að ræða en að sækja veskið. Man ekki eftir að hafa keyrt tvisvar til Stokkhólms sama daginn áður.
Fleira spennandi höfum við afrekað. Í gær fórum við á útivistarsvæði sem heitir Fjällnora, vorum reyndar ekki með sundföt sem voru mikil mistök í frábæru veðri, fórum þá bara í gönguferð í ævintýraleit og fundum hvorki meira né minna en nektarströnd! Krökkunum leist samt ekkert á að baða sig þar...
Nú svo fer auðvitað að styttast í Íslandsferð hjá okkur öllum, einhver sagði mér að maður ætti að aldrei að skrifa á bloggið hvenær maður færi í burtu því þá væri fritt fram fyrir þjófa og ræningja, en ég held að bófarnir hér um kring skilji ekki íslensku. Til öryggis skrifa ég samt dulmál: Komum á næstkomandi degi sem rímar við sviðkrikulegi og ég verð í kvaðratrótina af 49 daga en börnin í mmif eða xes vikur. Ef ykkur þykir vænt um mig skuluð þið brenna tölvuna að lestri loknum, þá er ég alveg örugg. Hlakka til að sjá ykkur öll!


fimmtudagur, júní 7

Saga úr raunveruleikanum

Sölvi kom hlaupandi til mín í ofboði í dag: "Mamma, mamma! Sturtu! Strax!" Mér dauðbrá, hélt að einkasonurinn hefði hlotið 3ja stigs bruna og þyrfti kælingu án tafar en annað kom á daginn. "Sko ég var út í skógi og var svo svakalega mál að pissa en svo fór bara allt á mig!" Og þá vorum við ekki bara að tala um að stuttbuxurnar og bolurinn væri blautt heldur hafði hann pissað framan í sig og meira að segja í hárið á sjálfum sér!!! Hann fékk ósk sína um instant sturtu uppfyllta....


miðvikudagur, júní 6

"Sverige gjorde fiskpuré av Island!"

"Island mosades på Råsunda!", "Sverige slaktade Island!" Lauslegar þýðingar til glöggvunar: fiskpuré = fiskistappa, mosades = voru stappaðir, slaktade = slátruðu, held ég þurfi ekki að halda áfram, mig grunar að þið skiljið innihaldið. Verð eiginlega að viðurkenna að einstaka sinnum væri gaman að tilheyra þjóð sem ætti einhverja möguleika á árangri á alþjóðavettvangi og þyrfti ekki að lesa slíkar fyrirsagnir um sig í blöðunum. Ekki skemmtilegt. Gæti farið svo að maður þyrfti að sjúkskrifa sig í nokkra daga, varla hægt að láta sjá sig eftir þessa niðurlægingu!

Nú en að öðru leyti var þetta afar góður dagur enda þjóðhátíðardagur Svía, og mikið óskaplega er indælt að fá frídag í miðri viku. Eyddum deginum að miklu leyti í skerjagarðinum á snekkjunni í bongóblíðu (eins og er reyndar búið að vera alla síðustu daga), stoppuðum á lítilli strönd og létum fara vel um okkur þar áður en haldið var heim á leið. Læt fylgja með nokkrar myndir frá þessum frábæra degi.

Hér má sjá skvísurnar um borð, sumar óléttar og geislandi og aðrar bara geislandi. Skipstjórinn athugar áhyggjufullur hvað tímanum líður á úrinu mínu....

Börnin fengu að sitja framan á bátnum þegar ekki var siglt á rúmsjó og mæltist það mjög vel fyrir. Katla, Katla, Eyrún, Sölvi og Guðrún Sara.

Fruss og miklar öldur, þá er gaman að lifa!

Stýrimaðurinn gefur sér augnablik til að líta upp frá stýrinu og horfa ábyrgðarfullur í myndavélina.
Um síðustu helgi fór ég á geggjaða tónleika með Antony and the Johnsons ásamt nokkrum úr vinahópnum, hópferð í Dalhalla sem er ótrúlega flottur staður, dáldið eins og Kerið bara stærra, vatn neðst og sviðið út í vatninu, síðan búið að byggja áhorfendapalla upp í hallann. Alveg frábærir tónleikar í alla staði!
Sölvi á heimleiðinni áðan við Guðrúnu Söru: "Afi minn sko, hann vinnur við að fljúga til mismunandi landa og fara á fundi! Það er vinnan hans og þegar hann kemur til okkar, þá fer hann í vinnuna!"


Free Hit Counters
Free Counter