Katla og Sölvi

miðvikudagur, september 26

Enn af heimsborgurum

London, París, Róm, Reykjavík.... fjölskyldumeðlimirnir náðu að dekka tvær þessara borga um helgina. Skiptum reyndar liði enda nær maður engum árangri í þessu lífi nema með því að delegera.
Börnin tóku að sér að fara til Reykjavíkur um helgina og skemmtu sér konunglega sem endranær, Kötlu fannst hápunkturinn að hitta Tinnu frænku "hún er svo hrikalega sæt og mikil dúlla, og veistu mamma hún segir Gattla og það er eina nafnið sem hún kann!"
Sjálf fór ég á aðeins suðrænni slóðir, það er að segja til Rómar. Óskaplega skemmtileg ferð með læknum deildarinnar, mikið borðað, skoðað, verslað og almennt mikið stuð í hreint út sagt frábæru veðri, hefði ekki getað verið betra. Verð að segja frá mjög fyndnum atburði sem átti sér stað á föstudagskvöldið, gæti reyndar verið að þetta sé svona "guess you had to be there"-saga, en ég tek áhættuna. Við fórum öll út að borða voða fínt og svona, síðan vorum við nokkur sem vorum í stuði til að fara að dansa á eftir. Það var rifið í hnakkadrambið á næsta þjóni og spurt um góðan klúbb, settumst svo í leigubíl og þustum af stað út í óvissuna. Þetta reyndist vera mjög huggulegur staður sem var utandyra, klukkan var reyndar ekki mjög mikið og það var frekar fátt á staðnum þegar við komum. Eftir smá stund ákváðum við að skella okkur bara á dansgólfið þrátt fyrir að það væri tómt og sýndum alla okkar bestu takta, en eftir smá tíma tók ég eftir að það var farið að safnast fólk í kringum dansgólfið sem STÓÐ OG HORFÐI Á OKKUR OG HLÓ! Að vísu vorum við ekki bara miklu eldri en allir þarna (meðalaldurinn hefur verið hámark 22 ár á meðan meðalaldur okkar var 45 ár og ég yngst...) heldur líka 30 cm hærri en allir aðrir. Meira að segja Össi sem telst meðalmaður á Íslandi gnæfði yfir unglingana eins og Gulliver í Putalandi. Þar að auki var einn 57 ára með í för, kann augljóslega ekki að dansa en er búinn að vera mjög mikið í eróbikk og notaði sporin þaðan óspart ásamt frekar ótaktföstum rykkjum og skrykkjum. Ungviðið veltist um af hlátri og reyndu meira að segja nokkrir að herma eftir honum en áttu auðvitað ekki roð í hann. Persónulega þurfti ég að passa að snúa baki í hann til að fá ekki óvart hláturskast.

Ég gæti verið formlega gengin af göflunum en ég er búin að gefa yfirlýsingu um það í vinnunni að ég ætli í hálfmaraþon í maí. Gæti stefnt í smá hóp sem skellir sér, höfum auðvitað nokkra mánuði til að æfa, en hvaða mid life crisis er þetta eiginlega hjá manni? Ég sem lýsti því staðfastlega yfir fyrir nokkrum mánuðum að ég myndi aldrei hlaupa lengra en 10 kílómetra. Svo fann ég bara eftir keppnina að það datt algjörlega botninn úr æfingunum, nánast hætt að hlaupa og finn að ég verð að hafa eitthvað að stefna að. Þá er þetta svo sem ekki verra en hvað annað, kemur svo í ljós hvort úr þessu verður!


mánudagur, september 17

Heimsborgarar


Úff, hvar á ég að byrja? Ferðalagið var afskaplega gott í alla staði, finnst ég ekki hafa gert annað en að hvíla mig og borða...

Ferðin hófst í Feneyjum og gistum við þar eina nótt á hóteli:



Alltaf sígildar myndirnar þar sem eitt myndefnanna smellir af um leið og allir klessa sér saman til að reyna að komast fyrir....



Ég gat ekki séð að dúfunum á Markúsartorginu hefði fækkað neitt síðan ég var þarna síðast árið 1980! Þær eru auðvitað afskaplega gæfar og féll þetta allt saman dýravininum vel í geð:



Þarna erum við Sölvi í gömlum bæ sem heitir Alberobello og er í nánd við Bari á Ítalíu, þetta var fyrsta stoppið með skipinu.



Næst var stoppað í Katakolon á Grikklandi, það voru alltaf nokkrar ferðir í boði og í þetta skiptið völdum við að fara á ströndina.



Í Tyrklandi var fyrst stoppað í Izmir en þann dag ákváðum við einróma að vera bara eftir um borð, mjög notalegt.
Næsta stopp var Istanbul sem var mikil upplifun, mjög mikið fólk, ys og þys, og kebab-lykt yfir öllu... Þarna er Sölvi fyrir framan hina frægu bláu mosku.



Í Dubrovnik í Króatíu fann skordýrafræðingurinn þessa líka fínu eðlu sem hlaut nafnið Tómas. Sölvi dröslaðist með hana um allt þar til það rann upp fyrir honum að þetta væri líklega eðlustrákur sem hann væri að taka frá mömmu sinni, og var Tómasi því gefið frelsi á ný!



Í kringum gamla bæinn var borgarvirki sem hægt var að ganga uppá allan hringinn.



Dubrovnik kom skemmtilega á óvart, mjög gaman að koma þangað fannst okkur öllum þótt að minnsta kosti 2/3 hluta hópsins hafi þótt ívið of heitt.



Og svo þessar endalausu spurningar sem dundu á manni í sífellu:

"Mamma, var langalangalangalangalangalangafi minn risaeðla?" Hmm... ætti maður kannski að kenna honum frekar sköpunarsöguna, hún er einhvern veginn einfaldari en Darwin...
"Í hvaða stjörnumerki var Gustav Wasa?" Eigum við ekki bara að segja að hann hafi verið ljón eins og þú gullið mitt!
"Eru Inga og Ella nógu gamlar til að ráða yfir sér sjálfar?" Já ástin mín, þær eru 51 árs gamlar afasystur þínar og ráða reyndar yfir sér sjálfar!


miðvikudagur, september 5

Hitt og þetta í upphafi hausts

Jæja, þá er búið að halda uppá afmælið hans Sölva... aftur! Í íslenska afmælið vantaði auðvitað alla aðal vinina þannig að það var loksins slegið upp veislu á laugardaginn til heiðurs árunum 7. Veislan gekk bara nokkuð vel og fyrir utan eitt beinbrot fór hún friðsamlega fram. Eins og allir vita er ekki hægt að tala um almennilegt partý nema einhver endi á Slysó... Þetta var hann Viktor litli Helgason, 2ja ára snáði kominn af Keflvíkingum í báðar ættir, sem með hoppi og skoppi tókst að meiða sig svona. Þar sem faðir hans er barnalæknir og þar að auki röggsamur maður var barnið komið upp á bráðamóttöku og í gips upp að nára um það leyti sem gestirnir sporðrenndu síðustu kökubitunum.
Minnir mig á þegar Bragi bró var einmitt 2ja ára og fótbrotnaði, þá átti ég reyndar mun meiri hlut að máli. Þar sem Bragi var svo mikið krútt (og er enn!) með spékoppa og bollukinnar átti hann að vera lukkudýr á fótboltamóti sem ég var að keppa á í skólanum. Ég skellti drengnum því á bögglaberann og hjólaði af stað á fullu spani en neyddist til að hægja á mér þegar upphófust mikil hljóð og drengurinn sat pikkfastur með annan fótinn í afturdekkinu. Ja svei, svona er lífið!

Sé mig tilneydda til að leiðrétta þann misskilning að við séum búin að fara í siglinguna fínu, á erfitt með að segja ferðasöguna svona fyrirfram, en við förum sem sagt af stað á föstudaginn og gistum fyrstu nóttina í Feneyjum og höldum síðan úr höfn með öll segl þanin á laugardaginn. Ítalía, Grikkland, Tyrkland og Króatía - here we come!

Sölvi er kominn á sundnámskeið enda ekki seinna vænna að drengurinn læri að synda. Hann fílar það bara vel þótt móður hans finnist fullsnemmt að mæta í sund klukkan hálftíu á laugardagsmorgnum. Og ekki nóg með það heldur er hann líka kominn í karate. Fór með hann og Þorra í fyrsta tímann í fyrradag og það var stórkostlega fyndið. Þeir eru langyngstir og þar af leiðandi ekki einungis minnstir heldur líka vitlausastir. Við Katla hlógum svo tárin runnu en blessaðir drengirnir voru hæstánægðir og eru mjög spenntir að halda áfram. Mánudagarnir eru að verða ansi strembnir hjá okkur því Katla er í bæði badminton og dansi, Sölvi í karate og ég í innebandy. Katla ætlar líka að halda kórsöngnum áfram og svo eru þau auðvitað bæði í íslensku, nóg að gera hjá þessu unga fólki nú til dags!

Næst kemur ferðasagan...


Free Hit Counters
Free Counter