Enn af heimsborgurum
London, París, Róm, Reykjavík.... fjölskyldumeðlimirnir náðu að dekka tvær þessara borga um helgina. Skiptum reyndar liði enda nær maður engum árangri í þessu lífi nema með því að delegera.
Börnin tóku að sér að fara til Reykjavíkur um helgina og skemmtu sér konunglega sem endranær, Kötlu fannst hápunkturinn að hitta Tinnu frænku "hún er svo hrikalega sæt og mikil dúlla, og veistu mamma hún segir Gattla og það er eina nafnið sem hún kann!"
Sjálf fór ég á aðeins suðrænni slóðir, það er að segja til Rómar. Óskaplega skemmtileg ferð með læknum deildarinnar, mikið borðað, skoðað, verslað og almennt mikið stuð í hreint út sagt frábæru veðri, hefði ekki getað verið betra. Verð að segja frá mjög fyndnum atburði sem átti sér stað á föstudagskvöldið, gæti reyndar verið að þetta sé svona "guess you had to be there"-saga, en ég tek áhættuna. Við fórum öll út að borða voða fínt og svona, síðan vorum við nokkur sem vorum í stuði til að fara að dansa á eftir. Það var rifið í hnakkadrambið á næsta þjóni og spurt um góðan klúbb, settumst svo í leigubíl og þustum af stað út í óvissuna. Þetta reyndist vera mjög huggulegur staður sem var utandyra, klukkan var reyndar ekki mjög mikið og það var frekar fátt á staðnum þegar við komum. Eftir smá stund ákváðum við að skella okkur bara á dansgólfið þrátt fyrir að það væri tómt og sýndum alla okkar bestu takta, en eftir smá tíma tók ég eftir að það var farið að safnast fólk í kringum dansgólfið sem STÓÐ OG HORFÐI Á OKKUR OG HLÓ! Að vísu vorum við ekki bara miklu eldri en allir þarna (meðalaldurinn hefur verið hámark 22 ár á meðan meðalaldur okkar var 45 ár og ég yngst...) heldur líka 30 cm hærri en allir aðrir. Meira að segja Össi sem telst meðalmaður á Íslandi gnæfði yfir unglingana eins og Gulliver í Putalandi. Þar að auki var einn 57 ára með í för, kann augljóslega ekki að dansa en er búinn að vera mjög mikið í eróbikk og notaði sporin þaðan óspart ásamt frekar ótaktföstum rykkjum og skrykkjum. Ungviðið veltist um af hlátri og reyndu meira að segja nokkrir að herma eftir honum en áttu auðvitað ekki roð í hann. Persónulega þurfti ég að passa að snúa baki í hann til að fá ekki óvart hláturskast.
Ég gæti verið formlega gengin af göflunum en ég er búin að gefa yfirlýsingu um það í vinnunni að ég ætli í hálfmaraþon í maí. Gæti stefnt í smá hóp sem skellir sér, höfum auðvitað nokkra mánuði til að æfa, en hvaða mid life crisis er þetta eiginlega hjá manni? Ég sem lýsti því staðfastlega yfir fyrir nokkrum mánuðum að ég myndi aldrei hlaupa lengra en 10 kílómetra. Svo fann ég bara eftir keppnina að það datt algjörlega botninn úr æfingunum, nánast hætt að hlaupa og finn að ég verð að hafa eitthvað að stefna að. Þá er þetta svo sem ekki verra en hvað annað, kemur svo í ljós hvort úr þessu verður!