Katla og Sölvi

mánudagur, nóvember 26

27 dagar til jóla

Það er kominn snjór. Að vísu ekki mikið, ekki nægilegt til að komast á skíði, en vonandi styttist í að hægt verði að skella sér á gönguskíðin og æfa sig af kappi. Við stöllurnar erum búnar að skrá okkur í sömu keppni og síðast, og að sjálfsögðu verður tíminn að vera betri í ár en í fyrra!

Katla er bókagleypir. Fékk að minnsta kosti þá umsögn hjá kennaranum sínum að hún væri á efsta stigi í lestri og þá er maður svokallaður Bokslukare!

London var frábær eins og við mátti búast. Fremur kalt í veðri en ekkert sem ekki var hægt að klæða af sér. Við afrekuðum margt og mikið, fórum meðal annars upp í London Eye, á söngleikinn Lion King, og svo auðvitað út að borða og almennt spóka sig í stórborginni. Sölvi var alls óhræddur við að nota þessi þrjú ensku orð sem hann kann (yes - no - fire) en frökenin var tregari þrátt fyrir umtalsvert meiri orðaforða. Á heimleiðinni náðum við ekki sætum saman, ég sat hins vegar fyrir framan Sölva og hlustaði á mjög athyglisvert samtal sem átti sér stað fyrir aftan mig, eða samtal er líklega ekki rétta orðið, einhliða yfirheyrsla væri nærri lagi. Pilturinn sat við hliðina á ósköp vinalegum sænskum manni og spurði hann gjörsamlega spjörunum úr: "Hvað vinnurðu?", "Hvað heitirðu?" "Áttu einhver dýr?" o.s.frv., sem sagt frekar sakleysislegt. Ég fór samt ekki að svitna að ráði fyrr en ég heyrði "Ertu giftur?" og "Ertu ríkur?" og fór að hugsa hvort drengurinn væri kannski að leita að manni handa mömmu sinni, alltaf jafn hugulsamur þessi elska! Sölvi lét það þó ekki á sig fá þegar í ljós kom að viðkomandi var hvorki ríkur né einhleypur, og hann var mjög svekktur þegar við lentum: "Ohh.. ég ætlaði að spyrja hann 1000 spurninga í viðbót!"

Bragi bjó á besta stað, nánast á hóteli. Ég varð alveg græn af öfund þegar það kom í ljós að hann þarf ekki að sjá um nein þrif sjálfur. "Ég bað um að það yrði skipt á rúmunum áður en þið kæmuð!" Þetta er sko húsnæði að mínu skapi!



Frændur með Big Ben (og langferðabíl...) í baksýn

Sölvi í gær: "Mamma, ég teiknaði mynd í skólanum og hún var fett skön!"
(ok, líklega mun 95% lesenda finnast þessi setning hvorki fyndin né merkileg, en mér fannst hún samt þurfa skráningu einhvers staðar!)


miðvikudagur, nóvember 21

Sudoku-snillingar og sjónvarpsstjörnur

Mér finnst eitthvað svo stutt þar til við flytjum heim. Fæ hálfgert kvíðakast í hvert sinn sem þetta ber á góma, því þótt það sé komið á hreint hvar við munum búa á ennþá eftir að finna draumastarfið (gefur mjög mikið í aðra hönd og krefst lágmarks viðveru...) Mér finnst samt svo stutt í þetta, það tekur því varla að taka til, þrífa bílinn eða hvað þá hengja hluti upp á vegg eins og spegilinn í ganginum sem hrundi niður í gær. Hann fær líklega að standa og halla sér upp að veggnum þar til yfir lýkur!

Sölvi er búinn að uppgötva sudoku, móður sinni til mikillar gleði þar sem hún er algjörlega ofurseld þessum þrautum. Að hugsa sér, að þessar einföldu tölur frá 1 til 9 geti valdið svona miklum heilabrotum og fölskvalausri gleði. Getur ekki verið annað en hollt fyrir líkama og sál!
Vona bara að þetta verði ekki til að draga úr áhuga hans á heimalærdómi, það er hreinlega ekki á það bætandi. Það er annað en systir hans sem elskar að gera lexur og er iðulega búin með vikuskammtinn á þriðjudögum (eina ástæðan fyrir að þetta klárast ekki á mánudögum er að þá er svo mikið að gera hjá okkur; dans, badminton, karate og innebandy, púff!)

Við stefnum að því að gerast heimsborgarar eina ferðina enn um helgina og í þetta skipti munum við heiðra Lundúnaborg með nærveru okkar. Bragi bró gegnir nefninlega hlutverki starfsmanns Landsbanka Íslands í London um nokkurra mánaða skeið og því upplagt að skella sér í skreppitúr til hans. Við hlökkum mikið til, ætlum á Lion King söngleikinn á laugardaginn og sjá svo bara til, ég hef alltaf skemmt mér afar vel í þessari borg hingað til, en reyndar hafa börn aldrei verið með í för hingað til, hlýtur að vera hægt að finna eitthvað skemmtilegt fyrir þau líka.

Ég var í sjónvarpinu í gær. Það er nefninlega raunveruleikaþáttur á TV3 sem heitir Sjukhuset og er tekinn upp á Akademiska. Einn af aðalpersónunum sem fylgst er með er lýtalæknir sem ég kannast ágætlega við og hef af þeim sökum einstaka sinnum slysast til að vera með þegar tekið hefur verið upp. Veit ekki til að ég hafi sést fyrr en í gær, og ef marka má þetta stutta atriði, þá er mitt helsta framlag til læknavísindanna að sitja flissandi á kaffistofunni og drekka te... Spurning hvort ég þurfti ekki að ráða fagmanneskju til að hjálpa mér að bæta ímyndina eftir þetta áfall!


mánudagur, nóvember 12

Nóvemberslen

Er kvefuð í fyrsta sinn í þrjú ár. Hélt að ég væri alveg ónæm fyrir slíku þar sem ég fæst við hor og slef alla daga, þetta hlýtur að vera einhver stökkbreyttur stofn sem hefur ráðist á mig af algjöru miskunnarleysi.

Erum farin og komin (eða komin og farin, hvernig sem þið viljið hafa þetta) til Íslands, vorum öll í vikufríi og skelltum okkur yfir hafið. Reyndar ekki beina leið, þegar við komum út á völl kom í ljós að það var búið að umbóka okkur til Köben og þaðan seint og síðar meir til Íslands. Ég var gráti næst en flugvallarstarfsmaðurinn hafði enga samúð með okkur og skildi greinilega engan veginn alvöru málsins, þrátt fyrir að ég skýrði honum skýrt og greinilega frá því að ég yrði að komast heim því ég ætti pantað borð á Domo klukkan 8! Tillitsleysi almúgans never seizes to amaze me!

Er búin að átta mig á því að ég mun þurfa að bakka um 2 vikur í hlaupaprógramminu vegna kvefs og almennrar leti. Á Íslandi var vitlaust veður, gerði reyndar heiðarlega tilraun síðasta daginn því þá var langskásta veðrið, en varð næstum því úti. Verð líklega að sætta mig við að hlaupaferillinn er á enda við flutninginn til Íslands...

Undarlegt samtal sem átti sé stað milli systkinanna í flugvélinni
Sölvi: "Þetta var ganska svårt!"
Katla (með fyrirlitningu, skammar hann alltaf fyrir að blanda sænsku og íslensku): "Ganska svårt?"
S: "Nei, ég meina, ganska erfitt!"
K (enn með fyrirlitningu): "Ganska?"
S: "Ég tala ekki dönsku!"

Ætla svo að lokum að verða fyrst til að óska Kristínu Björgu til hamingju með afmælið, 24 ára á morgun litla krúttið!


Free Hit Counters
Free Counter