27 dagar til jóla
Það er kominn snjór. Að vísu ekki mikið, ekki nægilegt til að komast á skíði, en vonandi styttist í að hægt verði að skella sér á gönguskíðin og æfa sig af kappi. Við stöllurnar erum búnar að skrá okkur í sömu keppni og síðast, og að sjálfsögðu verður tíminn að vera betri í ár en í fyrra!
Katla er bókagleypir. Fékk að minnsta kosti þá umsögn hjá kennaranum sínum að hún væri á efsta stigi í lestri og þá er maður svokallaður Bokslukare!
London var frábær eins og við mátti búast. Fremur kalt í veðri en ekkert sem ekki var hægt að klæða af sér. Við afrekuðum margt og mikið, fórum meðal annars upp í London Eye, á söngleikinn Lion King, og svo auðvitað út að borða og almennt spóka sig í stórborginni. Sölvi var alls óhræddur við að nota þessi þrjú ensku orð sem hann kann (yes - no - fire) en frökenin var tregari þrátt fyrir umtalsvert meiri orðaforða. Á heimleiðinni náðum við ekki sætum saman, ég sat hins vegar fyrir framan Sölva og hlustaði á mjög athyglisvert samtal sem átti sér stað fyrir aftan mig, eða samtal er líklega ekki rétta orðið, einhliða yfirheyrsla væri nærri lagi. Pilturinn sat við hliðina á ósköp vinalegum sænskum manni og spurði hann gjörsamlega spjörunum úr: "Hvað vinnurðu?", "Hvað heitirðu?" "Áttu einhver dýr?" o.s.frv., sem sagt frekar sakleysislegt. Ég fór samt ekki að svitna að ráði fyrr en ég heyrði "Ertu giftur?" og "Ertu ríkur?" og fór að hugsa hvort drengurinn væri kannski að leita að manni handa mömmu sinni, alltaf jafn hugulsamur þessi elska! Sölvi lét það þó ekki á sig fá þegar í ljós kom að viðkomandi var hvorki ríkur né einhleypur, og hann var mjög svekktur þegar við lentum: "Ohh.. ég ætlaði að spyrja hann 1000 spurninga í viðbót!"
Bragi bjó á besta stað, nánast á hóteli. Ég varð alveg græn af öfund þegar það kom í ljós að hann þarf ekki að sjá um nein þrif sjálfur. "Ég bað um að það yrði skipt á rúmunum áður en þið kæmuð!" Þetta er sko húsnæði að mínu skapi!
Frændur með Big Ben (og langferðabíl...) í baksýn
Sölvi í gær: "Mamma, ég teiknaði mynd í skólanum og hún var fett skön!"
(ok, líklega mun 95% lesenda finnast þessi setning hvorki fyndin né merkileg, en mér fannst hún samt þurfa skráningu einhvers staðar!)