Katla og Sölvi

fimmtudagur, september 22

Spurning dagsins

Hvað heitir þú? Katla.
Og hver ertu? Ég er ég.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Það sem er skemmtilegt, að fara á Nickis og að fara til Íslands.
En leiðinlegast? Að borða lax.
Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? Ég er ekki búin að ákveða það, annað hvort rithöfundur eða kennari.
Hver er munurinn á konum og körlum? Karlar eru með djúpari rödd.
Hvernig finnst þér mömmur vera? Góðar í að halda húsinu hreinu.
En pabbar? Veit það ekki.
En afar, hvernig eru þeir? Þeir líma og kitla.
En ömmur? Þær prjóna eða hekla.
Bráðum förum við til Íslands, hvað eigum við að gera þar? Fara í Húsdýragarðinn, hitta alla sem við þekkjum.
Hvernig gengur þér að vakna á morgnana? Vel, ég er stundum dáldið þreytt.
Hvað gerirðu þegar þú ert ein heima á morgnana? Misjafnt, stundum hugsa ég og stundum tek ég úr uppþvottavélinni, stundum er ég að leika mér, stundum æfi ég mig á píanóið, já eitthvað þannig.
Finnst þér Sölvi ekki yndislegur? Stundum, þegar hann segir eitthvað fyndið, en það var mest þegar hann var minni.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Pizza eða spaghetti bolonese.
En versti? Lax og allur fiskur.
Hvernig er í skólanum? Gaman.
Hvað er skemmtilegast? Þegar það kemur kennari sem heitir Katarina og allir krakkarnir sem koma frá mörgum ólíkum löndum eiga að fara með henni til að læra pottþétta sænsku.
Hvað er leiðinlegast? Útiíþróttir á morgnana.
Í hverju ert þú góð? Að lesa og reikna.
En í hverju ertu léleg? Að flýta mér, ég er alltaf síðust!



Katla, 8 ára Posted by Picasa


Hvað heitir þú? Sölvi.
Heitirðu ekki eitthvað meira? Nei.
Hvað ertu gamall? 5
Hvenær áttu afmæli? Ég man það ekki.
Hvar áttu heima? Í Stenhagen skolan, Svíþjóð.
Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór? Lögga. Veistu, löggur skila aldrei því sem þær finna sem aðrir eru búnir að stela.
Hvort verður þú kona eða karl þegar þú verður stór? Pabbi.
Hver er munurinn á konum og körlum? Ég veit það ekki, enginn munur.
Hvað gera mömmur? Þær knúsa börnin sín.
En pabbar? Þeir knúsa líka börnin sín.
En afar, hvað gera þeir? Elska börn og leika við þau.
En ömmur? Þær búa til mat handa börnum.
Ertu ekki glaður að eiga Kötlu fyrir systur? Júhú!
Hvernig er í leikskólanum? Allt ömurlegt.
Hverjir eru vinir þínir? Þorri og Gunnar Björn.
Leikurðu ekki líka stundum við stelpurnar? Jú pínu í dag. Veistu hvað við lékum? Strákarnir áttu að hlaupa og stelpurnar áttu að kyssa þá. Þetta var skemmtilegt. Það var ein dáldið lítil og pínu brún stelpa að kyssa mig, hún var líka pínu sæt.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Kaupa dót og vera með einni fóstru, ég veit varla hvað hún heitir, og fara út.
Ert þú með lausar tennur? Já tvær, svo þegar þær detta ætla ég að setja þær undir koddann, svo kemur álfur og tekur tönnina og setur gull í staðinn.
Áttu mikið gull? Já mjög mikið, ég ætla að safna og flytja með það til Íslands.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Túnfiskur. (blm. rekur upp stór augu)
En hvað er versti maturinn? Lax, allur lax í heimi.
Hvernig ertu duglegur? Hjálpa til á heimilinu, taka til, skúra, og laga skóna og loka hurðinni.
En hvernig ertu ekki duglegur? Ég er stundum að stela...
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera heima? Horfa á spólu.
En leiðinlegast? Að labba sjálfur upp stigann.
Eigum við að fara bráðum til Íslands? Jáá!!
Hvað eigum við að gera þar? Hitta krókódíla!



Sölvi, 5 ára Posted by Picasa


þriðjudagur, september 13

Vikuskýrslan

Allt í lukkunnar velstandi hérna megin, gengur þokkalega að halda öllu rúllandi. Katla er reyndar allt í einu komin í ansi margt utan skóla; íslensku, píanó, leikfimi, kirkjustarf(!) og kór. Að vísu þarf ekki að keyra hana í neitt nema píanóið þannig að þetta er í góðu lagi.
Við Sölvi byrjuðum helgina á því að fara með hann í klippingu. Drengurinn brosti út að eyrum en ég barðist við tárin á meðan ljósu lokkarnir hrundu í gólfið. Hann var búinn að grátbiðja mig um að fara með sig í klippingu og hárgreiðslukonan hefur greinilega verið sammála honum því hún sagði einfaldlega: "Strákar eiga ekki að vera með svona sítt hár." Nýja klippingin hefur gert það að verkum að hann hefur elst um mörg ár, kæmi mér ekki á óvart ef hann kæmi til mín og segðist vera að fara á stefnumót (sem hann mun auðvitað aldrei segja vegna þess að ég er og mun ávallt verða eina konan í lífi hans).
Eyddum laugardeginum í höfuðborginni í 6 ára afmæli Hlyns, heimsókn hjá Gunnu og Didda og enduðum á afskaplega skemmtilegu og kvenlegu sushi-boði hjá Guðrúnu. Svo á sunnudaginn var grill hjá Íslendingafélaginu hér í Uppsala; pylsur, kók, Einn tveir þrír fjórir fimm dimmalimm, Fram fram fylking og fleiri leikir sem kölluðu fram notalegar nostalgíutilfinningar hjá hinum fullorðnu.
Fyrsta vaktin mín var í gær, gekk bara vonum framar og ekkert hræðilegt kom uppá. Var svo ansi "heppin" að fá tvo áhugasama læknanema með mér á vaktina sem eltu mig á röndum og gengu alltaf nákvæmlega tveimur skrefum fyrir aftan mig. Strunsaði af stað til að ná mér í kaffibolla (reyndar te í mínu tilfelli, eins og alþjóð veit drekk ég ekki kaffi, en er þetta ekki bara orðatiltæki, "að fá sér kaffi"?) með drengina í eftirdragi og lá við stórslysi á bæði læknanemum og mér sjálfri þegar ég snarstoppaði við kaffivélina.
Börnin fengu að vera hjá Össa og Gullu, neyddist til að níðast á góðmennsku þeirra vegna aðstæðna núna áður en nýja barnapían kemur. Ég hringdi svo til að kanna stöðuna í gærkvöldi, frúin varð fyrir svörum og hélt því fram að drengirnir lægju háttaðir og burstaðir, annar í rúminu og hinn á dýnu á gólfinu, og spjölluðu saman í hálfum hljóðum um tunglið og himingeiminn. Detti mér allar dauðar sem lifandi lýs úr höfði, segi ég nú bara.


þriðjudagur, september 6

Fyrirmyndarfjölskyldan

Og þá er ég byrjuð að vinna á nýja staðnum, leggst bara ágætlega í mig, allir voðalega almennilegir og svona, sakna samt aðeins Västerås þar sem ég þekkti alla og vissi nöfn á börnum og barnabörnum allra hjúkkanna. Þetta verður örugglega mjög fínt þegar ég verð komin inní allt. Núna fæ ég að vera aumingi í nokkra daga áður en allt fer á fullt. Fyrsta vaktin er á mánudaginn og gengur vonandi vel.
Höfum verið svo heppin að hafa afann hér í 2 vikur, hann dyttaði að ýmsu og afrekuðum við feðginin meðal annars að fjarlægja allt veggfóður af stofunni (ég hélt þegar við fluttum inn að ég gæti lifað með þessu græna veggfóðri og blómaborðanum, en svo bara gat ég það ekki) og mála stofuna. Fyrir algera tilviljun var pabbi með málningarfötin í farangrinum.... Börnin fengu mjúka byrjun fyrstu vikurnar í skólanum, sem munaði gríðarlega miklu, sérstaklega fyrir Sölva. Hann er samt ánægður í leikskólanum, þetta er bara í nösunum á honum. Aðal vandamálið í leikskólanum er að þeir vinirnir tala íslensku allan daginn, virðast eiga erfitt með að breyta því.
Í dag var fyrsti dagurinn sem við vorum ein, vöknuðum snemma og tókum okkur góðan tíma í að vakna, Katla vill helst láta vekja sig kl. 6 vegna þess að hún er alltaf svo þreytt á morgnana, hljómar sem algjör mótsögn en þetta virkar ótrúlega vel og þá þarf ekkert að reka á eftir henni. Við vorum öll klædd, södd og sæl, burstuð og greidd kl. 7.10, settumst þá inní stofu og lásum eina sögu í rólegheitum, ótrúlega notalegt. Svo hjóluðum við Sölvi af stað í leikskólann, hann var ekkert yfir sig hrifinn af að fara þangað en lét sig samt hafa það án mikilla mótmæla. Katla var hins vegar skilin eftir ein heima, læsti svo á eftir sér rétt fyrir 8 og dreif sig í skólann. Ég hringdi til að minna hana á að fara af stað, og þá var hún að æfa sig á píanóið. Þetta eru fyrirmyndarbörn!!!
Ingi var hjá okkur um helgina, frábært að vera öll saman. Sölvi var reyndar veikur með hita og sagðist vera illt í munninum. Þegar ég kíkti uppí hann sá ég að það var ýmislegt að gerast þar; 2 lausar í neðri góm og farin að gægjast fullorðinstönn í skarðið sem tannlæknirinn skapaði.
Jæja, best að fara að koma sér í rúmið ef það á að halda uppi nýja lífinu sem tímanleg og skipulögð fjölskylda (ég er líka farin að versla inn fyrir alla vikuna í einu, fór daglega í búð áður fyrr og ákvað á staðnum hvað ætti að vera í matinn, liðin tíð...). Finnst þetta reyndar full sænskt hegðunarmynstur!
Maggi litli bróðir og verðandi faðir á afmæli í dag, afmælisknús frá okkur öllum!


fimmtudagur, september 1

Nokkrar nýlegar myndir


Sölvi ferðbúinn Posted by Picasa



Systkinin í sælgætislandinu í Gränna Posted by Picasa



Þau eru stundum ágætis vinir greyin... Posted by Picasa



Rosa fjör í Astrid Lindgrens Värld Posted by Picasa



Ingi gægist á glugga í Den lilla, lilla staden Posted by Picasa



Katla krútt Posted by Picasa



Pabbaknús Posted by Picasa



Sölvi gerir æfingar á Böda strand Posted by Picasa



Á ströndinni við bústaðinn okkar Posted by Picasa



Og svo ein af gömlu hjónunum! Posted by Picasa


Free Hit Counters
Free Counter