Katla og Sölvi

sunnudagur, október 15

"Við vunnum!!!"

.... hrópaði Sölvi sigri hrósandi þegar hann kom heim af fótboltaæfingu í dag. "Það var keppni og mitt lið skoraði 25 mörk og hitt liðið skoraði ekkert!" "Nú frábært, skoraðir þú eitthvað?" "Já, öll!" Amman sem hafði fylgt drengnum á æfinguna treysti sér ekki alveg til að staðfesta þetta, en ég sé enga ástæðu til að rengja frásögnina. Sé fyrir mér glæstan frama á knattspyrnuvellinum, er ekki örugglega til landslið fyrir 6 ára og yngri?
Hef eytt helginni í ýmis verk sem seint verða talin kvenleg: losa frá gólflista, taka niður gardínustangir, skrúfa draslið kringum innstungurnar af, fjarlægja veggfóður af veggjum (aaarrrgggg, óþolandi iðja) og mála að lokum veggina. Það var sem sagt svefnherbergið mitt sem fékk yfirhalningu og henni er ekki lokið enn, því er nú ver og miður. Ég veit að pabbi verður sorrí, svekktur og sár að heyra að ég hafi gert þetta án hans þar sem hann er nú væntanlegur innan tíðar, en veit að hann tekur gleði sína á ný þar sem ég get tilkynnt hér með að það eru tvö önnur herbergi á biðlistanum.
Það kvenlegasta sem ég hef afrekað um helgina er að passa Örnólfsbörnin þrjú í gærkvöld og nótt, skil ekkert í fólki að vera að kvarta yfir því hvað það er erfitt að eiga mörg börn, það er ekkert mál að vera með 5 börn (og eina ömmu þar að auki). Guðrún Sara er reyndar nánast flutt inn, fór reyndar heim til síðan áðan en hafði þá ekki komið þangað síðan eftir skóla á föstudaginn, þær eru óaðskiljanlegar blessaðar stúlkurnar.
Á morgun er ég á leið til Malmö á kúrs í andlitsbrotum og kem aftur á þriðjudagskvöld, afar hentugt að mamma gat tekið sér frí og komið til að hugsa um börn og bú á meðan. Ég þarf reyndar að vakna kl. 4 til að ná vélinni sem fer 6, hefði átt að fara í kvöld í staðinn, hvað var ég að spá?
Búin að skrá mig í 30 km skíðagöngukeppni (aftur: hvað var ég að spá???), hljómaði sem mjög góð hugmynd á þeirri stundu en nú eru komnar verulegar vöflur (vöbblur, vöfflur...?) á mig. Þarf akút að koma mér í form og læra á gönguskíði. Börnin eru mjög spennt og fyrsta sem þau sögðu var "hvað er í verðlaun?" Ég sagðist ekki vita það, enda yrði ég bara fegin ef ég næði að klára þessa 30 km á þeim 5 klukkustundum sem maður fær til þess, en þau urðu mjög hneyksluð: "Jú mamma, þú getur alveg unnið!" Þau gera sér greinilega enga grein fyrir alvarleika málsins, móðirin er í engu formi og hefur aldrei stigið á gönguskíði fyrr. Allar ábendingar um æfingar og tæknileg atriði vel þegin!


þriðjudagur, október 10

Tímaskortur og skipulagsleysi


Af hverju lærir maður aldrei af reynslunni? Af hverju fer ég ALLTAF of seint á fætur á morgnana, finnst ég samt hafa NÓGAN tíma þar til ég er orðin ALLTOF sein, næ ALDREI að borða morgunmat og kem of seint á hverjum EINASTA morgni? Merkilegt....
Börnin skelltu sér í helgarferð til Íslands og til pabba síns um helgina, meira hvað þessi börn eru alltaf á ferð og flugi. Voru afskaplega ánægð með ferðina, hittu Tinnu frænku sem er víst heimsins mesta krútt og eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er það bara staðreynd. Þau fóru á fimmtudaginn eftir hádegi og ég leyfði Sölva að koma með mér í vinnunna fyrir hádegi, hann er búinn að vera að suða um þetta heillengi og nú var ágætis tækifæri, ég var bara með verklegt próf fyrir læknanemana og þau fengu meðal annars að spreyta sig á að skoða í eyrun á drengnum sem stóð sig eins og hetja. Hann stóð sig líka eins og hetja í gær þegar hann fór til tannlæknis, lá grafkyrr og gapti heillengi. Eftirá var ég að hrósa honum fyrir hvað hann hefði verið duglegur en þá sagði hann: "en veistu mamma, ég get verið miklu duglegri, þetta var mitt ömurlegasta". Jæja góði....
Svo líður ekki á löngu þar til við birtumst öll þrjú á Íslandinu góða, komum í lok október og verðum í rúma viku. Það hefur sína kosti að vera í vaktavinnu sem er greidd út í fríum, afskaplega þægilegt að geta tekið frí af og til!


þriðjudagur, október 3

Mallorca



Takið eftir svörtu sokkunum sem drengurinn klæðist, það er alltaf hægt að þekkja íslenska karlmenn í útlöndum á því að þeir eru í sokkum í sandölunum! Reyndar verð ég að segja Sölva til varnar að þetta voru einu 20 mínúturnar í ferðinni sem hann fór í sokka....
Höfðum það hrikalega fínt á Mallorca, algjört letifrí. Gerðum bara nákvæmlega það sem okkur langaði, engar kvaðir. Sumir vildu helst liggja uppi í herbergi og lesa Harry Potter, aðrir vildu helst veiða krabba við bryggjuna og enn aðrir vildu helst bara njóta þess að vera með börnunum sínum, allir fengu óskir sínar uppfylltar. Það var óskaplega þægilegt að geta klæðst öllum gömlu hallærisfötunum og verið alveg sama því það var enginn þarna sem við þekktum.
Eftir nokkra daga var ég þó farin að minna óþægilega mikið á Britney Spears (það er að segja eftir að hún kynntist Kevin og hætti að vera poppstjarna):
- trashy hairdo (enginn hárblásari á herberginu)
- unfitting and unflattering clothing (um að gera að nýta allt sem komid er úr tísku)
- no or bad makeup (til hvers að eyða öllu fína Mac-snyrtidótinu?)
Fór til dæmis í bátsferð í agalega fínu víðu pilsi (sk. volangkjol sem mér skilst að sé algjörlega out, að minnsta kosti ef eitthvad er að marka sænsk blöd) sem flettist upp um mig í rokinu, mjög Marilyn Monroe.... kannski ekki alveg eins gracious þó. Mér fannst þó enn minna glamúrös þegar allir fóru að æla allt í kringum mig, við héldum þó kúlinu, börnin létu nægja að verða kríthvít í framan og spyrja í sífellu hvenær þessi "skemmtiferð" tæki enda. Minnti mig á þegar við vorum á leið til Færeyja með Norrænu fyrir nokkrum árum, allir sjóveikir en reyndu að láta það ekki á sig fá. Sölvi var tveggja ára og hljóp þarna um allt, fannst skemmtilegast að vera í boltalandinu og ég skildi hann eftir þar í umsjón afa síns stundarkorn. Þegar ég kom til baka var pabbi kominn inn í boltalandið, og kom það nokkuð á óvart þar sem það var bannað fyrir eldri en 7 ára... Hann stóð þarna á einum fæti og var að reyna að veiða ákveðna bolta upp og koma í veg fyrir að grunsamlegur þykkfljótandi vökvi rynni til botns, drengurinn hafði sem sagt gubbað í boltalandið sem er sennilega versti staðurinn í bátnum til að gera slíkt.
Já, við fórum sem sagt á fætur þegar við nenntum, reyndar var biologiska klukkan í börnunum að stríða mér fyrstu dagana, algjör óþarfi að spretta upp á morgnana fyrir klukkan átta að mínu mati, en það jafnaði sig þegar á leið. Ég reyndi nokkrum sinnum að stinga upp á að við færum eitthvað, leigðum hjól eða bíl og skoðuðum okkur aðeins um en aldrei þessu vant voru börnin sammála: "Nei, verum bara hérna..." Það eina sem við gerðum markvert fyrir utan áðurnefnda bátsferð var að fara í vatnsrennibrautagarð sem var mjög skemmtilegt en ég skil ekki af hverju það er ekki hægt að hafa vatnið í þessu dóti örlítið heitara, 2 gráður myndu gera gæfumuninn. Katla hélt uppi heiðri fjölskyldunnar og skellti sér í þetta allt saman, við Sölvi vorum aðeins meiri skræfur. Reyndar heldur hann því statt og stöðugt fram að hann hafi lært að synda í ferðinni, ég vil nú reyndar frekar meina að hann hafi lært að halda ekki fyrir nefið í kafi og sprikla síðan í einhverju sem hann sagði að héti Hákarlasund.... Hann hélt sig samt til öryggis mest í grunna endanum, ekki eins og á Ítalíu í vor þegar hann hljóp á undan mér að sundlauginni fyrsta daginn og hoppaði út í djúpu laugina um leið og hann hrópaði: "Splischen, splaschen!!" Sem betur fer var Katla þarna með honum og gat bjargað bróður sínum frá drukknun. Um kvöldið fórum við svo út að borða, Sölvi gat ekki klárað matinn sinn og ég spurði Kötlu hvort hún vildi draga hann að landi. "Nei", sagði hún og leit sposk á mig, "ég er búin að gera nóg af því í dag!"
En aftur að Mallorca... Sölva fannst óskaplega gaman að vaða í sjónum og leita að kröbbum og krossfiskum og tilkynnti mér að hann væri orðinn vinur allra sjódýra. Var auðvitað vinur skordýra fyrir: "Veistu mamma, um daginn var ég að hjálpa maurunum, þeir voru svo þreyttir og voru að hvíla sig en ég kom með fullt af spýtum og laufum fyrir þá (breiddi út faðminn til að sýna hvað það var mikið) og setti ofan á mauraþúfuna, þá þurftu þeir ekki að vinna svona mikið og gátu hvílt sig meira!" Ég sá reyndar frekar fyrir mér hvernig hið flókna og undraverða gangakerfi í mauraþúfunni hafi hrunið til grunna auk þess sem þúsundir maura hafa líklega týnt lífi, en hugsunin var samt sem áður falleg.
Góð ferð í alla staði og ég er mjög stolt af mér að hafa skellt mér ein í frí með börnin, hefði gjarnan viljað hafa fullordins félagsskap, en allir sem ég spurði höfðu annað hvort ekki tíma, voru blankir, eða of hræddir til að fljúga (nefnum engin nöfn....)
Látum Sölva hafa síðasta orðið eins og oft áður... Síðasta kvöldið þegar hann kom uppúr baðinu, hreinn og ilmandi, varð honum litið á mig sem átti eftir að fara í sturtu og var ekki alveg eins fersk, med sólvörn og sand upp um mig alla: "Mamma mín, þú ert nú kannski ekki hreinasta mamma í heimi, en þú ert sú besta!"


Free Hit Counters
Free Counter