Katla og Sölvi

þriðjudagur, nóvember 28

Það húmar að

Sá um daginn frétt í lokalblaðinu hér að fulltrúar sveitafélagsins eru á leið til Íslands til að læra af mistökum íslendinga við skipulagningu strætisvagnaleiðakerfis í Reykjavík. Það er greinilega greypt í íslensku þjóðarsálina að reyna að láta gott af sér leiða, jafnvel þótt það sé með því að leyfa öðrum að læra af klúðrinu sínu...
Helgin fór í hitt og þetta. Tókum allt veggfóðrið af herberginu hans Sölva (svarið er nei, ég læri ekki af mistökunum...) og mála það síðan. Verkinu er reyndar ekki alveg lokið en mun klárast á næstu dögum. Versta er að þetta þarf eiginlega allt að gerast í skjóli nætur því eigandinn vill ólmur hjálpa til sem er auðvitað gott og gilt, en vissa hluti vill handlagna húsmóðirin gera sjálf.
Reyndar er eiginlega alltaf dimmt. Mér skilst að það hafi snjóað aðeins á meðan við vorum á Íslandi fyrir nokkrum vikum, en síðan þá hefur ekkert snjóað og það dimmir bara sífellt fyrr á daginn. Svíar eru búnir að bíta það í sig að vetrartími sé agalega sniðugt fyrirbrigði, færa sem sagt klukkuna aftur um klukkutíma sem þýðir að það er bjart á morgnana þegar allir eru í stressi að koma sér í vinnuna og taka ekki einu sinni eftir að það sé orðið bjart, en í staðinn er farið að dimma um þrjú á daginn og um það leyti sem ég kem heim er orðið kolbikasvart. Mistök myndi ég kalla þetta, frekar að færa klukkuna í hina áttina, þá gæti maður kannski gert eitthvað skemmtilegt eftir vinnu. Og enn á eftir að dimma meira, hvernig endar þetta? Myrkur og rigning, nóg til að æra óstöðugan, og jafnvel stöðugan. Þyrfti bara rok til viðbótar, þá væri þetta klassískt íslenskt vetrarveður.
Á laugardagskvöldið var okkur Sölva boðið í mat á eigin heimili, Katla og Guðrún Sara tóku sig til og elduðu 3ja rétta máltíð og buðu fjölskyldunum. Matseðillinn hljómaði þannig: Forréttur - hráskinka og melóna, Aðalréttur - Ferskur kjúklingur Kötlu (sumum varð nú um og ó, "ætli hann sé nokkuð hrár?") og Eftirréttur - klesst súkkulaðikaka með mandarínum og ís. Heppnaðist allt afar vel og fóru allir saddir og sælir til síns heima.
Nóg í bili...


þriðjudagur, nóvember 21

Kurteisishornið



Hvað er kurteisi?
K: til dæmis að segja takk fyrir matinn og að bursta tennurnar
S: að vera vinir
En hvað er dónaskapur?
K: að ropa og hafa olnbogana á matarborðinu
S: að vera fúlur og svona, otacksam
En að vera góður?
K: það er þegar maður hrósar einhverjum, að vera jákvæður
S: að kynnast öðrum vinum og svona
Hvað er að vera vondur?
K: að vera vanþakklátur
S: að meiða og svona, berja með berum höndum, krass búmm
En hvað gerir maður þegar maður er óþekkur?
K: að hlýða ekki mömmu sinni
S: að hlýða ekki fóstrunni sinni
En kunnið þið einhverja borðsiði?
K: að bíða þangað til allir eru búnir að borða, borða fallega, ekki smjatta og svona
S: segja afsakið þegar maður ropar, ekki borða með opinn munn, halda fyrir munninn þegar maður hóstar, borða fallega, borða ekki hratt
En hvernig er sá sem er gráðugur?
K: hann er frekur, sjálfselskur
S: veit ekki
En ef maður er snyrtilegur?
K: fínn, halda hreinu í kringum sig
S: að vera fínn, kasta rusli í ruslatunnuna, fara í sturtu og fara í fín föt
En hjálpsamur?
K: að hjálpa öðrum
S: hjálpa vinum sínum og segja til fullorðnum þegar einhver er búinn að meiða sig
En hvað er að vera frekur?
K: að vilja fá allt
S: að öskra á mömmu sína og æpa á eitthvað dót
En latur?
K: nenna ekki neinu
S: nenna ekki neitt
Og svo að lokum, hvað er að vera duglegur?
K: nenna öllu
S: taka til í herberginu sínu, vera góður við mömmu sína og pabba sinn og systur sína og hafa góða fjölskyldu
Bless allir!


laugardagur, nóvember 18

Myndagáta

Spurt er:
a) hvaða þungbrýnda barn er þetta?
b) hver er hinn hárprúði unglingur sem heldur á þungbrýnda barninu?


miðvikudagur, nóvember 8

Haustfrí

Jæja, þá er haustfríið búið og við snúin aftur í hversdagsleikann hér í Uppsala. Íslandsferðin var mjög fín í alla staði nema endirinn sem var langur og leiðinlegur. Áttum nefninlega pantað flug á sunnudagsmorgni í miðju óveðri, í stuttu máli vorum við komin heim seinni partinn á mánudaginn, rúmum sólarhring á eftir áætlun. Þá voru allir afar þreyttir á ástandinu og fegnir að komast heim, en ég þurfti reyndar að fara beint á vakt og vorkenndi sjálfri mér agalega.
Og í raun byrjaði ferðin ekkert sérlega vel heldur, börnin voru farin til Íslands á undan mér og ég ætlaði að skella mér til Stokkhólms í verslunar- og skemmtiferð á föstudeginum, gista hjá Gunnu og svo beint út á völl. Það fór þó ekki betur en svo að það sprakk hjá mér á hálfgerðri hraðbraut þegar ég var rétt ókomin, reyndi lengi vel að ignorera hávaðann og hina augljósu tilfinningu um hvernig ástandið væri en varð þó að lokum að játa mig sigraða og stöðva bílinn útí kanti. Það sem ég lærði síðast þegar sprakk var að losa varadekkið og reyndist það leikur einn í þetta skiptið. Hins vegar hefur enginn sagt mér að það skipti máli hvar tjakkurinn er settur.... Var hrikalega ánægð með mig þar til ég áttaði mig á því að ég var búin að gera einhverja meiriháttar gloríu, sprungna dekkið komið undan og varadekkið komst ekki undir, gat ekki tjakkað bílinn meira upp því tjakkurinn var á vitlausum stað og stálið krumpaðist bara saman í staðinn fyrir að bíllinn lyftist upp. Reyndi að ná í alla karlmenn sem ég þekki en þeir voru ýmist með slökkt á símanum, skyndilega unavailable eða ráðlögðu mér að leysa málið með því að fara úr einhverri flík og bíða eftir að einhver myndi stoppa.... Þegar þarna var komið sögu lá ég á hnjánum á malbikinu, tárin runnu í stríðum straumum á meðan ég hugsaði öllum sem þutu fram hjá í fínu bílunum sínum þegjandi þörfina. Að lokum stoppaði þó þessi líka yndislegi maður og ég gat tekið gleði mína á ný! Hafði meira að segja engin áhrif á mig þegar hann leit undir bílinn og sagði með sínum undurfagra arabíska hreim: "Ojojoj, hvað ertu búin að gera??"
En nú erum við sem sagt komin aftur, í gær var bekkjarkvöld hjá Sölva með alþjóðlegu ívafi, við mættum með flatkökur með hangikjöti (sem kláruðust!) og börnin tróðu upp og sungu "Krummi svaf í klettagjá" og "Krummi krunkar úti". Sölvi neitaði reyndar að vera með af því að hin vildu ekki syngja "Svarti Pétur ruddist inn í banka (hesmaþúsmamesma...)"
Nú er næst á döfinni að mála hans herbergi. Ég hélt að við værum sammála að einn veggur yrði blár, restin hvítir og svo keyptum við veggfóðursborða með neðarsjávarmynstri. Nú hefur hins vegar komið í ljós að hann sér fyrir sér borðan á miðjum veggnum, blátt fyrir neðan og þar ætlar hann að mála fríhendis fiska og annað tilheyrandi, grænt fyrir ofan þar sem eiga að vera pálmatré og fínerí, og svo loftið blátt með stjörnum. Ó mæ god... þetta er aðeins ofar minni getu... Ætla að reyna að draga þetta aðeins á langinn og sjá hvort hann gleymir því. Um helgina koma Ída og Tóti og þá þjónar herbergið hans hlutverki gestaherbergis þannig að ég kaupi mér smávegis gálgafrest þannig.
Sölvi spurði mig um daginn: "Mamma, hvernig veit maður hvenær maður á afmæli? Velur maður bara einhvern dag sem er laus?" Hélt sem sagt að það væri enginn annar sem ætti afmæli sama dag og hann... dálítil vonbrigði...


Free Hit Counters
Free Counter