Katla og Sölvi

mánudagur, janúar 29

Skíðagönguraunir

Börnin voru á Íslandi um helgina, smá skreppitúr til að knúsa pabba sinn og ýmislegt fleira skemmtilegt. Þau eru orðin svo sjóuð að fljúga ein, finnst þetta ekkert mál. Katla hafði víst fengið blóðnasir á leiðinni heim í gær en Sölvi hringdi bjöllunni og fékk aðstoð flugfreyju við að stöðva blóðbaðið hjá stórusystur.
Ég var sem sagt ein í kotinu um helgina og þótt það sé auðvitað alltaf hundleiðinlegt að vera einn þá fann ég óskaplega lítið fyrir því þar sem ég var nánast ekkert heima. Á fimmtudaginn fórum við Gulla í fyrstu alvöru skíðagönguna, tókum 7 kílómetra og vorum afar ánægðar með okkur. Ég dreif mig svo í bíó, fór ein... gæti við fyrstu sýn virst hálf brjóstumkennanlegt en vil benda á að þetta ber merki um andlegan þroska og styrk... Á föstudaginn var ég svo á síðustu vaktinni minni í bili, það er að segja bundinni vakt. Ég er sem sagt að skipta tímabundið um deild, verð á lýtadeildinni í 6 mánuði frá og með 1. febrúar og þar eru engar bundnar vaktir heldur bara bakvaktir. Þar að auki er ég ekki á neinni vakt í febrúar, veit ekki hvað ég á að gera við allan þennan aukatíma sem ég eignast, verð eiginlega að fá mér fleiri áhugamál... Nú svo á laugardaginn var afmælisboð með kvenlegum undirtóni hjá Gunnu, unaðslegur matur og afburða félagsskapur, ég gisti svo þar og pikkaði börnin upp á flugvellinum á leiðinni heim.
En aftur að gönguskíðunum. Ég er búin að komast að því að það þarf a.m.k. 5 ára háskólanám og þó nokkur endurmenntunarnámskeið til að skilja hvernig á að valla, það er að segja bera áburð undir skíðin. Svo þarf spannið að vera rétt miðað við þyngd, það get ég upplýst að þýðir hlutinn á skíðinu sem bognar upp og snertir ekki jörðina þegar maður stendur í báða fætur, á hins vegar að leggjast niður þegar maður stígur bara í annan fótinn. Get ekki skilið þetta öðruvísi en að það sé afar mikilvægt að maður haldi sömu þyngd og þegar skíðin voru keypt, annars fer allt til fjandans. Ég fór smá túr á laugardaginn og gekk hroðalega, rann aðallega afturbak (mér skilst að það sé ekki meiningin). Við Gulla fórum svo aftur á skíði í gær, gekk nokkuð vel fannst okkur þar til við áttuðum okkur á tímanum sem var afar slakur þrátt fyrir góða viðleitni. Er búin að fá loforð fyrir einkakennslu hjá einum sem vinnur hjá mér, held það veiti ekki af, við búum ekki yfir einu einasta snifsi af því sem kallast tækni og nú eru ekki nema tæpar 4 vikur til stefnu...


mánudagur, janúar 22

Loksins, loksins....

...er snjórinn kominn! Við Gulla héldum uppá þennan merkisatburð með því að fjárfesta í gönguskíðum í gær. Gönguskíðakeppnin-sem-er-eftir-einungis-mánuð var farin að valda okkur afar miklum áhyggjum og í hvert sinn sem við hittumst var önnur hvor sem spurði: "Hvað eigum við að gera? Eigum við að hætta við?" En svo kyngdi niður snjó á laugardagskvöldið þar sem við sátum saman yfir kvöldmatnum og þá var ákveðið að fara í skíðainnkaup í býtið daginn eftir.
Mér sýndist sölumanninum ekki lítast á blikuna þegar Tvær úr Tungunum komu arkandi inn og sögðust aldrei hafa stigið á gönguskíði fyrr, en hins vegar vera að fara að taka þátt í 30 kílómetra langri keppni á gönguskíðum... Við fórum svo sigri hrósandi út með nýju græjurnar okkar og eftir að hafa skellt skíðunum á eldhúsborðið og borið á þau eftir kúnstarinnar reglum var komið að frumrauninni. Skakklöppuðumst út í skóg og renndum okkur fram og til baka ásamt sonum okkar, komumst að því að við vorum miklu betri en við áttum von á og mikið hrikalega var þetta gaman! Því miður er ég á vakt núna í kvöld, annars væri ég á skíðum núna, ekki spurning. Ég keypti líka gönguskíði fyrir Sölva og hann var hæst ánægður, djöflaðist á þeim út um allar trissur.
Iss... þetta Vasalopp verður pís of keik...
Sölvi fór í afmæli til bekkjarbróður síns í gær sem er svo sem ekki í frásögur færandi, nema hvað að afmælið byrjaði klukkan 9.45! Algjörir snillingar þessir Svíar, í hvaða landi öðru þarf maður að stilla vekjaraklukkuna á sunnudagsmorgni til að missa ekki af barnaafmæli?


þriðjudagur, janúar 9

Nú árið er liðið...


Barasta komið 2007... hvernig endar þetta eiginlega? Í ellinni munu árin fljúga hjá á ofurhraða sem geitungur í vígahug eða kannski sem Fokker 50 í aðflugi.
Við erum sem sagt mætt aftur til leiks eftir 2ja vikna jólafrí á klakanum. Höfðum það afskaplega gott yfir jól og áramót við hefðbundnar athafnir svo sem borða, spila og hitta fólk. Hálffúlt að koma aftur í útlegðina hér en sem betur fer voru Gulla og Össi svo góð að bjóða okkur í mat strax um kvöldið og áttum við mjög náðugt kvöld með góðum mat, söng og gítarundirleik húsbóndans. Á sunnudaginn skelltum við okkur svo til höfuðborgarinnar, fórum á skautasýninguna Disney on Ice sem var afskaplega flott og skemmtileg, þaðan beint í mat til Gunnu og Didda sem var líka afskaplega flott og skemmtilegt.
Hér er ennþá sumarveður eða að minnsta kosti haustveður, bólar hvorki á frosti né snjó. Veit ekki hvernig fer með gönguskíðaferil húsmóðurinnar. Líkamsræktarátakið fyrir Vasagönguna stendur sem hæst; fór einu sinni út að hlaupa í fríinu og gafst upp eftir 17 mínútur, reyndi einu sinni að synda og gafst upp eftir 200 metra. Er farin að hallast að því að sú ákvörðun að splæsa í forfallagjald þegar ég borgaði þátttökugjaldið hafi verið afar skynsamleg...
Það er allt í rugli eftir fríið hjá okkur, greinilegt að fólk hefur ekki verið að vakna klukkan 7 og fara í rúmið klukkan 21 í jólafríinu. Í gær sofnaði Sölvi á eldhússtól klukkan 17.45 og svaf til 21.30 (sjá mynd!), vaknaði þá eldhress og vakti í fleiri klukkutíma, fleiri en ég kæri mig að rifja upp. Katla sofnaði hins vegar á réttum tíma en vaknaði klukkan 22.30 og hélt það væri morgun, held hún hafi ætlað að drífa sig í skólann. Meira ruglið...
Hef sjaldan fengið jafn mörg komment eins og við síðustu færslu, það er greinilegt að ég verð að setja reglulega inn myndir af mér við hin ýmsu störf, næst er ég að spá í að hafa myndaseríuna Dr. Sigríður stöðvar óstöðvandi nefblæðingu. Ahh... blóð út um allt, hvað er dásamlegra?


Free Hit Counters
Free Counter