Katla og Sölvi

miðvikudagur, febrúar 28

Sigur!!!

.... eða eitthvað í þá áttina... að minnsta kosti persónulegur sigur! Komst í mark og meira að segja á undir 4 klukkustundum sem ég var afar ánægð með. Ætla ekki að líkja þessu saman við að fæða börn, en þar fyrir utan held ég að þetta sé það erfiðasta sem ég hef gert um ævina. Mikið hrikalega var ég þreytt! Það var samt fljótt að gleymast í sigurvímunni og um leið og við vorum komnar upp í bústað og í gufu þá var farið að skipuleggja ferð að ári. Komumst að því að gönguskíði eru afbragð fyrir bæði líkama og sál, eða eins og Halla (sem by the way var 20 mínútum á undan okkur hinum í mark og verður framvegis hetjan okkar allra) orðaði svo snilldarlega: "Líkaminn er alveg undirlagður af hreyfingu!" Okkur láðist því miður að taka mikið af myndum en hér má sjá kvenhetjurnar Gullu, Ídu, Höllu og Bóel kampakátar rétt áður en lagt var í hann. Vorum ekki alveg jafn hressilegar í lok göngunnar en ótrúlega ánægðar með okkur!


föstudagur, febrúar 23

Ég óttast....

.... að ég sé bæði búin að mála mig út í horn og skjóta mig í fótinn.
Lexía dagsins: Ef maður fær jafn fáránlega hugmynd og að taka þátt í gönguskíðakeppni, verandi í lélegu líkamlegu formi og kunna ekki á gönguskíði, þá á maður ekki að segja neinum frá því fyrirfram og sérstaklega ekki opinbera það á veraldarvefnum! Í keppninni á morgun er hámarkstími 5 klukkustundir, ef maður nær því ekki er maður pikkaður upp með rútu og keyrður í mark. Það er auðvitað algjör niðurlæging og mun aldrei verða opinberað. Opinbera útgáfan er því nú þegar tilbúin; keppnin gekk eins og í sögu og tíminn vafalaust ágætur....
Börnin eru í vetrarfríi þessa vikuna og dvelja því á Íslandi í væntanlega góðu yfirlæti, koma á mánudaginn og geta dansað sigurdans með móður sinni eftir afrek helgarinnar...
Annars gengur lífið bara sinn vanagang hérna á lýtadeildinni. Ég er að taka þátt í alls kyns aðgerðum sem eru algjörlega nýjar fyrir mér svo sem búa til brjóst, flytja húð, lagfæra andlitsbrot, fjarlægja húðæxli og búa til geirvörtur. Hefur gengið nokkuð vel hingað til, að minnsta kosti enginn kvartað, nema reyndar einn kall sem var í aðgerð í staðdeyfingu um daginn og sagði í miðri aðgerð að lagið sem var í útvarpinu væri mjög vel við hæfi. Hann hefur greinilega verið mikill húmoristi, því lagið var "Det gör ont..."


mánudagur, febrúar 5

Svíi í húð og hár!

Ég held ég fari að flokkast sem slíkur; komin á gönguskíði, byrjuð í innebandy og var sofnuð klukkan hálftíu á laugardagskvöldið. Þetta er hinn dæmigerði Svíi, mætti kalla öðru nafni lúser....
Katla fór í partý til Guðrúnar Söru á föstudagskvöldið og var það sem Svíarnir kalla föräldrafritt. Við foreldrarnir hírðumst því saman; ég, Gulla, Össi og Gunnar eldri ásamt sonum okkar fjórum. Væsti reyndar ekki um okkur, ég bauð uppá sushi og húsnæði, Össi kom með gítarinn og söngbækurnar svo að úr varð hin besta skemmtun. Það var langt gengið á næsta dag þegar því partýi lauk og eyddi ég síðan afgangnum af nóttinni með þrjá karlmenn uppí hjá mér, hver öðrum myndarlegri; Sölvi, Þorri og Krissi litli sæti.
Á laugardaginn lögðum við svo land undir fót og skelltum okkur til heimsborgarinnar Örebro þar sem farið var í ævintýrabað og svo gist á hóteli um nóttina. Vorum afskaplega þreytt, rétt náðum að fylgjast með fyrstu undanúrslitakeppninni fyrir sænska Eurovision og um það leyti sem úrslitin voru kunn vorum við öll sofnuð. Hótelherbergið var því vel nýtt, mér reiknast til að samtals höfum við sofið 32 klukkustundir!


Free Hit Counters
Free Counter