Katla og Sölvi

miðvikudagur, mars 28

Á skíðum skemmti ég mér trallalala....

Sjúbb sjúbb... mikið óskaplega er gaman á skíðum! Hin árlega skíðaferð var farin í síðustu viku og var afskaplega vel lukkuð í alla staði. Ég brunaði með börnin tvö og eitt að auki (fengum Guðrúnu Söru að láni þessa viku) upp í Idre Fjäll og þar kom saman mjög svo góður hópur af fólki, samtals 9 fullorðnir og 11 börn. Vaknað snemma og borðað af morgunverðarhlaðborði, drifið sig út í brekkurnar fram að lokun, gufan í stöðugri notkun eftir það, ljúffengur matur sem við skiptumst á að elda, spjall og kósíheit par excellans fram eftir kvöldi. Held ég verði að segja að þetta gerist ekki betra! Í ár var ný fjölskylda tekin inn í hópinn til reynslu og stóðu þau sig afar vel enda samanstendur þessi mæta fjölskylda af 3 vel uppöldum börnum, fyrirmyndar húsmóður og ofvirkum heimilisföður. Þó eigi reyndar eftir að telja atkvæðin þá grunar mig að þau hafi staðist prófið og verði boðin velkomin að ári (en Dísa, þá viljum við aftur fá heitar pönnukökur á morgnana, kampavín í gufuna og að Ásgeir skelli sér með öll börnin í sund á meðan hinir leggja sig...)
Börnin voru svakalega ánægð, fóru öll í skíðaskóla og tóku heilmiklum framförum. Stelpurnar fengu að vera mikið einar tvær að renna sér og fannst það mjög mikið sport, voru meðal annars í svörtum brekkum (erfiðustu!). Við Sölvi héldum okkur að mestu leyti fjarri svörtu brekkunum, en stunduðum þessar rauðu grimmt, hann er algjörlega óhræddur og tæknin hans er að láta sig bara gossa!
Eftir frábæra ferð var ekki síðra að koma heim því vorið er komið til Uppsala. Ég vil minna á að það er ennþá mars mánuður, en í gær þegar ég kom heim úr vinnunni voru 19 gráður á mælinum og börnin úti á hlírabolum. Samkvæmt áræðanlegum heimildum (hinum rótgróna og áreiðanlega prentmiðli Aftonbladet) er vorið komið til að vera. Ég trúi auðvitað öllu sem ég les og heima hjá okkur er því búið að pakka vetrarfötunum, þvotturinn kominn út á snúrur og húsfreyjan formlega byrjuð að hjóla í vinnuna. Yndislegt...


miðvikudagur, mars 14

Afmælismæðgur

Var ég teenage mother, eða hvernig getur staðið á því að ég, svona ungleg og spengileg, eigi 10 ára dóttur?!! Við mæðgurnar héldum uppá afmælin okkar með pompi og prakt um helgina, á föstudaginn var rautt afmæli hjá Kötlu þar sem 14 stykki af rauðklæddum stúlkum skemmtu sér hið besta og á laugardaginn var svo komið að hinni síungu móður og ekki var síður gaman þá. Afmælismæðgurnar vilja koma á framfæri ástarþökkum til allra fyrir kveðjur og gjafir sem þeim hafa borist á síðustu dögum!

Í dag átti svo heimasætan afmæli í raun og veru, við Sölvi læddumst á fætur fyrir allar aldir til að geta vakið hana með köku og söng, en það kom síðan í ljós að afmælisbarnið (sem er yfirleitt þreyttust allra á morgnana) var löngu vöknuð og lá glaðvakandi og beið óþreyjufull eftir okkur.
Þetta reyndist verða fullkominn dagur:
- ég var búin að taka mér frí, ahhhh... ljúft...
- frábært veður
- yndislegur hjólatúr
- súkkulaðikaka í öll mál
- drifið í vorverkunum; rakað, klippt og hreinsuð beð
- skordýraveiðitímabilið hófst formlega, Sölvi fann fullt af skordýrum við garðtiltektina og bjó til fjölskyldur hér og þar sem samanstóðu að mestu leyti af maríuhænum og ánamöðkum, mér fannst þetta fallegt og vel við hæfi í okkar nútímaþjóðfélagi þar sem samsettar fjölskyldur eru að verða normið
- tvöfaldur þáttur af Grey´s anatomy
- mynd af Kötlu í Mogganum í dag, auðvitað algjör tilviljun, en hrikalega gaman að hún skyldi birtast á afmælisdeginum hennar! Blaðsíða 40 everyone...

Látum svo fylgja með í lokin mynd sem náðist af froðuskrímslinu ógurlega!


föstudagur, mars 9

Sönnun í myndaformi

Hér birtist loks sönnun þess að ég hafi farið í skíðagönguna margumtöluðu, vil benda á hversu glaðhlakkaleg ég er og á þessari stundu var ég þó búin með 21 km. Mig minnti að þetta hefði verið erfiðara en myndin segir allt sem segja þarf; þetta var greinilega ekkert mál, kempan brosandi út að eyrum og tekur vel á því.

Næsta mál á dagskrá eru hlaup. Við Gulla ætlum að gerast hlaupadrottningar, búnar að fara einu sinni og vorum ákaflega stoltar, einnig búnar að sigta út hin ýmsu hlaup sem við ætlum að taka þátt í með hækkandi sól og sjáum fyrir okkur glæstan frama og jafnvel atvinnumennsku í langhlaupum.
Fyrir þá sem ekki vita betur gæti þetta virst sem einhvers konar aldurskrísa, maður er jú að verða hvorki meira né minna en 36 ára á morgun, en ég vísa því algjörlega á bug og kannast ekki við að vera í neinni krísu út af aldri, líður þvert á móti eins og ég sé 18 og eins og allir vita gæti ég í mesta lagi verið 22 ára útlitslega.
Börnin...? Já, allt gott að frétta af þeim!


Free Hit Counters
Free Counter