Katla og Sölvi

fimmtudagur, júlí 26

Laugavegurinn

Hér á sér stað gjörningur mikill sem aldrei áður hefur verið framinn og er í eðli sínu andstæður uppruna sínum. Ég er með öðrum orðum að skrifa þessa færslu frá Íslandinu góða, en upphaflega átti þetta blogg að þjóna þeim tilgangi að færa fréttir af börnunum frá Svíþjóð, en er nú kominn út í það að færa fréttir af móðurinni frá Íslandi. Ekki má maður bregðast dyggum lesendum...

Hef ekki frá neinu merkilegu að segja nema afreki mínu á hálendi Íslands, skellti mér í göngu um Laugaveginn ásamt Lindu vinkonu og fleira góðu fólki. Frábær hópur, tekið vel á því og endað í blíðskaparveðri í Básum í Þórsmörk þar sem var grillað og haldið upp á sigurinn. Gengum yfir 70 km á þremur dögum, 25 fyrsta daginn, 27 annan daginn og 19 síðasta daginn. Nú gætu einhverjir besservisserar risið upp og bent mér á að Laugavegurinn sé einungis 54 km, en ég neyðist til að þagga niður í þeim og upplýsa um að gönguhópnum nægði engan veginn þessi hefðbundna leið, heldur voru farnir útúrdúrar hinir mestu, þannig að sumum þótti nóg um. Nefnum engin nöfn en viðkomandi getur sagt frá því sér til varnar að skófatnaðurinn var algerlega óviðunandi og til mikilla trafala, fer aldrei sjálfviljug í þessa skó aftur á ævinni! Hér má svo sjá allan þennan vaska hóp og göngudrottninguna Sigríði aðra frá vinstri í neðri röð.



Nú að lokum er gaman að segja frá því að fyrir nákvæmlega 7 árum síðan var ég með hríðir, glöggir menn geta þá eflaust reiknað út að elskulegur sonur minni eigi afmæli á morgun. Hér á Hólavöllum verður haldin veisla að vanda og ég er svo stálheppin að hoppukastalinn kemur um hádegi, þannig að ég get verið búin að hoppa frá mér ráð og rænu áður en lýðurinn birtist. Alltaf er maður að græða!


fimmtudagur, júlí 5

Ferðalög



Samkvæmt áreiðanlegum heimildum (netinu...) virðist ég hafa komið til 9% landa á jörðinni og ég sé ekki betur en að þau einskorðist við aðeins 2 heimsálfur. Auðvitað skömm og hneisa að vissu leyti, en sé mig tilneydda til að benda á að á meðan sumir hafa þvælst um algjörlega ábyrgðarlausir um heiminn þveran og endilangan hef ég fætt og alið 2 börn og þar að auki helgað veiku fólki lífi mínu og bjargað mannslífum með annarri á meðan ég fletti ferðabæklingum með hinni. Það er ekki hægt að gera allt. Er það ekki verðugt markmið að hafa komið til Portúgal, Írlands og Belgíu fyrir fimmtugt? Þá er ég að minnsta kosti búin með Vestur-Evrópu.

Katla er komin heim úr Vindáshlíð, var afskaplega ánægð með dvölina, kynntist fullt af skemmtilegum stelpum og vann sér það helst til frægðar að sigra í broskeppni, var sem sagt með breiðasta brosið, hvorki meira né minna en 10 sentimetrar. Ég er auðvitað yfir mig stolt enda dettur mér ekki í hug neitt háleitara markmið í lífinu en að brosa breitt, því eins og alþjóð veit þá breytir bros dimmu í dagljós...


sunnudagur, júlí 1

Barnseignarfríið á enda

Þrátt fyrir að hafa nú búið í Svíaríki í 3 ár fyrir utan þessi 5 í æsku (22% ævi minnar samanlagt!), þá hefur mér ekki enn tekist að læra að setja upp samúðarsvip þegar maður heyrir af vinnufélögum sem "ganga inn í vegginn". Það sem ég hef komist næst því er þegar ég rak mig allharkalega með öxlina í vegginn í matsalnum um daginn, en í hugum Svía hefur hugtakið allt aðra merkingu, sem sagt að "brenna út". Í stuttu máli inniber þetta að maður getur ekki sinnt vinnunni og verður að vera í 100% veikindaleyfi, þar fyrir utan getur maður gert hvað sem er. Fyrir mér hljómar þetta svona: ég er ekki þunglynd en mér finnst leiðinlegt í vinnunni og vil frekar vera í veikindaleyfi. Ég er kannski fullgróf, en hvað er að þessu liði? Nýjasta dæmið er sjúkraþjálfarinn á deildinni sem gekk í vegginn um daginn, þegar þetta var tilkynnt hölluðu allir undir flatt og voru agalega leiðir nema ég sem fór að flissa í hljóði. Formaður húsfélagsins hérna í götunni hjá mér er einmitt útbrunnin, sem hentar henni ábyggilega mjög vel því þá hefur hún tíma til að vera í garðinum 7 klukkustundir á dag á milli þess sem hún stýrir húsfélaginu með harðri hendi og er með nefið ofan í hvers manns koppi á meðan ég vinn myrkranna á milli fyrir bótunum hennar. Frábært fyrirkomulag!
En svo að ég snúi mér að jákvæðara hjali þá get ég sagt frá hinum stórkostlegu tónleikum með George Michael á föstudagskvöldið sem við stelpunar létum okkur auðvitað ekki vanta á. Við höfum öll elst alveg fáránlega lítið síðan 1985 þegar Wham var og hét, það er helst að Goggi kallinn sé kominn með smá bjórvömb enda kannski ekki við öðru að búast miðað við lífernið á honum. Hvað varðar kynhneigðina er þetta auðvitað hans ákvörðun í einu og öllu og verður að bera virðingu fyrir því, en það er ekki hægt að segja annað en að þar hafi góður biti farið í hundskjaft. Þetta voru í stuttu máli frábærir tónleikar og auðvitað rífandi stemmning, get ekki neitað því að það hríslaðist gæsahúð um mig alla frá toppi til táar þegar hann tók Careless Whisper.
Ég er sem sagt komin aftur út eftir vikudvöl á Íslandi, greinilegt að bófar og ræningjar skilja ekki dulmálið mitt því hér var allt á sínum stað, það er að segja sama óreiðan og venjulega. Tók næturflug frá Íslandi klukkan 1 um nótt, lenti klukkan 6 að staðartíma og fór beint í vinnuna. Á sínum tíma fannst mér þetta góð hugmynd, man ekki alveg hvaða hugsun lá þar að baki... Er á vakt í dag og líka í gær, enn sem komið er verið afspyrnu rólegt og nú eru einungis 14 tímar eftir. Katla er í Vindáshlíð í sumarbúðum þessa dagana, ég keyrði hana í rútuna áður en ég fór og stóð ekki alveg á sama þegar ég sá að hún var nánast sú eina sem var ekki með vinkonu með sér, ég hringdi svo alveg í öngum mínum daginn eftir, alveg sannfærð um að hún væri aðframkomin af leiðindum og heimþrá og örugglega lögð í einelti eða eitthvað þaðan af verra, fékk hins vegar allt önnur svör mér til mikillar undrunar; allt gengi eins og í sögu, þetta væri frábær hópur og greinilegt að þær kæmu frá góðum heimilum! Mikið er ég fegin að hún er ekki með einhverjum fátæklingum eða godforbid stúlkubörnum úr brotnum fjölskyldum...


Free Hit Counters
Free Counter