Katla og Sölvi

mánudagur, febrúar 25

Sjúbb sjúbb

Erum búin að vera á skíðum síðustu vikuna, algjörlega frábær ferð. Vorum ásamt 6 öðrum fjölskyldum í tveimur samliggjandi íbúðum og gekk sambúðin furðu vel, maður ætti kannski bara að stofna kommúnu, greinilega ekkert mál að búa saman 13 fullorðnir og 15 börn...

Einn fjölskyldumeðlimurinn fór reyndar ekkert á skíði, er enn í endurhæfingu eftir handleggsbrotið í síðustu skíðaferð, en hún las, fór í göngutúra og ýmislegt fleira. Sölvi skellti sér í skíðaskóla eins og venjulega, gekk mjög vel og fór stöðugt fram. Á laugardaginn skelltum við Dísa okkur í Tjejvasan, fyrir þá sem ekki vita hvað það er, þá er um að ræða 30 kílómetra skíðagöngukeppni sem fer fram einu sinni á ári. Færið var afleitt, snjórinn líktiskt mest hálfbráðnuðum sorbet, en mér til mikillar gleði náði ég þrátt fyrir það að bæta mig um 38 mínútur frá því í fyrra og var samt ekki nærri því eins þreytt í þetta skiptið. Ég held að þetta hljóti að vera afrakstur hlaupanna síðustu vikurnar, það er ekkert annað sem hefur breyst frá því í fyrra. Þetta var samt hörkupúl, líkaminn undirlagður af hreyfingu. Í gær var þó allt annað uppi á teningnum, líkaminn undirlagður af harðsperrum....

Í bílnum á heimleiðinni í gær var verið að spila Abba og Sölvi vildi sífellt heyra Money, money aftur. Ég var aðeins að reyna að draga úr þessum peningaáhuga drengsins sem er víst nógur fyrir, en síðan þegar ég spurði hvort hann skildi hvað sungið væri um kom í ljós að hann hélt það væri verið að syngja um mömmu. Hann fékk því að halda áfram að hlusta og syngja af hjartans lyst: "Mamí, mamí, mamí...."


laugardagur, febrúar 16

Mother of the year?

Já maður vinnur víst seint þann titil þetta árið, ekki þegar maður lætur sjá sig með annað barnið í fatla og hitt með saumaða kinn...
Við erum að undirbúa okkur undir hina árlegu og ofurskemmtilegu skíðaferð, leggjum í hann í fyrramálið. Sumir fara reyndar ekkert á skíði vegna beinbrota, en eru þess í stað með ógrynnin öll af afþreyingarefni til að láta sér ekki leiðast. Held reyndar að það verði engin hætta á því, alltaf einhver heima við til að spjalla við og svo hefur þessari stúlkukind ekki þótt leiðinlegt hingað til að liggja bara og lesa. Á laugardaginn er svo hin æsispennandi keppni Tjejvasan sem stendur til að taka þátt í þrátt fyrir að hafa ekki stigið á skíðin í heilt ár vegna snjóleysis. Nú finnst mér hins vegar vera smá pressa á mér, verð að ná betri tíma en síðast! Fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með gangi mála á www.vasaloppet.se.
Að öðru leyti er bara allt við það sama. Ég rembist við að hlaupa annað slagið og er formlega búin að skrá mig í hálfmaraþon sem fer fram 17. maí, nú verður víst ekki aftur snúið. Það gengur alveg þokkalega, en það er víst smá munur á því að skottast nokkra kílómetra eftir vinnu og að hlaupa 21 km viðstöðulaust. Kemur eflaust allt í ljós...


föstudagur, febrúar 1

Harmsaga heimasætunnar

Börnin komust loks af stað til Íslands fyrir viku síðan, eftir langa bið og 12 klukkutíma seinkun vegna þess að það var óveður á Íslandi.... eina ferðina enn! Sem betur fer var ofurafinn með í för sem gerði þetta allt saman bærilegra. Þau fóru svo nánast sömu leið til baka daginn aftur, bara aðeins lengra og sunnar, enduðu á Ítalíu þar sem til stóð að skíða í ítölsku brekkunum sem samkvæmt minni reynslu eru algjörlega frábærar. Þetta fór þó ekki betur en svo, að eftir fyrsta daginn stóð Katla uppi með brotinn upphandlegg. Hún var þó fljót að sætta sig við orðinn hlut og hafði mestar áhyggjur af því hvernig hún ætti að geta skrifað í skólanum.

Sjálf hef ég haft nóg að gera, eftirfarandi stóð til á meðan börnin eru í burtu:
- 4 daga kúrs í Stokkhólmi um heyrnarfræði - check, lærði margt og mikið
- innebandy með sænska liðinu mínu - check, skoraði tvö mörk!
- badminton með einni úr innebandyinu - check, gríðarharðsperrur í hægri úlnlið
- 2 vaktir - næstum check, búin með eina og hálfa
- saumaklúbbur með Uppsalapíum - fyrirhugaður á sunnudaginn
- 35 ára afmæli hjá Gunnu og Didda - stendur til annað kvöld
- disputation hjá Tomas vinnufélaga mínum - check, gífurlega gaman
- hlaupa þrisvar - hmmm... 1/3 check... hlýt að ná einu skipti í viðbót




Hér má sjá Dr. Sveinsdóttur á hor- og slefvaktinni, svindlaði aðeins þarna og var í operationsfötum sem má í raun alls ekki, en er ekki blátt klæðilegra en hvítt þegar maður er svona fölur og fár?
Sjáið þið ekki annars muninn? Ekki lengur ST-læknir, heldur sérfræðingur sem situr þarna fölur og fár og brosir sínu blíðasta...


Free Hit Counters
Free Counter