Katla og Sölvi

þriðjudagur, mars 25

Próflestur á gamals aldri

Þegar ég skrifaði undir ST-samninginn minn var klausa um að ég yrði að taka svokallað ST-próf í lok námsins. Á sínum tíma fannst mér þetta hið besta mál, auðvitað væri sjálfsagt að sýna hvað maður kann og yrði bara hressandi að lesa sér til um það sem á vantaði. Nú hefur eftirfarandi hugsun tekið völdin hjá mér: "Það stendur bara að ég þurfi að taka prófið, ekki að ég þurfi að ná því...."
Síðast þegar ég sat við próflestur var árið 2000. Ég var ólétt af barni sem er núna nánast unglingur og nær mér upp að þriðja rifbeini, þótt hann deili reyndar rúmi með mér því það er svo notalegt!
Mér finnst eiginlega ekki hægt að ætlast til þess að ég geti þetta komin á þennan aldur, orimligt eins og svíinn myndi segja.

Bragi bró kom í heimsókn á skírdag og var fram á laugardag. Voða gaman að fá hann og hann fær líklega fálkaorðu heimilisins fyrir að hafa komið oftast af systkinunum. Kristín Björg var reyndar einu sinni í 6 vikur, hún fær að deila verðlaununum með ástkærum stórabróður sínum.
Við fórum á Naturhistoriska museet á föstudaginn langa, vorum reyndar óviss hvort það væri opið, en þessir hundheiðnu svíar eru sko ekki heima að láta sér leiðast þennan dag, allt opið. Gunna sagði mér í gær frá sænskri stelpu sem kom til Íslands um páska og skildi ekkert í því að alls staðar væri flaggað í hálfa stöng á föstudaginn langa, spurði hvort einhver frægur íslendingur hefði dáið!

Börnin fóru svo til Íslands á laugardaginn og verða í 8 daga, hentaði mér í raun mjög vel út af þessu prófi, en svo kemur í ljós algjörlega óvænt að próflestursúthaldið er ekkert. Er í alvöru að spá í hvort þurfi ekki nauðsynlega að þvo gluggana að utan í dag (hef aldrei gert það síðan við fluttum hingað), já þetta getur ekki beðið mínútunni lengur!


fimmtudagur, mars 13

Hver vill elska 49 ára gamlan mann?

Var það ekki eitthvað á þá vegu sem Stuðmenn sungu hérna um árið?

Hver vill elska 37 ára gamla konu? Klæðist náttfötum í vinnunni og eyðir afgangnum af sólarhringnum í æsispennandi húsmóðursstörf...

Hólí mólí hvað tíminn líður hratt, ég sem er andlega og líkamlega ennþá mesta lagi 29! Þetta var ósköp rólegur afmælisdagur enda mánudagar strembnir á okkar heimili. Til hátíðarbrigða var keypt sushi til að taka með heim og maðurinn sem ég deili rúmi með fékk pylsur. Það er örugglega ólíkt skemmtilegra að verða 11 ára, Katla er að minnsta kosti mjög spennt fyrir morgundeginum. Við Sölvi ætlum í bæinn í dag að reyna að kaupa eitthvað handa henni, það verður einfalt því hún vill bara bækur. Á morgun er planið að fara í sund, út að borða með Guðrúnu Söru og Co, drífa sig svo heim að horfa á Lets Dance. Fullkominn dagur í huga heimasætunnar. Afmælispartýið er síðan á sunnudaginn og byrjar 15.55, spurning hvort Svíarnir fatti að hún sé að gera grín að því hvað þeir eru alltaf stundvísir. Síðast þegar hún átti afmæli voru allir nema einn mættir fimm mínútum fyrir auglýstan tíma, þessi eini var Guðrún Sara sem var enn niðrí bæ að kaupa afmælisgjöf. Munur á Íslendingum og Svíum í hnotskurn...


miðvikudagur, mars 5

Hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað?

Ég man þá tíð, að fagnaðarlátum ætlaði seint að linna og hamingjukommentin rigndu inn við afrek á við Tjejvasan.... því þetta er svo sannarlega afrek, þið skuluð ekki láta ykkur detta í hug að slíkt sé gert af hálfum hug. Ég kýs að túlka þetta á þann veg að ég sé formlega komin í hóp afreksfólk í íþróttum og að fólk geri bara ráð fyrir persónulegum metum og stöðugum framförum!
Guð hjálpi mér hvað ég er búin að eyða miklum peningum í dag! Fór með bílinn í skoðun, það var hitt og þetta sem mátti betur fara, til dæmis vantaði hliðarspegil bílstjóramegin, hann varð á einhvern óskiljanlegan hátt eftir í bílskýlinu þegar ég var að bakka út um daginn.... Anyway, þá kostaði þetta dágóða summu. Fór svo beinustu leið og keypti tölvu til heimilisins (sit og hamra á nýja gripinn einmitt í þessum töluðu orðum, eiginlega hálfsjokkeruð yfir að allt virki...) og kórónaði svo innkaupin með að fjárfesta í nýjum skíðum og skíðaskóm á sjálfa mig. Kýs að telja útgjöld dagsins ekki saman að svo stöddu.
Er á leið á skíði á morgun með vinnunni og verð fram á sunnudag. Amma Kriss kemur til að vera hjá börnum og búi, ekki amalegt að eiga svona ömmu! Í raun átti fasteignasalinn að koma á morgun líka til að taka myndir en ég neyddist til að fresta honum, ætlaði að drífa það af áðan að gera húsið söluhæft en það reyndist mér algjörlega ofviða.
Katla er búin að jafna sig á handleggsbrotinu, byrjuð aftur í bæði badminton og dansi, áfallið í brekkunni vonandi gleymt og grafið. Hún er á leið á skauta með bekknum á morgun í vorblíðunni, túlípanarnir eru sko komnir talsvert upp...
Sölvi sprækur sem endranær, gengur sífellt betur með lesturinn þótt enn ég talsvert í að hann geti kallast fluglæs. Við vorum í viðtali hjá kennaranum hans um daginn og hún var mjög ánægð með hann. Hjúkk...!


Free Hit Counters
Free Counter