Af illalyktandi ostum og fleiru
Afinn mættur á svæðið við mikinn fögnuð viðstaddra, kom færandi hendi beint frá Genf með súkkulaði handa börnunum og ost handa mér, mjög góðan en lyktar all hressilega, maður missir meðvitund um stundarsakir þegar ísskápurinn er opnaður. Við fórum út að hjóla eftir kvöldmat í gær til að sýna afanum hverfið og leist honum mjög vel á. Það var tekin formleg ákvörðun um það að hjálpardekkin fari um helgina, "afar kenna alltaf krökkum að hjóla" sagði ég, að minnsta kosti kenndi afi Magnús mér og ég held að það sé reglan. Reyndar er Sölvi löngu hættur að styðja sig við hjálpardekkin, þetta er bara einhver meinloka hjá honum að þau eigi að vera á.
Um síðustu helgi kláruðum við Braga-dagana með stæl, fórum á föstudaginn þegar ég var búin að vinna í bíltúr út að Ulva kvarn, skoðuðum allt í krók og kima og snæddum á kaffihúsinu eins og vera ber. Fórum svo að sjálfsögðu einn hring í Bälinge, Bragi man reyndar ekkert eftir að hafa búið þar en ég skimaði í allar áttir í leit að gömlum bekkjarfélögum. Þeir létu þó ekki sjá sig, skil ekkert í því. Rættist þó úr málum áður en helgin var liðin, því að á laugardaginn fórum við í Gröna Lund. Þegar við erum nýkomin inn og ég stend í röð til að kaupa miða tek ég allt í einu eftir því að kona við hliðina á mér starir stóreyg á mig. Þarna var þá mætt Stina Haglund sem var ein af bestu vinkonum mínum í 4. og 5. bekk. Vid féllumst auðvitað í faðma og skiptumst á símanúmerum, stefnum að því að hittast við tækifæri. Eftir þónokkrar bunur í tívolítækjunum (ég treysti mér bara til að fara med börnunum, augljóst ellimerki, en Bragi og Rannveig skelltu sér í öll hrikalegustu tækin) fórum við að hitta Stokkhólmsliðið og hófst þá Eurovision-gláp fram á rauða nótt, þetta fór allt friðsamlega fram og allir héldu ró sinni yfir úrslitunum, þónokkrir dottuðu örlítið, ég var bara þakklát fyrir að hroðalegu-lettnesku-táknmálsgæjarnir-sem-hefðu-ekki-komist-áfram-í-söngvakeppni-framhaldsskólana unnu ekki, leit út fyrir það á tímabili og þá var svo komið að meira að segja ég sem einlægur aðdáandi Eurovision var farin að efast um smekk, tóneyra og hlutleysi Evrópuþjóðanna.
Bragi sveif svo á braut á sunnudaginn, en við hin fórum í lautarferð í Stadsparken í frábæru veðri, svo var okkur boðið í afmæli til Margrétar sem er bekkjarsystir Kötlu og átum á okkur göt. Þær eru mikið saman þessar íslensku stelpur, munar mjög miklu fyrir Kötlu að hafa þær en hún virðist yfir höfuð mjög sátt við bekkinn, kennarann og allt saman. Hún segist ætla að fara að læra á píanó í haust, það þarf víst að redda þá einhverju hljóðfaeri fyrir hana, ætli Ingi komi ekki bara med orgelið hans afa á bakinu næst þegar hann kemur.
Talandi um Inga þá er hann búinn að vera á köfunarnámskeiði sem ég gaf honum í afmælisgjöf, afskaplega ánægður med þetta, brilleraði í prófunum og strax farinn að kafa bæði í Þingvallavatni og Straumsvík. Ég var farin að halda að hann væri fæddur kafari og var farin að óttast að ná honum ekki á þurrt land aftur en svo kemur uppúr "kafinu" að hann er að farast í eyrunum í lengri tíma eftir hvert skipti, verkur, hella og heyrnarleysi sem kemur sér afar illa ("hvað segirðu, 5 milljónir? 15 milljónir?") Vonandi á þó kokhlustin eftir að aðlagast þessu nýja áhugamáli.
Við erum orðin mjög spennt að koma heim eftir 2 vikur. Mitt fyrsta verk verður ad fara í klippingu, lít út eins og afdankaður þungarokkari með úr sér vaxid strý, algjör hörmung.