Katla og Sölvi

fimmtudagur, maí 26

Af illalyktandi ostum og fleiru

Afinn mættur á svæðið við mikinn fögnuð viðstaddra, kom færandi hendi beint frá Genf með súkkulaði handa börnunum og ost handa mér, mjög góðan en lyktar all hressilega, maður missir meðvitund um stundarsakir þegar ísskápurinn er opnaður. Við fórum út að hjóla eftir kvöldmat í gær til að sýna afanum hverfið og leist honum mjög vel á. Það var tekin formleg ákvörðun um það að hjálpardekkin fari um helgina, "afar kenna alltaf krökkum að hjóla" sagði ég, að minnsta kosti kenndi afi Magnús mér og ég held að það sé reglan. Reyndar er Sölvi löngu hættur að styðja sig við hjálpardekkin, þetta er bara einhver meinloka hjá honum að þau eigi að vera á.
Um síðustu helgi kláruðum við Braga-dagana með stæl, fórum á föstudaginn þegar ég var búin að vinna í bíltúr út að Ulva kvarn, skoðuðum allt í krók og kima og snæddum á kaffihúsinu eins og vera ber. Fórum svo að sjálfsögðu einn hring í Bälinge, Bragi man reyndar ekkert eftir að hafa búið þar en ég skimaði í allar áttir í leit að gömlum bekkjarfélögum. Þeir létu þó ekki sjá sig, skil ekkert í því. Rættist þó úr málum áður en helgin var liðin, því að á laugardaginn fórum við í Gröna Lund. Þegar við erum nýkomin inn og ég stend í röð til að kaupa miða tek ég allt í einu eftir því að kona við hliðina á mér starir stóreyg á mig. Þarna var þá mætt Stina Haglund sem var ein af bestu vinkonum mínum í 4. og 5. bekk. Vid féllumst auðvitað í faðma og skiptumst á símanúmerum, stefnum að því að hittast við tækifæri. Eftir þónokkrar bunur í tívolítækjunum (ég treysti mér bara til að fara med börnunum, augljóst ellimerki, en Bragi og Rannveig skelltu sér í öll hrikalegustu tækin) fórum við að hitta Stokkhólmsliðið og hófst þá Eurovision-gláp fram á rauða nótt, þetta fór allt friðsamlega fram og allir héldu ró sinni yfir úrslitunum, þónokkrir dottuðu örlítið, ég var bara þakklát fyrir að hroðalegu-lettnesku-táknmálsgæjarnir-sem-hefðu-ekki-komist-áfram-í-söngvakeppni-framhaldsskólana unnu ekki, leit út fyrir það á tímabili og þá var svo komið að meira að segja ég sem einlægur aðdáandi Eurovision var farin að efast um smekk, tóneyra og hlutleysi Evrópuþjóðanna.
Bragi sveif svo á braut á sunnudaginn, en við hin fórum í lautarferð í Stadsparken í frábæru veðri, svo var okkur boðið í afmæli til Margrétar sem er bekkjarsystir Kötlu og átum á okkur göt. Þær eru mikið saman þessar íslensku stelpur, munar mjög miklu fyrir Kötlu að hafa þær en hún virðist yfir höfuð mjög sátt við bekkinn, kennarann og allt saman. Hún segist ætla að fara að læra á píanó í haust, það þarf víst að redda þá einhverju hljóðfaeri fyrir hana, ætli Ingi komi ekki bara med orgelið hans afa á bakinu næst þegar hann kemur.
Talandi um Inga þá er hann búinn að vera á köfunarnámskeiði sem ég gaf honum í afmælisgjöf, afskaplega ánægður med þetta, brilleraði í prófunum og strax farinn að kafa bæði í Þingvallavatni og Straumsvík. Ég var farin að halda að hann væri fæddur kafari og var farin að óttast að ná honum ekki á þurrt land aftur en svo kemur uppúr "kafinu" að hann er að farast í eyrunum í lengri tíma eftir hvert skipti, verkur, hella og heyrnarleysi sem kemur sér afar illa ("hvað segirðu, 5 milljónir? 15 milljónir?") Vonandi á þó kokhlustin eftir að aðlagast þessu nýja áhugamáli.
Við erum orðin mjög spennt að koma heim eftir 2 vikur. Mitt fyrsta verk verður ad fara í klippingu, lít út eins og afdankaður þungarokkari með úr sér vaxid strý, algjör hörmung.


laugardagur, maí 21

Svekkt og sár

Ég er orðlaus! Nei, orðlaus er kannski ekki rétta orðið því ég hef nóg að segja. Þetta voru þvílíku vonbrigðin og ég get ekki annað en kennt dressinu um. Ólíkt dempaðri stemmning í partýum í kvöld geri ég ráð fyrir, ætli maður verði ekki að halda með Svíunum þrátt fyrir allt. Annars er ég alveg á því að austur-Evrópulöndin séu búin að eyðileggja þessa annars ágætu skemmtun og sting upp á því að þessu verði skipt í 2 keppnir, upp með járntjaldið og út með þessi austantjaldslönd sem kunna ekki gott að meta (út með jólaköttinn, kvikindið er loðið eins og ljón!)
Það hefur gengið ótrúlega vel með Sölva á nýja leikskólanum og aðlögun hér með lokið, verður allan daginn á mánudaginn. Hann virðist vera afskaplega sáttur við skiptin og samkvæmt fóstunum er hann svo gullig och snäll og borðar svo vel!
Góða helgi!


fimmtudagur, maí 19

Að vinna eða ekki vinna Eurovision?

Já, hefst nú hátíðin! Ég er agalega spennt og ég held að við rúllum þessu upp (og þegar ég segi við þá er það bein vísun í íslensku þjóðina, bara svo að það sé á hreinu). Reyndar verð ég að viðurkenna að það kom vænt bakslag í sigurvissu mína þegar ég sá búninginn sem Selma verður í, hvílík HÖRMUNG! Hver hannaði eiginlega þetta appelsínugula stuttbuxnadress og á hvaða lyfjum var viðkomandi? En ég mun ekki láta þetta áfall skyggja á sigurvímu mína og mun hreiðra um mig fyrir framan sjónvarpið í kvöld með bros á vör, poppskál í annarri og kókglas í hinni.
Ég er búin að vera að reyna að fitja uppá snörpum umræðum um keppnina við kollegana í dag, og er farin að halda að ég sé eini Eurovision-nördinn á svæðinu. Tókst einhvern veginn ekki að ná á flug djúpum samræðum um eitt eða neitt sem tengist þessari bráðskemmtilegu keppni.
Annars er mjög mikið skrifað um þessi mál í blöðin, kemur mér mest á óvart síðustu daga að það er farið að ræða um að sænska lagið eigi ekki séns á 10 efstu sætunum. Svíar eiga greinilega mikið ólært af íslenskum frændum sínum í norðri sem eru sigurvissir fram í rauðan dauðann.
Góður dagur í gær. Sölvi byrjaði á nýja leikskólanum (já, hlutirnir gerast hratt á þessum bæ) og leist mjög vel á. Hann er á grænu deildinni með íslensku strákunum og er auðvitað alsæll með það. Ég spurði hvort það væru einhverjar góðar fóstrur og hann svaraði: "jáhá, það er ein laaangbest, hún er svooo falleg!" Þetta lofar góðu, þótt maður missi drenginn um stundarsakir í faðm annarrar konu... Síðan komst það á hreint í gær að ég get byrjað í Uppsala 1. september. Það er auðvitað frábært fyrir mig í alla staði, þótt það sé ekkert stórmál fyrir mig núna að vakna kl. 5-5.30 þá er það allt annað mál þegar það er orðið dimmt og kalt. Fyrir nú utan að þetta er miklu virtari spítali og starfsemin mun víðtækari. Þetta er afleysingastaða til eins árs til að byrja með, en mér heyrist að það gæti jafnvel orðið einhver framlenging á því.
Ingi var hjá okkur um síðustu helgi ásamt mömmu sinni og Svenna. Helgin fór að mestu leyti rólega fram, setið útá palli og sötrað hvítvín, ekki slæmt! Svo drifum við okkur til Stokkhólms á sunnudaginn, röltum um Gamla Stan, tókum svo bát út á Djurgården þar sem ég og börnin fórum á Junibacken en þau hin á Vasasafnið.
Svo kom Bragi bró á mánudaginn, dauðuppgefinn eftir próflestur, lokaprófin í verkfræðinni. Hann er þó búinn að endurheimta fyrri krafta og búinn að skoða allt sem borgin býður uppá fram og tilbaka. Þeir frændur hafa líka brugðið sér saman í bæinn, mjög hentugt að hafa stóra frænda hér á meðan aðlögun Sölva í leikskólanum stendur yfir.
En... ekki dugar að slóra, best að hespa vinnunni af og koma sér í réttu stemmninguna fyrir kvöldið. Góða skemmtun!


laugardagur, maí 14

Hótanir svínvirka, sannast enn og aftur. Alveg ljóst hvaða aðferð mun verða reynd í uppeldinu næst! Munið svo bara að hótanirnar eru í fullu gildi so keep up the good work folks!
Smávegis babb in the boat í gær... Það var hringt í mig í gær frá leikskólanum og tjáð að Sölvi væri bara alls ekki ánægður, liði greinilega ekki nógu vel og þar að auki strauk hann úr leikskólanum í gær. Náði einhvern veginn að komast yfir girðinguna og var kominn að útidyrunum heima áður en hann náðist. Þær voru auðvitað alveg í sjokki á leikskólanum, en höfðu þó vit á að láta mig ekki vita fyrr en hann var fundinn. Það var stungið uppá því að hann fengi að fara á leikskólann þar sem Þorri og Gunnar Björn eru, líklega hægt að redda plássi þar með stuttum fyrirvara, kemur í ljós eftir helgi. Við viljum auðvitað að barninu líði vel og þiggjum að sjálfsögðu að hann fari á hinn leikskólann, þar á hann þó amk. vini. Hann er mjög upptekinn af skordýrum eins og alltaf, segist ætla í Skordýraskólann þegar hann verður eldri. Hann sagði við mig um daginn: "mamma, það er bara eitt sem ég kann ekki á sænsku, það er mauraþúfa!" Hann er ennþá með hjálpardekkin, verða líklega á þar til hann fermist.
Annars allt gott að frétta, mér hefur gengið vel að forðast lögregluna á óskoðaða bílnum (beiti þeirri aðferð að keyra á ofsahraða til að skráningarnúmerið sjáist ekki). Annars ætlum við Ingi að fara að skoða bíla í dag, verðum kannski komin á nýjan kagga við næstu skrif.
Við Katla fórum í viðtal hjá kennaranum hennar í gær, þær eru auðvitað ekki búnar að þekkjast lengi en það virðist sem Kötlu gangi bara mjög vel. Hún virðist líka vera mjög ánægð. Hún er búin að vera óvenju góð við bróður sinn undanfarna daga, ég var búin að lofa henni poppy (sýndarveruleikatölvugæludýr) sem hana langar svo í, ef hún væri góð við hann. Förum með bros á vör í innkaupaleiðangur í dag og ég vona bara að áhrifin haldist.
Ingi, mamma hans og Svenni komu í gær og fengu rosalega fínt veður, 15° hiti og glampandi sól, mér sýnist það stefna allt í svipað veður í dag. Best að drífa sig útá pall með prjónana.
Later...


miðvikudagur, maí 11

Hótunarblogg!

Jæja, nú held ég að sumarið sé komið og ekki seinna vænna að fjárfesta í almennilegu grilli. Þótt það falli vel inní sænsku ímyndina að pukrast með vesælt kolagrill þá nenni ég þessu ómögulega lengur og mun draga ástkæran eiginmann (og Visa-kortið hans) í innkaupaleiðangur um helgina.
Við höfum haft það fínt síðustu daga, ég var á vakt í gær og er dauðfegin að vera komin heim eftir að hafa ekki séð til sólar í 36 klst. Þetta eru reyndar oftast rólegar vaktir, hef verið á vakt síðustu 2 þriðjudaga og hef í bæði skiptin náð að horfa á Desperate housewives frá upphafi til enda!
Sölvi fór á Junibacken í Stokkhólmi í dag með leikskólanum, fékk að fara bæði í lest og strætó, var mjög ánægður með þetta allt saman.
Krakkarnir eru alltaf jafn ánægð á nýja staðnum, núna er auðvitað komið svo gott veður að þau eru nánast alltaf úti, dregin með valdi inn í kvöldmat. Höfum nánast ekkert þurft að beita nýju reglunni: Ekkert vídeógláp fyrir klukkan 5. Ekki leika þau sér þó mikið saman og slást hressilega annað slagið. Við erum með nýja tilraun í uppeldinu (enn og aftur!), núna eru fjölskyldufundir á hverju kvöldi þar sem við byrjum á því að segja eitthvað gott hvert um annað (ef einhver þarf að kasta upp vegna væmni er ágætis tækifæri núna) og síðan ræðum við hvað má betur fara. Í fyrrakvöld þegar fyrsti fundurinn var haldinn sagðist Sölvi sko alveg vita hvað hann ætlaði að segja gott: "mamma er alltaf svo snyrtileg" var fyrsta athugasemdin og ég ljómaði eins og sól í heiði. Ég var þó fljót niður á jörðina aftur þegar næsta athugasemd kom: "Katla er aldrei að meiða mig." Þar sem þetta er helber lygi var ekki annað hægt en að velta því fyrir sér hvort hitt hefði ekki verið eintómt bull og smjaður líka!
Helgin var ósköp róleg hjá okkur, Sigurður og Sunna komu reyndar í mat á laugardaginn og gekk það prýðilega, að vísu þurfti ég að senda þau í búð á leiðinni til að kaupa mango chutney. Aðstoðarkokkurinn Sölvi Guðmundsson var nefninlega sendur til nágrannana til að láta húsbóndann opna krukku fyrir mig, en það fór ekki betur en svo að hann týndi henni á leiðinni. Þessu fylgdu langar útskýringar á áhugaverðum skordýrum sem hefðu orðið á vegi hans og að hann hefði í sakleysi sínu lagt krukkuna frá sér en gat engan vegin munað hvar. Hún fannst ekki þrátt fyrir ítarlega leit.
Á sunnudaginn voru börnin vart sýnileg, Katla tilkynnti um leið og hún vaknaði að hún ætlaði að vera með Guðrúnu Söru allan daginn. Ég spurði hvort hún vildi ekki frekar vera með mér en sú hugmynd féll í grýttan jarðveg, sagðist alltaf geta verið með mér. Það er nú reyndar ekki alveg sannleikanum samkvæmt, hins vegar er hún með Guðrúnu að minnsta kosti 12 klst á dag! Sölvi var líka þotinn til vina sinna og ég stóð eftir eins og illa gerður hlutur og vissi ekki hvað ég átti að gera af mér. Leið eins og gamalli konu sem er ein eftir í þöglu húsi, börnin of önnum kafin til að koma í heimsókn, gekk á milli glugganna og fylgdist með lífinu fyrir utan. Gulla dreif mig svo í göngutúr um hverfið og ég get svarið það, ég var með harðsperrur á eftir! Hraðinn á frú Guðlaugu var þvílíkur, greinilegt að líkamlegt ásigkomulag mitt er í sögulegu lágmarki!
Komst að því í gær að bíllinn er í akstursbanni... Hafði eitthvað misskilið þetta með skoðun á bílnum, hélt að það væri í maí en reyndist hafa verið í febrúar... Ég má sem sagt alls ekki hreyfa bílinn nema til að keyra hann í skoðun en fékk ekki tíma fyrr en í næstu viku, AARRRG!
Hvernig væri svo að fara að taka sig á í kommentunum kæru lesendur? Ég er að hugsa um að fara að beita þeirri aðferð að skrifa ekkert fyrr en komin eru amk 3 komment á síðustu færslu, og þetta er hótun!


laugardagur, maí 7


Katla í sjálfheldu Posted by Hello


föstudagur, maí 6

Loksins...

... kem ég mér í að skrifa smá. Lengi vel vorum við ekki með neina nettengingu á nýja staðnum, en síðan tókst mér, öllum að óvörum og allra mest sjálfri mér, að netvæða heimilið.
Við erum sem sagt flutt á Herrhagsvägen og afskaplega ánægð með skiptin. Húsið er aðeins minna en í Västerås en alveg nóg fyrir okkur, reyndar fékk Sölvi ekkert herbergi heldur bara horn sem búið er að strengja gardínur fyrir. Hann er samt mjög sáttur. Það eru fjórir íslenskir strákar í hverfinu sem eru allir fæddir 2000 og hann getur hlaupið yfir í heimsókn. Í gærmorgun fór þetta reyndar aðeins yfir strikið hjá honum. Það var frídagur eins og á Íslandi, ég heyrði Sölva brölta á lappir rétt fyrir 7 en aldrei þessu vant kom hann ekki inn til mín, ég heyri að hann vesenast eitthvað, fer svo niður stigann, hleypur yfir stofugólfið og opnar svaladyrnar, á þessu stigi máls gerði ég mér grein fyrir að hann væri á leiðinni út og stekk í eitthvað yfir náttfötin og flýti mér í skó. Hann er nú sprettharður drengurinn og náði talsverðu forskoti og kl. 06.53 vöknuðu allir heima hjá Össa og Gullu við dyrabjölluna, Sölvi mættur í heimsókn til Þorra.
Hann er byrjaður í nýjum leikskóla sem heitir Stenröset, gengur bara vel. Bestu vinir hans heita Rodin og Havar, ekki sérlega sænsk nöfn enda drengirnir innflytjendur eins og við.
Katla er líka alsæl, gengur vel í skólanum sem er bara handan við hornid, mesta lagi 200 metrar sem hún þarf að labba. Þær eru 3 íslenskar stelpur saman í bekk og gerði það þetta allt saman auðveldara. Hún er mest með Guðrúnu Söru systur hans Þorra, hún kemur hérna á hverjum morgni og þær labba saman í skólann. Bekkurinn er nú að æfa leikrit sem er byggt á Pelle Svanslös, verður sýning fyrir foreldrana innan skamms, mikil spenna í gangi.
Við höfum haft góða gesti undanfarið, fyrst komu Gunna og Diddi til að kanna aðstæður fyrir yfirvofandi Svíþjóðarflutninga, eru reyndar að velja á milli Uppsala eða Stokkhólms (er valið ekki nokkuð augljóst spyr ég nú bara...) Síðan kom mamma í nokkra daga og lenti í blíðskaparveðri. Væntanlegir gestir eru tengdó, Bragi, pabbi og maggi og Þóra (fyrirgefðu maggi minn, get allt í einu ekki gert stórt m, opnast alltaf msn-ið, veit einhver hvernig maður lagar það?) Ingi hefur komið mjög þétt undanfarið sem er afskaplega gott, svo er nú ekki nema rúmur mánuður þar til við höfum móðurjörðina aftur undir fótum vorum og hlökkum mikið til að eiga eðlilegt fjölskyldulíf í nokkrar vikur.
Ég reyni að lesa moggann og Fréttablaðið á netinu, helst á launum, næ því flesta daga. Vona að enginn hafi misst af viðtalinu við virðulegan útibússtjóra aðalútibús Landsbanka Íslands um daginn. Það er ekki sama tilfinningin að lesa þetta á netinu, og hvað er með allar þessar auglýsingar? Þær eru hræðilega lengi að downloadast, sérstaklega Bónus-auglýsingarnar og Fréttablaðið er helmingurinn fasteignaauglýsingar á hverjum einasta degi!
Nú er farið að styttast í Eurovision, hér er búið að sýna 2 þætti með Eurovision-spekingum sem rýna í lögin, voru allir mjög hrifnir af íslenska framlaginu og ég fann gamla Gleðibanka-tilhlökkunnartitringinn hríslast niður bakið á mér, sannfærð um að keppnin verði á Fróni að ári!
Við fórum hjólandi niður í bæ í dag, mikið afrek hjá krökkunum, þetta eru örugglega 6 km hvora leið. Sölvi stóð sig eins og hetja á litla hjólinu, trampaði og trampaði, þetta er þrisvar sinnum meiri vinna hjá honum en mér. Hann er ennþá með hjálpardekkin, búið að gera eina tilraun til að fjarlægja þau en hann var ekki alveg að fíla það: "mér þykir ekkert vænt um hjólið þegar það er ekki með hjálpardekk".



Pása og nestistími í hjólatúrnum Posted by Hello


Free Hit Counters
Free Counter