Katla og Sölvi

mánudagur, febrúar 27

Að vera eða vera ekki Svíi

Er maður orðinn of mettaður af sænsku þjóðfélagi þegar það er orðið manni tamara að skrifa .se en .is? (dæmi: mbl.se)
En þegar það er kominn 27. febrúar og maður er mjög pirraður á því að það sé ekki búið að raða niður sumarfríunum ennþá? (sko ég vil vera í fríi viku 29-32)
En þegar maður kemur aldrei meira en 5 mínútum of seint á morgnana? Er maður þá orðinn Svíi? Er bara svona að velta þessu fyrir mér....


mánudagur, febrúar 20

Kona einsömul

Jæja, þá eru börnin flogin til Íslands, gekk víst alveg eins og í sögu. Þeim fannst þetta nú ekki mikið mál, að skella sér á milli landa án þess að hafa neinn með sér. Ég verð í brjálaðri vinnutörn á meðan, setti nánast allar febrúarvaktirnar mínar á þessa daga og var að reikna það út að frá sunnudagsmorgni til föstudagseftirmiðdags verð ég 100 klst í vinnunni og 30 í fríi.... Veit ekki hvort ég geri þetta nokkurn tímann aftur, fer eftir hvernig mér líður á föstudaginn. Svo var stelpa sem vinnur með mér að stinga uppá að við skelltum okkur eitthvað út á föstudagskvöldið þar sem við erum báðar barnlausar, þannig að ég verð líklega andlega og líkamlega örmagna þegar ég sæki börnin á flugvöllinn á laugardaginn. Held að ég sé orðin of gömul í svona tarnir, þarf að fá minn 7 tíma svefn. Búin að vera í smá aldurskrísu undanfarið þar sem 35 ára afmælið nálgast óðfluga eins og óð fluga. Leið samt mun betur eftir að ég spurði Sölva um daginn hvað hann héldi að ég væri gömul. Hann hugsaði sig mjög vel um enda mikið í mun að segja enga vitleysu (held að hann hafi séð eftir að hafa sagt að ég væri of gömul til að byrja að æfa!) og sagði svo: "Þú ert alveg eins gömul og ég vil hafa þig!"
Hann kann á kvenfólki lagið, og ætti því ekki að koma á óvart að hann er kominn með kærustu. Ójá, drengurinn segir bara: "jag är kär" og tilfinningarnar virðast vera gagnkvæmar. Sú útvalda heitir Maria og er á bláu deildinni. Hún sendi honum á Valentínusardegi afar fallegt ástarbréf með meðal annars hjartalaga ljósmynd af sjálfri sér, og inní kortinu stóð Maria + Sölvi. Ekki amalegt það! Ekki víst að hún geri sér grein fyrir að hún þurfi að gefa allt nammi og óhollustu upp á bátinn ef hún ætlar að vera í návígi við Sölva. Talaði við hann í gær og sagði hann að það væri svo ógeðsleg lykt af pabba sínum því hann hefði verið að borða súkkulaði! Á föstudaginn langaði hann svo að fara með eitthvað gómsætt í leikskólanum og bjóða krökkunum í kaffitímanum. Fór sigri hrósandi með hrökkbrauðspakka og dreifði stoltur á milli þeirra. Ég er einhvern veginn ekki sannfærð um að það hafi vakið mikla lukku....


mánudagur, febrúar 13

Af uppköstum og þorramat

Það hlaut að koma að því að maður skyti sig í fótinn með þessu bévítans bloggi. Katla var leika sér í tölvunni um daginn og kallar allt í einu: "Mamma, ert þú að borða nammi þegar við sjáum ekki til?!!!" Krakkinn var að lesa bloggið!! Hefði aldrei átt að senda hana í skóla.
Heimasætan vaknaði í nótt og þurfti skyndilega að kasta upp, hélt sjálf að hún hefði borðað of mikið í gærkvöldi, en þegar þetta endurtók sig var ljóst að hún var komin með gubbupest. Við erum því búin að vera heima í dag (Sölvi líka, algjörlega að ástæðulausu og það þurfti miklu meira að sinna honum en sjúklingnum; gefa honum að borða sí og æ, horfa á hann gera æfingar og svo vildi hann að við lékum okkur! Hann fer sko í leikskólann á morgun!)
Um helgina var Þorrablót hjá íslendingafélaginu í Stokkhólmi og við Gulla skelltum okkur þangað ásamt nánast öllum íslenska vinahópnum í höfuðborginni, þrátt fyrir að borða ekki þorramat, finnast Ómar Ragnarsson leiðinlegur og kannast ekki við hljómsveitina Kusk frá Hornafirði. Þetta var samt afskaplega skemmtilegt, borðuðum okkur södd og tjúttuðum á dansgólfinu, en mikið óskaplega var Ómar leiðinlegur. Börnin gistu hjá vinum sínum og voru hæstánægð með það, en við Gulla fengum Bed and Breakfast hjá Gunnu og Didda.
Við fórum líka á laugardaginn í nýstofnaðan kirkjuskóla Íslendinga hér í Uppsala, kom í ljós að við Katla kunnum öll lögin eftir að hafa stundað Sunnudagaskólann í Neskirkju á árum áður, kyrjuðum því hæst allra: "B-Í-B-L-Í-A, Biblía!" Prestur Íslendinga í Svíþjóð mætti á svæðið alla leið frá Gautaborg og fræddi börnin um meðal annars Jesú og tilgang jólanna. Minn maður hlustaði af athygli og spurði svo: "Heyrðu, eru jólasveinarnir núna í helgarfríi?"
Hér er heljar orkuátak í gangi, börnin eru komin með Orkubækur Latabæjar í hendurnar og eru að sprengja alla skala hvað varðar stigagjöf (dagurinn í dag verður ekki talinn með enda hefur Katla ekki komið neinu ofan í sig). Þetta er nú meira púlið og ég stend fyllilega við það sem ég hef sagt á öðrum vettvangi: Vona bara Íþróttaálfsins vegna að hann hitti mig ekki í dimmu húsasundi, því ég á nokkur orð ótöluð við manninn!
Nú er farið að styttast í að börnin fari heim, en þau ætla að fljúga heim til Íslands á laugardaginn. Mikil spenna í gangi, ekki síst fyrir flugferðinni, þeirri fyrstu án foreldranna. Sölvi er búinn að lofa að gera allt sem Katla segir honum (eða "Litla mamma" eins og hann segir stundum). Samkomulagið á milli þeirra hefur lagast mjög mikið, eins og glöggir menn hafa eflaust tekið eftir hef ég ekkert tjáð mig um uppeldismálin lengi, enda ekki þörf á að grípa mjög oft inní samskiptin á milli þeirra (ólíkt því sem var). Ég varð samt hálf vonsvikin þegar ég sá vinnubók hjá Kötlu þar sem hún átti að teikna "Det som gör mig arg." Þar hafði Litla mamma teiknað gullfallegan ljóshærðan dreng sem augljóslega var bróðir hennar. En samt, allt á uppleið!


fimmtudagur, febrúar 2

Íþróttaálfar í keilu, frænkur í helgarferð og syngjandi mæður







Hér er það enn hinn heilbrigði lífsstíll sem heldur heimilinu og heimilisfólkinu í heljargreipum. Ég laumast til að fá mér nammi þegar ég held að börnin sjái ekki til og hlýt miklar skammir ef upp um mig kemst. "Mamma, mega fullorðnir drekka kók?!!"
Ég var að stríða Sölva í gær og sagðist ætla að troða uppí hann nammi og hella uppí hann kóki. Drengurinn fór bara að hágráta og var óhuggandi við þessa skelfilegu tilhugsun! Hann er allur í æfingunum ennþá og er alveg lygilega sterkur, að minnsta kosti á minn mælikvarða. Ég get ekki einu sinni lagt hann í sjómann þótt ég taki á öllu sem ég eigi, hugga mig við að viðureignin hafi þó endað í jafntefli enda væri ég ekki að segja frá þessu á alheimsnetinu ef 5 ára sonur minn hefði unnið mig í sjómann!
Í dag var "Frábær Fimmtudagur" eins og við köllum þá, ég í fríi eftir hádegi og við skelltum okkur í keilu. Þegar ég kom að sækja Sölva var hann að segja fóstrunni hvað við værum að fara að gera: "Sko, það er svona rennibraut og svo er maður með stóran bolta og hendir honum til að láta allar flöskurnar detta!" Hún skildi auðvitað hvað hann var að meina enda mjög myndræn lýsing þótt hann hafi ekki vitað hvað keila væri á sænsku.
Síðasti fimmtudagur var enn betri en þá kom loksins heimsins besta móðursystir í heimsókn til okkar. Höfðum það afskaplega gott þessa daga sem hún var hér, fórum meðal annars tvisvar á skauta þar sem við systurnar sýndum listir okkar við mikinn fögnuð (okkar sjálfra).
Ég er byrjuð í kór, búin að fara á tvær æfingar og finnst svakalega gaman, hingað til erum við búin að syngja Abba-syrpu og skerjagarðsvals eftir Taube, miklir vinir mínir þeir Björn, Benny og Evert.
Mamma mia, here I go again...


Free Hit Counters
Free Counter