Katla og Sölvi

mánudagur, maí 29

Mánudagur til mæðu.... en samt mjög góður því Katla er komin aftur!

Jæja þá eru kosningar víst yfirstaðnar á Íslandi, get ekki sagt að ég hafi séð neitt um þær í sænskum fjölmiðlum, en það er kannski ekki alveg að marka þar sem ég hef aðallega legið í rúminu og horft á Friends alla helgina, afspyrnu lítið um afrek síðustu daga. Fór reyndar á föstudagskvöldið út að borða og í bíó med Gullu, sáum Da Vinci Code, allt í lagi svosem en get ekkert sérstaklega mælt með henni nema gegn svefnörðugleikum, að minnsta kosti svaf ég drjúgan part úr myndinni. Hverjum datt í hug að Tom Hanks væri sjarmerandi?
Vígðum pallinn um daginn, standandi med drykk í hönd, síðan þá hefur ekkert gerst, engar grillveislur eða gítarspil fram á nótt, skömm að þessu. Hann er samt alveg frábær, bætist heilt herbergi við húsið og er þar að auki 40 cm stærri en pallurinn hjá Jóhönnu og Gísla (HA HA!)
Á laugardaginn var okkur boðið í sumarbústaðinn til vinafólks mömmu og pabba, einnig kallað Langa Parið. Þar var grillað, róið, veitt (án teljandi árangurs), hoppað á trampolini, farið í gufubað og stokkið allsber út í ískalt vatnið. Við mamma tókum nú ekki þátt í svona vitleysu eins og þessu síðastnefnda en Sölvi hélt uppi nafni Hólavallaslektsins og stakk tánum í. Hann eignaðist þarna nýja vinkonu sem heitir Eira (systir hennar heitir Auga.... nej jag bara skojar) og þau smullu þvílíkt saman.
Katla er búin að vera á Íslandi síðan á fimmtudag, skellti sér í helgarferð til pabba síns og skemmti sér víst konunglega. Hún flaug hingað heim í dag og var sótt af ömmunni út á völl, gekk víst eins og í sögu. Hún er búin að panta 3ja rétta kvöldverð á eftir sem mun samanstanda af blönduðum ávöxtum a la Latibær í forrétt, spaghetti Bolonese í aðalrétt og eplaeftirréttur ömmu Kriss í eftirrétt. Best að drífa sig heim í herlegheitin og knúsa Kötlukrúttið sitt....


þriðjudagur, maí 23

Djammhelgin mikla

Magnúsi Scheving hefur verið velt úr sessi sem aðal átrúnaðargoðinu, nú eru það bara hinir finsku þungarokkarar Lordi sem blíva, Sölvi er búinn að klippa út allar myndir sem hann hefur fundið í blöðunum undanfarna daga og veggfóðra ísskápinn okkar með þeim. Þeir eru svo KÙL!!!
Systir hans sat hins vegar með grátstafinn í kverkunum eftir undankeppnina og syrgði Sylvíu Nótt sárt. Þetta var hin besta skemmtun hjá okkur hinum svona þegar við vorum búin að jafna okkur eftir sjokkið, það var púað bæði fyrir og eftir! Ég held meira að segja að sumir Svíar hafi fattað að þetta var bara på skoj, en ég verð þó að viðurkenna að mér varð ekki um sel þegar ég sá forsíðu Aftonbladet á föstudaginn: Íslenski keppandinn ásakar Carolu um kynlífssvindl!
Vid horfðum á undankeppnina í góðu yfirlæti hjá Össa og Gullu, grilluðum og gáfum lögunum stig eftir kúnstarinnar reglum. Á föstudaginn var klinikfest í vinnunni, mjög skemmtileg veisla þar sem við Össi slógum í gegn með íslenskum söng og fólk skemmti sér konunglega langt fram á nótt. Svo á laugardaginn var okkur boðið í Evróvision/innflutningspartý til Örnu og Einars, æðislegt nýja húsið og yndislegt fólk sem skemmti sér mjög vel yfir keppninni, fengum síðan þann mikla heiður að gista í nýja gestaherberginu hjá Sunnu og Sigurði. Þetta var sem sagt djammhelgin mikla, langt síðan ég hef skemmt mér tvö kvöld í röð (held að þetta hafi líka verið í fyrsta skipti sem ég hef farið þunn í Ríkið).
Katla er á leið í helgarferð til Íslands á fimmtudaginn, hlakkar mikið til og ætlar í sund á hverjum degi. Við Sölvi finnum okkur eitthvað til dundurs á meðan ásamt ömmunni, þurfum til dæmis að vígja nýja pallinn sem hefur risið á ofurhraða á síðustu dögum. Já, þetta er heljarinnar bygging, vantar bara þakið, verður víst að bíða þar til byggingarleyfi fæst og það getur tekið marga mánuði skilst mér...


föstudagur, maí 12

Svei mér þá.....

.....held barasta að sumarið sé komið.
Við fórum sem sagt til Malmö um helgina og áttum mjög góða ferð þangað, vorum í heila fjóra daga. Góður matur, skemmtilegur félagsskapur, rauðvín, bjór, Tívolí í kóngsins Köbenhavn, sund og bongóblíða allan tímann. Fórum með lest alla leið, sem var afskaplega þægilegt, við gátum lesið, sofið, borðað og leikið okkur af hjartans lyst á leiðinni.
Það var mjög fyndið móment þegar við vorum á röltinu í miðborg Malmö, þar sat maður á bekk og spilaði á harmonikku og safnaði klinki. Sölvi spurði hvort hann mætti fá pening og ég lét hann hafa eitthvað smáræði. Þá labbaði hann beinustu leið yfir torgið og að gamalli fínni frú með perlufesti um hálsinn sem sat á bekk og naut sólarinnar. Hún varð auðvitað eins og eitt stórt spurningarmerki í framan þegar Sölvi rétti henni 2 krónur og 50 aura, en við hin hlógum okkur máttlaus úr fjarska. "Sölvi minn, af hverju varstu að gefa konunni peninginn?" "Ég hélt að hún ætlaði að fara að syngja!"
Var að enda við að skila af mér prófunum eftir að hafa legið yfir þessu langt fram á nótt og gefið einkunnir. Það var mér mikill léttir að ekkert af "börnunum mínum" skyldi falla. Ein var ansi tæp og reyndar gæti ég verið barnið hennar, hún er fædd 1954, greinilega aldrei of seint að fara í læknisfræði.
Amman kom í gær og verður með yfirstjórnina næsta mánuðinn, nú get ég farið út að djamma á hverju kvöldi, liggaliggalá! Það er ósköp gott að fá einhvern til að dreifa álaginu aðeins, verst að nú hef ég ekki lengur neina afsökun fyrir að nenna ekki að hreyfa mig, alltaf mjög góð þessi með tímaleysið...
"Ída, hvað vinnur þú?"
"Ég er sjúkraþjálfari."
"Já, ert þú svona kona sem passar sjúklingana þegar mamma mín er ekki í vinnunni?"


fimmtudagur, maí 4

Sól sól skín á mig

15 stig og sól í dag, spáð 20 um helgina....
Við erum á leið til Malmö um á morgun, brunum með lestinni beint eftir vinnu og ætlum að dvelja fram á þriðjudag í (gerum við ráð fyrir) góðu yfirlæti hjá Ídu og Tóta. Erum mjög spennt.
Þessi vika hefur verið með eindæmum róleg. Ég er að sjá um læknanemana um þessar mundir og er einmitt að fara að leggja fyrir þau próf í fyrramálið, vona að það þyki hvorki of erfitt né of létt og auðvitað vil ég alls ekki að neinn falli.
Í gær laumaðist ég meira að segja í bæinn á vinnutíma og keypti mér nokkrar spjarir, garanterað til að létta lundina. Reyndi að sigta út eitthvað straufrítt, Katla tilkynnti mér um daginn: "Mamma, þú straujar aldrei!" Fannst þetta greinilega til háborinnar skammar. Svo dreif ég mig aftur í vinnuna í viðtal hjá yfirlækninum sem endaði með smávegis launahækkun og loforði um fastráðningu! Til að halda uppá þetta ákvað ég að skrópa í kórnum og hjóla með stelpunum í píanótíma, síðan var planið að ég myndi skokka og Sölvi hjóla á meðan þær væru að spila. Þessi hlaupatúr endaði þó í blóðbaði þegar Sölvi hjólaði fram af brekku og á stein. Tilvonandi háls-, nef- og eyrnalæknirinn var fljótur að setja greiningu á vandamálið og sá að einungis var um nefblæðingu að ræða, klemmdi fyrir nasirnar á barninu með annarri og veifaði forvitnum lýðnum með hinni. Við röltum svo í rólegheitum tilbaka, blóðug frá toppi til táar, og ég sagði að þetta hefði nú verið alveg hræðilegt. "Nei, en veistu mamma, þetta var ekki eins slæmt og hjá Ron Weasley, hann gubbaði sniglum!" Já, það er gott að vita að einhver hafi það verra, jafnvel þótt það sé aðeins sögupersóna úr Harry Potter.
Já, nú er sem sagt planið að fara að hlaupa. Eitthvað verður maður að gera. Um daginn var kall með nefblæðingu hjá mér (þið sjáið að þetta er algengt vandamál enda er nefið mikilvægasta líffærið...), hann sagðist hafa komið fyrir nokkrum mánuðum líka en þá hefði ung stúlka tekið á móti honum. Jæja hugsaði ég en varð þó óneitanlega fyrir vonbrigðum þegar ég sá í sjúkraskránni að unga stúlkan var ég. Það hljóta að vera takmörk fyrir því hvað maður getur látið á sjá á nokkrum mánuðum....


Free Hit Counters
Free Counter