Katla og Sölvi

laugardagur, september 23

Hvað gera konur á miðjum aldri....

....þegar þær koma heim um miðja nótt úr disputationsveislu og eru ekki vitund þreyttar þrátt fyrir vitneskju um að þurfa að vakna þremur tímum síðar til að fara í flug? Fyrst klára þær að pakka því þeim finnst svo skemmtilegt að gera allt á síðustu stundu, sérstaklega um miðja nótt. Síðan fara þær að blogga.... svakalega lifir maður skemmtilegu lífi....
Mallorca eftir 5 klst, alls ekki slæmt. Þessi ferð kemur á akkúrat réttum tíma, brúnkan frá hitabylgjunni í sumar farin að fölna verulega og baugarnir aftur mættir til leiks.
Var sem sagt í veislu hjá Maríu Margrétar og Gunnars Björns mömmu í tilefni þess að hún var að verja doktorsritgerð sína, afskaplega skemmtilegt í alla staði og nú veit ég allt um tengsl astma og allra mögulegra og ómögulegra umhverfisþátta. Hefði gjarnan viljað vera lengur í veislunni, en eins og fróður maður sagði forðum, það er ekki hægt að gera allt.
Vamos a la playa, hasta la vista baby! (þar með er spænskukunnátta mín á þrotum, hlýt að komast langt á þessu)


mánudagur, september 18

Kvenlegur undirtónn og fiskpinnar

Þá er enn ein helgin liðin og bara 5 dagar í Mallorca! Hlökkum geðveikt til....
Frú Edda dvaldi hérna um helgina ásamt ófæddu barni sínu og skemmtum við vinkonurnar okkur við kvenlega iðju, svo sem að borða góðan mat, spjalla vel og rækilega, prjóna og svo auðvitað versla. Frúin er ákveðin í því að stoppa lengur næst, þetta var alltof stuttur tími í búðunum. Hörður Kvaran var svo örlátur að láta okkur í té alla vildarpunktana sína og gistum við því á lúxushóteli í miðborg Stokkhólms seinni nóttina. Afskaplega skemmtileg helgi og kvenlegi undirtóninn réð svo sannarlega ríkjum.
Sölvi er nokkuð sáttur í skólanum, virðist reyndar ekki þurfa mikið til: "Í dag var besti dagur lífs míns, það voru fiskpinnar í matinn í skólanum og ég fékk mér 26 sinnum á diskinn!" Mér skilst á kennaranum að hann sé sá í bekknum sem nýtir matartímana best, borðar mest og situr lengst. Hins vegar var ég að spyrja hann hvernig krökkunum gengi að læra stafina en þá varð hann mjög leiður á svip og sagði: "Ég er ömurlegastur...." Samkvæmt kennaranum er það þó alls ekki rétt hjá honum og hún vildi ekki að við færum í eitthvað átak hérna heima. Kemur allt með kalda vatninu....
Um daginn sagði ég (að mér fannst hressilega en kannski hefur þetta verið mæðulegt að hans mati) að nú ætlaði ég að drífa í að þrífa húsið, en þá sagði litli engillinn minn: "Nei mamma, þú skalt setjast út í sólina og bara hvíla þig og ég skal þrífa húsið". Fékk ekki að koma inn fyrr en löngu seinna, þá var hann búinn að ýta öllum húsgögnum frá veggjunum og þrífa vandlega með tusku á bakvið, gott að áherslurnar eru misjafnar á heimilinu, ég er meira svona í því að þrífa það sem sést, finnst það alveg nóg....
Nú eru þau bæði byrjuð í íslenskukennslu í skólanum hjá honum Gretti íslenskukennara sem öllum foreldrum finnst vera dáldið undarlegur en börnunum finnst hins vegar mjög skemmtilegur. Það gengur ennþá nokkuð vel að skilja þau eftir tvö saman hérna á morgnana, Katla fylgir "elsku litla bróður sínum" í skólann og skrifar á þar til gerðan lista hvenær hann verður sóttur, kemur svo að sækja hann þegar hún er búin og þau bíða svo heima þar til ég kem heim úr vinnunni. Afskaplega gott plan í alla staði!


sunnudagur, september 10

Sorgardagur

Já, það geta ekki allir dagar verið góðir dagar. Gærdagurinn var samt mjög góður, fórum í 7 ára afmæli til Hlyns Einarssonar og svo í náttfatapartý hjá Gunnu og Didda með spólu, prjónaskap, popp og kók. Komum svo heim í dag og þá lá fjórði fjölskyldumeðlimurinn undarlega kyrr á botni fuglabúrsins, hefur hingað til fengið massívt kvíðakast og flögrað um búrið í algjörri geðshræringu í hvert sinn sem einhver nálgast. Skýringin var því nokkuð augljós, hún var einfaldlega farin á vit feðra sinna og flýgur nú um áhyggjulaus á himnum. Eigandinn varð auðvitað viti sínu fjær af sorg og var óhuggandi lengi vel, en dreif sig svo hlaupandi um hverfið til að bera út fréttirnar. Við grófum hana í garðinum og Sölvi sagði: "Bless að eilífu Pála, við söknum þín." Honum leið samt aðeins betur þegar okkur datt í hug að hún væri líklega hjá langafa núna.
Ég er ennþá að reyna að jafna mig eftir hörmungarvakt sem ég var á fyrir nokkrum dögum, svaf nánast ekki neitt, og þá er ekki skemmtilegt að vera búin að vinna daginn fyrir og þurfa einnig að vinna daginn eftir. Þetta veldur tvímælalaust ótímabærri öldrun og almennri vanlíðan. Sölvi spurði í dag af hverju ég hefði ekki bara haldið áfram að vera flugfreyja, maður ætti kannski að athuga hvort búningurinn passar enn.
Vil svo að lokum minna á 3ja kommenta regluna, hef verið alltof eftirgefanleg með hana undanfarið....


miðvikudagur, september 6

Tímamótablogg

Undur og stórmerki, þetta er hvorki meira né minna en hundraðasta færslan á þessari afar skemmtilegu og ekki síður áhugaverðu síðu, get ekki annað en hreykt mér af þrautseigjunni í sjálfri mér, láta aldrei deigan síga, alveg sama hvort maður hefur frá einhverju að segja eða ekki....

Allt gott af okkur að frétta, um helgina var hin árlega krabbaveisla hjá þeim heiðurshjónum Sunnu og Sigurði hinum nýgiftu. Þau hjón hljóta eitthvað að vera að þróa aðferðirnar við krabbaveiðarnar því þeir smakkast betur og betur með hverju árinu sem líður. Þarna var fjöldi manns saman kominn og eins og í fyrra gefin út yfirlýsing um að allir sem legðu eitthvað að mörkum yrði boðið aftur að ári. Ég stóð sveitt og skrældi kartöflur allan eftirmiðdaginn og bjó til kartöflusalat handa öllu liðinu, tel mig því nokkuð örugga um boð á næsta ári.
Katla er hætt í píanóinu. Þetta var svoddan kvöl og pína fyrir stúlkugreyið að það var ákveðið að hún fengi að hætta, ætlar að vera í heimakennslu hjá móður sinni í staðinn, sjáum nú til hvernig það gengur.... Hún ætlar samt að halda áfram í kórnum og leikfiminni og er þar að auki byrjuð í dansi, hún fer bara að slaga uppí meðalfjölda áhugamála hjá börnum á Íslandi. Sölvi segist aldrei ætla að læra á hljóðfæri, varð auðvitað vitni að gráti og gnístran tanna hjá systur sinni í hvert sinn sem minnst var á píanóið. Hann ætlar hins vegar að halda áfram í leikfiminni og móðir hans sá auglýsingu um fótbolta fyrir hans aldur, mun reyna að plata hann þangað. Og sjálf er ég byrjuð aftur í kórnum, en þar með eru mín afrek upp talin.
Maggi litlibró á afmæli í dag og fær afmælisknús yfir hafið frá okkur þremur. Stórmerkilegt hvað það er hægt að vera unglegur og glæsilegur og halda sér vel og eiga samt 29 ára gamlan litlabróður....
Jæja, er á vakt, best að fara að vinna fyrir þessum himinháu launum sem ég er með....


Free Hit Counters
Free Counter