Katla og Sölvi

mánudagur, apríl 30

Apríl brátt á enda


Já, það er óhætt að halda því fram að fólk breytist með árunum, eða ég vona það að minnsta kosti. Þarna erum við systurnar á góðum degi, líklega á fermingardegi Magga bróður árið 1991.
Vil benda fólki á teljarann sem er kominn í vinstra hornið, bið ykkur að athuga að geðheilsa mín verður í húfi ef í ljós kemur að það eru bara ég sjálf og Sessa frænka sem skoðum þessa síðu... Er ekki alveg sannfærð um skynsemi þessarar ákvörðunar að setja inn teljara, en það þýðir ekki annað en að horfast í augu við raunveruleikann!
Það er aftur kominn gangur í hlaupin (hmm... ákveðin mótsögn í þessari setningu), hnéð komið í lag og við erum búnar að ná fyrsta takmarkinu, meira að segja mánuði á undan áætlun! Fyrsta hlaupið sem stendur til að taka þátt í er nefninlega 31. maí og er 5 km langt, takmarkið var að hlaupa það á 30 mínútum. Fórum 5 km á 30 mín og 6 sek um daginn og ég held að ég sé ekki að segja of mikið þótt ég haldi því fram að við munum ná að bæta okkur um 6 sekúndur á mánuði.
Börnin skottast hins vegar um allt á línuskautunum ásamt öðrum krökkum í hverfinu og eru orðin ansi klár, hvort á sinn hátt. Katla skautar áfram varfærnislega og af tígulleik en bróðir hennar djöflast áfram hálf hlaupandi á skautunum, móður og másandi. Við systurnar fórum til Stokkhólms á laugardagskvöldið og börnin gistu hjá Gullu sem sagðist hafa vaknað klukkan 7 morgunin eftir við að það stóð einhver við rúmið og starði á hana, þar var mættur Sölvi spræki, búinn að klæða sig og beið bara eftir að einhver vaknaði!

Sölvi: "Mamma, ég vil fara í Næstu Verslun!"
Mamma: "Ha?!!"
Sölvi: "Já, þú veist þar sem allt dótið fæst."
Mamma: "Um hvaða búð ertu að tala, Sölvi minn?"
Sölvi: "Í auglýsingunum segja þeir alltaf - Fæst í næstu verslun!"


föstudagur, apríl 20

Sumar og sól

Gleðilegt sumar allihopa!
Reyndar varð mér um og ó í morgun þegar ég dró frá svefnherbergisglugganum og sá mér til mikillar undrunar snjókorn falla mjúklega til jarðar... Og í gær voru veðurguðirnir líka í stríðnisskapi á sjálfan sumardaginn fyrsta; úrhellisrigning, þrumur og eldingar og á tímabili meira að segja haglél! Allir nema Katla drifu sig í bíó enda ekki hægt að vera úti í þessu ofsaveðri, við Sölvi fórum á Mr Bean (sem er stórkostlega fyndinn þegar maður er 6 ára...) og KBS á rómantíska gamanmynd. Þegar ég var að leggja bílnum og undirbúa mig andlega fyrir að stökkva út í hellidembuna tók ég ekki eftir því að aftan að bílnum kom hjólandi stelpa á fullri ferð. Í þann mun sem ég svipti upp hurðinni hjólaði hún beint á hana, flaug af hjólinu og kútveltist á rennandi blautu malbikinu. Ég fékk auðvitað hland fyrir hjartað og skundaði til hennar á meðan ég í skyndi reyndi að rifja upp helstu atriði skyndihjálpar (A-airway, B-breathing, C-circulation, D-hmm...voru það ekki einhver lyf?)) en hún stóð á fætur eins og ekkert hefði í skorist, baðst innilega afsökunar og hjólaði svo gegndrepa áfram. Hjúkk...
Katla fór hins vegar í bekkjarpartý á meðan og skemmti sér konunglega, sagðist hafa dansað við að minnsta kosti 6 stráka og boðið þeim öllum upp sjálf. "Haha, systir mín er komin með kærasta!" hrópaði karlmaðurinn á heimilinu en sjálf vildi diskódísin ekki viðurkenna neitt.
Börnin fengu línuskauta í sumargjöf og voru óskaplega ánægð, þeystust á þeim fram og tilbaka um götuna, ég tók ákvörðun á þeirri stundu um að grafa upp mína línuskauta og fara á þá í fyrsta skipti í 5 ár, sjáum til hvernig það gengur.
Hlaupaátakið hefur orðið fyrir smávægilegu áfalli. Frú Guðlaug hlaupadrottning með meiru er að drepast í hnénu og hefur þetta leitt til þess að ég hef ekki heldur farið út að hlaupa í vikunni. Hins vegar höfum við fram að þessu tekið gífurlegum framförum og vart átt orð til að lýsa ánægju okkar með þetta allt saman. Erum komnar í sms-hlaupahóp með Gunnu og Guðrúnu í Stokkhólmi sem gengur út á það að senda sms með árangri eftir hvert skipti sem hlaupið er. Hef þær samt grunaðar um svindl, þær hlaupa alltaf svo langt og eru aldrei þreyttar samkvæmt skeytasendingunum, hins vegar erum við Gulla ekkert nema heiðarleikinn uppmálaður og greinum skilmerkilega frá hverju spori...
Kristín Björg stendur sig eins og hetja við barnapössun og þrif, Sölvi sagðist ætla að kenna henni sænsku en komst svo að því að hún kunni jafn mikið og hann ("Kristín Björg, þetta er bil. Bil. Og þetta er mjölk. Mjölk.") Í gær var ég svo að lesa einhverja uppskrift og spurði hana hvort hún vissi hvað þistilhjörtu væru á sænsku og þegar því var svarað neitandi heyrðist innan úr stofu: "Sko! Ég vissi að þú kynnir ekki allt á sænsku!"


miðvikudagur, apríl 11

Leiðarvísir um súkkulaðióbeit Sigríðar

Því var haldið fram við mig um helgina að það merkilegasta við mig sé að ég borði ekki súkkulaði. Á legsteininum mínum mun að öllum líkindum standa:
Hér hvílir Sigríður Sveinsdóttir
Henni fannst súkkulaði vont
Mun eyða afgangi ævi minnar í að reyna að afreka eitthvað annað og merkilegra svo að mér verði ekki bara minnst fyrir þessa skynsemisákvörðun mína í æsku að vilja ekki súkkulaði. Hef reyndar aldrei þjáðst vegna þessa "karaktergalla" en viðurkenni þó að það geti verið hvimleitt að reyna að koma fólki í skilning um hvað ég borða því einhverra hluta vegna hefur fólki í kringum mig gengið erfiðlega að skilja þetta. Sé í hendi mér kjörinn vettvang til þess hér á alheimsnetinu og hérna kemur listinn í eitt skipti fyrir öll:
1) ég borða ekki hreint súkkulaði
2) get borðað nammi með súkkulaði ef hlutfall súkkulaðis er ekki of hátt
3) finnst súkkulaðikaka mjög góð
4) kakó er allt í lagi, myndi þó aldrei panta mér það á veitingastað nema ég væri aðframkomin af kulda (drekk nefninlega ekki kaffi en það er önnur saga...)
5) uppáhaldsnammið mitt er kúlusúkk og Prins Póló í gömlu umbúðunum, til útskýringar vísa ég í lið 2)
Og þar hafið þið það og getið hætt að bjóða mér einhvern óþverra!
Börnin voru á Íslandi um páskana og eru reyndar enn. Þessi mynd er tekin á páskadag þegar öll barnabörnin voru samankomin hjá ömmu og afa á Hólavöllum, greinilega fagnaðarfundur!
Í dag kemur afinn hins vegar hingað og ekki nóg með það heldur er ofurfrænkan Kristín B. Sveinsdóttir um það bil að lenda og ætlar að heiðra okkur með nærveru sinni í hvorki meira né minna en 1 mánuð og 11 daga! Mikið óskaplega lofar sá tími góðu.



miðvikudagur, apríl 4

Við kvöldverðarborðið

Sölvi: Mamma, í dag vorum við strákarnir að borða maura!
Mamma: Sölvi!! Þú mátt það alls ekki!!!
Sölvi: Ókei mamma, þú mátt velja hvort ég hætti að borða maura eða hor...
Mamma: Hmmm.... þá vil ég að þú hættir að borða hor!
Mamma: En ætlarðu samt ekki að hætta að borða maura líka?
Sölvi: Jú, þeir eru svo súrir!


Free Hit Counters
Free Counter