Katla og Sölvi

fimmtudagur, maí 31

Þetta tókst!

Geri mér algjörlega grein fyrir að allmörgum og jafnvel flestum mun ekki þykja þetta merkilegur árangur eða neitt til að hreykja sér af, en ég vil biðja ykkur um að taka tillit til þess að ég hef aldrei getað hlaupið nokkurn skapaðan hlut og að hlaupa 5 km á undir 30 mín er stórkostlegur árangur fyrir mig persónulega. Á von á því að fá blómvendi og heillaskeyti úr öllum heimshornum vegna árangursins....

Og ekki má gleyma klappstýrunum, greinilega mjög sáttar við eigin frammistöðu og ekki síður glæsilegan árangur mæðranna.





Hér má sjá þreyttar en sáttar hlaupadrottningar í lok hlaups, með stórglæsilega verðlaunapeninga um hálsinn sem gerðu þetta allt algjörlega þess virði!


miðvikudagur, maí 30

Að hlaupa á sig

Kristín Björg stórfrænka með meiru fór fyrir viku síðan, skil ekki alveg hvað hún stoppaði stutt, ætlaði að vera í 6 vikur en svo var hún bara í nokkra daga, eða hvað....? Það var allavegana óheyrilega fljótt að líða. Síðustu helgina hennar kom mamma líka og við skelltum okkur öll í Kolmården, sem er heljarinnar dýragarður með öllu tilheyrandi; höfrungasýningu, safarígarði og tropikarium húsi. Vorum 2 daga og skemmtum okkur auðvitað konunglega!





Hjálpi mér allir heilagir, hlaupið góða er á morgun! Nú eru góð ráð dýr. Get því miður ekki bakkað út úr þessu því aðal keppinautar okkar Gullu, þær Gunna og Guðrún, eru að koma frá höfuðborginni til að taka þátt í þessu með okkur, verð að sýna hvað í mér býr. Verst að við erum báðar að drepast í öðru hnénu, erum eins og farlama gamalmenni. Ég fór á ráðstefnu í Malmö í síðustu viku sem var svo sem ekki í frásögu færandi, nema hvað að ég ákvað að drífa mig út að hlaupa (tek það fram, að á meðan lágu flestir flatir og annað hvort sváfu úr sér eftir kvöldið áður eða hvíldu sig fyrir komandi kvöld), var agalega ánægð með mig þar sem ég sveif léttilega eftir götum Málmeyjar, leið eins og ég væri komin til útlanda. Sælan tók þó fljótt enda þegar ég flaug allt í einu yfir gangstéttina þvera og endilanga og lenti fremur harkalega hinum megin, þessir útlendingar þarna fyrir sunnan kunna augljóslega ekki að leggja gangstéttarhellur! Dröslaðist þó á lappir, þurrkaði blóðið af ipodinum og skakklappaðist áfram. Útvegaði mér viðeigandi umbúðir og skellti mér svo í galadinner með blóðugt hné og olnboga, og þumal sem var algjörlega gagnslaus, þurfti að halda á gafflinum á milli vísifingurs og löngutangar. Þetta hefur þó allt saman sigið í rétta átt síðan, nema hnéð sem mig grunar að ætli að gera mér lífið leitt á morgun, hef ekkert getað hlaupið síðan þetta var og óttast að árangurinn sé farinn veg allrar veraldar, en til hvers var undralyfið Voltaren fundið upp nema fyrir svona krísur! Fer nú ekki að klikka á þessu eftir allt saman og er komin með sérstakan keppnislista í ipodinn með lögum sem gulltryggja hámarksárangur. Skal fúslega viðurkenna að það er mjög mikill eigthies-keimur af honum og fer ekki mikið fyrir indie, en það er nú bara þannig að sum lög er betra að hlaupa við en önnur.

Byrjum með góðu upbeati til að komast í gegnum þvöguna í byrjun:
1. 9 to 5 - Dolly Parton

Nú er bara gleði enda mjög líklega komin í fremstu röð:
2. For once in my life - Stevie Wonder

Aðeins farin að þreytast, þungur taktur og undursamleg rödd Stebba Hilmars er allt sem þarf:
3. Sódóma - Sálin hans Jóns míns
4. Take on me - Aha
5. Eye of the tiger - Survivor
6. Walking on sunshine - Katarina and the waves
7. It´s raining men - The weather girls
8. The final countdown - Europe
Og svo að lokum elskurnar sem ætla að sjá til þess að ég komist í mark á mettíma:
9. Sísí fríkar út - Grýlurnar
10. Holding out for a hero - Bonnie Tyler

Þetta getur ekki klikkað!
Rapport á morgun... kannski....


mánudagur, maí 14

Smáauglýsing

Góðhjörtuð og gullfalleg þriggja manna fjölskylda búsett í Svíaríki óskar eftir að kynnast einstaklingi sem býr yfir kunnáttu til að brjótast inn í ipod eftir að heimasætan ákvað að setja kóða á tækið góða og gleyma síðan númeraröðinni. Börn engin fyrirstaða.


Samtal móður og sonar
M: "Nú VERÐUR þú að fara að sofa, þú ert að fara í leikhús á morgun og þú munt sofna í leikhúsinu ef þú ferð ekki að sofa strax!"
S: "Og hvað með það? Ég hef aldrei prófað að sofna í leikhúsi, kannski á ég eftir að sofa mjög vel og dreyma frábæran draum!"
M: "Ohh, þú ert svo vitlaus..."
S: "Er ég vitlaus, ha? Veist þú hvað þrír plús þrír er? Það veit ég, það er sex!"
Maður á auðvitað engin svör við svona rökum....


föstudagur, maí 11

Helgarplön

Það fer nú að verða fullþreytandi þetta samsæri gegn íslendingum ár eftir ár, aumingja Eiki! Við látum samt ekki deigan síga og höldum bara með frændum okkar og persónulegum gestgjöfum þessi árin, svíar keppa með hinni margrómuðu glamrokkhljómsveit The Ark og munum við fylgjast spennt með. Búið að bjóða okkur í Eurovision/kosninga partý á morgun, mæting klukkan fjögur hvorki meira né minna og húsráðendur eru aðeins með eitt lítið sjónvarp sem er í litlu skoti niðrí kjallara og er ekki hægt að færa, mun að öllum líkindum fara lítið fyrir söngvakeppnisglápi, neyðumst því víst til að umgangast í staðinn...

Við Gulla ætlum eitthvað út í kvöld.
Plan A er að fara á einhvern hipp og kúl skemmtistað að skoða sænsku strákana. Gulla gæti lokkað þá til okkar með sínu suðræna útliti, ómótstæðilegu brosi og dökkum seiðandi augum, síðan þegar þeir eru komnir allt í kringum okkur þá heilla ég þá upp úr skónum með hnyttnum tilsvörum og áhugaverðum frásögnum af ævintýralegu lífi mínu sem skurðlæknir. Yeah right....
Plan B er að fara í bíó...


fimmtudagur, maí 3

Vér mótmælum!

Búin að skila framtalinu fyrir árið 2006. Þar sem ég stóð í einhverri drive-in röð til að geta skilað (að sjálfsögðu á síðustu stundu, annars væri ekkert gaman að þessu) fékk ég allt í einu mjög sterklega á tilfinninguna að það væri verið að hafa mig að fífli. Það þarf enginn að segja mér að "Stóri Bróðir" viti ekki nákvæmlega hvað ég hef haft fyrir stafni síðasta árið, hvort ég er búin að vera í stórkostlegum fasteignaviðskiptum eða byggt við húsið mitt. Starfsfólk skattstjóra skemmtir sér örugglega konunglega og skálar í kampavíni fyrir þessum vitleysingum sem sitja sveittir við að fylla inn í einhverja dálka eftir kúnstarinnar reglum. Ég læt ekki hafa mig að athlægi lengur, ég er hætt að taka þátt í þessu rugli! Eða kannski held ég bara áfram að sýna andstöðu mína með því að skila á miðnætti síðasta skiladaginn, það er gott á þetta pakk!
Ekki komið neitt plan fyrir helgina. Við kvenmennirnir verðum að finna okkur eitthvað stelpulegt að gera því eini karlmaður heimilisins er á leið í helgarferð til Íslands. Og til að kóróna þetta allt saman er stuðningsfjölskyldan á leið til London, hvað eigum við eiginlega af okkur að gera? Var ég ekki annars búin að segja frá stuðningsfjölskyldunni? Það var þannig að Guðrún Sara var að segja mömmu sinni frá einhverri stelpu í bekknum þeirra sem færi stundum til stuðningsfjölskyldu og spurði í kjölfarið hvað það væri eiginlega. "Jú", svaraði Gulla, "sko það er þannig að mamma hennar Emmu er ein með börnin og svo vinnur hún svo mikið og til að það verði auðveldara fer Emma stundum til annarrar fjölskyldu." "Jááá, ég skil.... erum við þá svona stuðningsfjölskylda fyrir Kötlu og Sölva?" Er aðeins farin að geta brosað út í annað út af þessu, en fannst þetta sko alls ekki fyndið fyrst!


Free Hit Counters
Free Counter