Kristín Björg stórfrænka með meiru fór fyrir viku síðan, skil ekki alveg hvað hún stoppaði stutt, ætlaði að vera í 6 vikur en svo var hún bara í nokkra daga, eða hvað....? Það var allavegana óheyrilega fljótt að líða. Síðustu helgina hennar kom mamma líka og við skelltum okkur öll í Kolmården, sem er heljarinnar dýragarður með öllu tilheyrandi; höfrungasýningu, safarígarði og tropikarium húsi. Vorum 2 daga og skemmtum okkur auðvitað konunglega!


Hjálpi mér allir heilagir, hlaupið góða er á morgun! Nú eru góð ráð dýr. Get því miður ekki bakkað út úr þessu því aðal keppinautar okkar Gullu, þær Gunna og Guðrún, eru að koma frá höfuðborginni til að taka þátt í þessu með okkur, verð að sýna hvað í mér býr. Verst að við erum báðar að drepast í öðru hnénu, erum eins og farlama gamalmenni. Ég fór á ráðstefnu í Malmö í síðustu viku sem var svo sem ekki í frásögu færandi, nema hvað að ég ákvað að drífa mig út að hlaupa (tek það fram, að á meðan lágu flestir flatir og annað hvort sváfu úr sér eftir kvöldið áður eða hvíldu sig fyrir komandi kvöld), var agalega ánægð með mig þar sem ég sveif léttilega eftir götum Málmeyjar, leið eins og ég væri komin til útlanda. Sælan tók þó fljótt enda þegar ég flaug allt í einu yfir gangstéttina þvera og endilanga og lenti fremur harkalega hinum megin, þessir útlendingar þarna fyrir sunnan kunna augljóslega ekki að leggja gangstéttarhellur! Dröslaðist þó á lappir, þurrkaði blóðið af ipodinum og skakklappaðist áfram. Útvegaði mér viðeigandi umbúðir og skellti mér svo í galadinner með blóðugt hné og olnboga, og þumal sem var algjörlega gagnslaus, þurfti að halda á gafflinum á milli vísifingurs og löngutangar. Þetta hefur þó allt saman sigið í rétta átt síðan, nema hnéð sem mig grunar að ætli að gera mér lífið leitt á morgun, hef ekkert getað hlaupið síðan þetta var og óttast að árangurinn sé farinn veg allrar veraldar, en til hvers var undralyfið Voltaren fundið upp nema fyrir svona krísur! Fer nú ekki að klikka á þessu eftir allt saman og er komin með sérstakan keppnislista í ipodinn með lögum sem gulltryggja hámarksárangur. Skal fúslega viðurkenna að það er mjög mikill eigthies-keimur af honum og fer ekki mikið fyrir indie, en það er nú bara þannig að sum lög er betra að hlaupa við en önnur.
Byrjum með góðu upbeati til að komast í gegnum þvöguna í byrjun:
1. 9 to 5 - Dolly Parton
Nú er bara gleði enda mjög líklega komin í fremstu röð:
2. For once in my life - Stevie Wonder
Aðeins farin að þreytast, þungur taktur og undursamleg rödd Stebba Hilmars er allt sem þarf:
3. Sódóma - Sálin hans Jóns míns
4. Take on me - Aha
5. Eye of the tiger - Survivor
6. Walking on sunshine - Katarina and the waves
7. It´s raining men - The weather girls
8. The final countdown - Europe
Og svo að lokum elskurnar sem ætla að sjá til þess að ég komist í mark á mettíma:
9. Sísí fríkar út - Grýlurnar
10. Holding out for a hero - Bonnie Tyler
Þetta getur ekki klikkað!
Rapport á morgun... kannski....