Katla og Sölvi

föstudagur, ágúst 31

Um skóflur og fleira

Nú gæti einhver bölsýnismaður ályktað sem svo að þar sem 5 dagar eru liðnir frá hlaupakeppninni og ekkert verið bloggað að það hafi ekki gengið vel, en ég get með gleði í hjarta og sinni staðfest að svo er alls ekki. Gekk betur en áhorfðist, hafði sem takmark að hlaupa á undir klukkutíma, þá hafði ég reyndar ekki gert mér grein fyrir að það yrði troðið af röltandi kellingum sem tefðu för mína til muna. Fyrsta einn og hálfan kílómeterinn hefði ég eins getað labbað, komst ekkert áfram, en eftir það var gefið í og kláraði ég á 59 mín og 10 sek. Var mjög sátt...

Annað fréttnæmt er að ég er hvorki meira né minna en orðinn eigandi fasteigna í tveimur löndum. Fjárfesti í íbúð í Reykjavík í síðustu viku með stuttum fyrirvara og það er mjög gott að vita að minnsta kosti hvar við munum búa þótt margt annað sé enn óljóst.
"Sölvi, veistu hvað?!! Við vorum að kaupa íbúð!!"
"Í alvöru?? Vá, vorum við að kaupa ísbúð?!!!"
"Nei.... Íbúð!"
"Nú..."


Allt er að komast í fastar skorður, börnin byrjuðu í skólanum og ég að vinna í síðustu viku. Katla og Guðrún Sara voru að byrja að æfa badminton og sögðu sigri hrósandi frá því eftir fyrstu æfinguna að þær hefðu sko ekki verið lélegastar! Þær voru ekki með badmintonspaða og spurðu því kennarann: "Kan man få låna spade?" Þjálfarinn horfði furðu lostinn á þær og skildi ekki hvað þær ætluðu að gera við skóflu á æfingunni...


sunnudagur, ágúst 19

Hundalíf



Vorum á einhvern óskiljanlegan hátt orðin hundaeigendur í vikunni, reyndar bara tímabundið. Litla loðna veran á myndinni er hún Vaka vinkona okkar sem stendur á höndum þegar hún pissar og eyddi 3 geltandi dögum hjá okkur í vikunni.

Hlaupin ganga misvel, nú er ekki nema vika til stefnu og kvíðinn eykst óðum. Reyndar held ég að það hljóti að vera hægt að fara þetta á þrjóskunni, eða það er að minnsta kosti mitt plan. Takmarkið er að hlaupa alla 10 kílómetrana, en í versta falli labba ég bara, það nær þá bara ekki lengra. Gekk hræðilega síðast þegar ég fór út að hlaupa, alltof heitt og sveitt. Mental note: vera eins fáklædd í hlaupinu og blyðgunarkennd leyfir...

"Mamma mannstu þegar ég prumpaði framan í þig?"
"Jahá, ég gleymi því sko aldrei!"
"Jú þegar þú verður komin á gleymideildina á elliheimilinu, þá muntu gleyma því!"


mánudagur, ágúst 13

Legoland in action



Varð bara að láta þessa fylgja með, tekin í svakalegasta tækinu í Legoland. Bendi á mismikil viðbrögð farþeganna í vagninum, við Sölvi erum dauðhrædd en skemmtum okkur þó, Kötlu finnst bara gaman, en amman er á svipinn eins og hún sé á leið á aðalfund félags bókasafnsfræðinga. Gaf samt þá skýringu eftirá að hún hefði einfaldlega lamast af skelfingu og verið ófær um svipbrigði!


fimmtudagur, ágúst 9

Hitt og þetta

Það er afar ljúft að vera í sumarfríi, ekki hægt að segja annað. Svaf til 11 í morgun, man ekki hvenær ég svaf svona lengi síðast. Var reyndar á tangókvöldi fram á nótt í gær (já þið heyrðuð rétt, tangókvöldi!) með Gunnu ásamt systur hennar og mági sem eru forfallnir tangódansarar. Við vorum einungis komnar til að horfa á og dást að hinum þrælflinku dönsurum, alls ekki til að dansa sjálfar enda held ég að ég tali fyrir hönd okkar vinkvennanna beggja þegar ég segi að hæfileikar okkar liggi annars staðar en í að dansa tangó. Þónokkuð mikið af myndarmönnum á svæðinu en ég þorði ekki svo mikið sem að líta í áttina til þeirra af einskærrum ótta við að vera boðið upp. Gunna slapp ekki svo vel, þrátt fyrir að hafa forðast allan augnkontakt eins og heitan eldinn og þar að auki verið komin úr skónum kom aðvífandi maður í bakarabuxum (gengur framvegis undir nafninu Bakaradrengurinn) og dró hana með harmkvælum út á dansgólfið. Ég keyrði svo heim í nótt í 22 stiga hita og svarta þoku, sá varla fram fyrir bílinn og var næstum búin að missa af Uppsala því ég sá ekki skiltin og engin ljós frá sjálfri borginni. Frekar óhugnarlegt.

Sölva gengur vel með lesturinn, las reyndar sjampó í staðinn fyrir lím áðan, greinilega stundum verið að reyna að giska þótt ég kjósi að kalla það sjálfsbjargarviðleitni. Talandi um lestur þá er Katla ekki viðræðuhæf þessa dagana, liggur bara og les Harry Potter frá morgni til kvölds. Ómögulegt að ná sambandi við hana nema að maður fyrir algjöra tilviljun hitti á kaflaskipti eða greinarskil. Í dag kláraði hún bók númer 5 sem er algjört afrek að mínu mati, að minnsta kosti gafst bókaormurinn móðir hennar upp á þeirri bók sökum lengdar, minnir reyndar að ég hafi klárað hana fyrir rest en gæti ekki þótt líf mitt lægi við sagt um hvað hún var.

Við erum komin frá Legoland sem var mjög skemmtilegur garður í alla staði, greinilega verið lögð áhersla á skemmtanagildi garðsins síðan ég var þarna síðast árið 1978, hellingur af rússibönum og öðrum gleðitækjum. Börnin skemmtu sér auðvitað konunglega og mamman og amman ekki síður.



Katla með HC Anderssen sem tók á móti okkur við innganginn.



Það má ekki gleyma því að hvíla sig. Voguðum okkur meira að segja inn í ljónabúrið...



Og svo ein að lokum af okkur Lindu einhvers staðar á Laugaveginum, get því miður ekki staðsett okkur nánar en það. Mér skilst að við séum næst að fara á Hvannadalshnjúk, set reyndar smá fyrirvara á það hvað mig varðar, veit ekki alveg hvort það sé "my thing" að traðka snjó uppámóti í 10 klukkutíma...


sunnudagur, ágúst 5

Sumar og sól

Gott að vera komin heim aftur. Bragi kom með okkur út og mamma kom svo daginn eftir og við erum búin að hafa það afskaplega gott. Sölvi kaffærir frænda sínum og ömmu í spurningum: "Bragi, hvað er straumur mjór? Amma, hvað er stærsta engispretta sem þú hefur séð? Bragi, hvað er það sem er lífshættulegt og fer upp og niður? Gefstu upp? Það er tómatur í lyftu sem er með byssu sem sprautar tómatsósu!"
Hann er orðinn 7 ára drengurinn og ég er ekki frá því að hann hafi stækkað við það. Afinn kemur í lok mánaðarins og þá verður aðalverkefnið að kenna barninu að lesa. Reyndar stoppar hann ekki nema í 6 daga og þetta er ærið verkefni þannig að við erum aðeins byrjuð. Hann var mjög stoltur af sjálfum sér í gær eftir blaðsíðu dagsins, greip fullorðinsbók og byrjaði að leita að kunnuglegum orðum. Fann strax "og" og "á" en var alveg steinhissa og bit að það væri hvergi "ól" eða "mús". Greinilega ekki mikið varið í þessa bók. Sofnaði samt með hana í fanginu sæll á svip og fannst hann hafa lesið alvöru bók.
Ég er búin að jafna mig eftir gönguna og byrjuð að hlaupa aftur. Keypti mér í fríhöfninni ógisslega flott hlaupaúr (gat ekki verið minni kona en Þóra mágkona...) sem segir mér allt sem hugurinn girnist; hraða, vegalengd, tíma, púls og síðast en ekki síst brenndar kaloríur! Nú eru ekki nema 3 vikur í næstu hlaupakeppni sem er 10 km og fer fram 26. ágúst. Vona að úrið fína hjálpi mér í gegnum þetta. Hef hingað til hlaupið lengst 7,7 km....
Á morgun liggur leið okkar í Legoland, mjög spennandi, förum fljúgandi til að spara tíma og ferðaþreytu og gistum tvær nætur. Vonandi verður jafngott veður á Jótlandi eins og veðurspáin lofar hér um slóðir næstu tvo dagana, en annars gerir ekkert til þó rigni á okkur allan tímann því eins og alþjóð veit veldur sólin ótímabærri öldrun og krabbameini.


Free Hit Counters
Free Counter