Katla og Sölvi

miðvikudagur, mars 30

Páskarnir búnir og vorið komið (burtséð frá því að það var -10 á mælinum í morgun, algjört aukaatriði). Nú er snjórinn nánast horfinn, get ekki sagt að ég sjái eftir honum. Höfðum það verulega gott um páskana. Ingi var hérna fram á þriðjudag og vid fjölskyldan nutum þess að eiga góðar stundir saman. Fórum eins og áður hefur komið fram til Guðrúnar og Jóa á laugardaginn í dýrindis páskamáltíð og páskaeggjaleit. Dvöldum þar fram eftir degi, strákarnir inní stofu að tala um Bobby Fischer og við stelpurnar úti á palli að tala um þá. Þegar við vorum búnar að vefja um okkur teppi var bara virkilega notalegt, sérstaklega þegar maður var kominn með hvítvínsglas í hönd.
Talandi um paranoid scizophren fyrrverandi skáksnillinga. Er þetta virkilega það sem við viljum? Ég kveið nú hálfpartinn fyrir því að fara í vinnuna eftir helgina og þurfa að verja þessa ákvörðun Íslendinga. Verdur fróðlegt að fylgjast með framgangi mála hjá blessuðum kallinum honum Bobby. Hvert af eftirtöldu gerir hann fyrst: a) grýtir Davíd Oddsson med eggjum, b) nefbrýtur góðvin sinn Sæma rokk, c) ræðst inn á árshátíð Samtaka gyðinga á Íslandi og gengur berserksgang, d) allt ofanskráð.
Sunnudagurinn byrjaði á hefðbundinn hátt, páskaegg mölvuð og vídeómaraþon. Sölvi tók sig svo til og klippti á sér hárið, toppurinn af öðru megin og svo snyrt svolítið hér og þar. Ég spurði hvort honum hefði fundist hárið á sér ljótt. "Nei, þetta var til þess að krakkarnir í leikskólanum verði hissa". Ætli hann verði týpan sem hoppar fram af svölum og kveikir í skónum sínum til að vekja á sér athygli? Svo var okkur boðið í mat til Harðar og Tótu í Stokkhólmi, sú máltíð var sko ekkert slor, gæsalifrarpaté og fyllt lambalæri. Þau eru svo miklir gestgjafar að það endaði með að við gistum öll, fórum í pottinn og drukkum meira rauðvín. Ekki slæmt. Vöknuðum daginn eftir og skelltum okkur á Skansinn ásamt vinum okkar, börnin fóru á hestbak og í ýmis tæki, þurfum augljóslega að fara þarna aftur þegar allt er orðið grænt.
Rannveig var með 19 ára frænku sína í heimsókn yfir páskana. Sölvi var að hjálpa Rannveigu að leggja á borð en leist ekkert á hvað það yrði þröngt. "Hvar á amma þín að sitja?" Dáldið neyðarlegt en blessuð stúlkan hafði þó húmor fyrir þessu.
Á morgun er síðasti dagurinn hjá börnunum, fá að vera í fríi á föstudaginn og svo byrja þessi grey á nýjum stöðum á mánudaginn. Katla er þá búin að vera í 1-A (Melaskóli), 1-B (Lövhagsskolan) og 1-C (Stenhagen skolan). Hljómar hræðilega, eins og við séum hjólhýsahyski sífellt flytjandi okkur úr stað eða að barnið geti bara ekki lært að lesa og sé látin endurtaka 1. bekk í sífellu. Hún er nú samt ennþá með sínum jafnöldrum...
Við byrjuðum að pakka í gær, enda ekki seinna vænna. Fáum flutningabíl á laugardaginn og munum halda uppá 35 ára afmaeli húsbóndans með því að bera kassa. Allir sjálfboðaliðar velkomnir!


föstudagur, mars 25

Föstudagurinn langi

Rétt upp hönd allir sem halda að það sé í lagi að fara í sjálfvirka bílaþvottastöð með tengdamömmubox á þakinu. Já, það hélt ég líka. En þið hafið rangt fyrir ykkur. Það er ekki í lagi. Boxið mun flettast af þakinu, brotna og rispa bílinn á leið sinni niður. Hvaðan hef ég þessa vitneskju? Tja, það verður ekki gefið upp.
Við erum komin í mikið sumarskap, snjórinn óðum að bráðna og farið að hlýna verulega. Gætum hæglega setið úti á palli núna og haft það notalegt, að vísu líklega klædd úlpum, en þar sem við erum innipúkar af guðs náð þá er kemur það ekki að sök. Ingi og krakkarnir fóru í morgun út á Björnö í göngutúr og kaffihúsaferð, vatnið var ennþá ísilagt en styttist örugglega í að hægt verði að fara á ströndina. Hér eru allir komnir í langþráð páskafrí, nema reyndar ég sem er á vakt þar til í fyrramálið. Katla var kvödd með virktum í gær, síðasti skóladagurinn hennar í Lövhagsskolan. Hún verður reyndar á fritids í næstu viku en það er enginn skóli þá. Hún hélt uppá afmælið sitt síðasta föstudag, nokkrar stelpur og hörkufjör. Við áttum svo bara rólega helgi, fórum reyndar til Uppsala á laugardaginn og skiluðum Guðrúnu Söru sem gisti eftir afmælið. Notuðum tækifærið og skoðuðum bæði skólann og leikskólann, reyndar bara að utan, en okkur leist vel á. Okkur til ánægju stóð flutningabíll fyrir utan húsið okkar, fer heldur betur að styttast í flutningana. Svo á sunnudaginn fórum við til Stokkhólms og fjárfestum í skrifborði handa heimasætunni.
Ingi kom í gær, með páskaegg og harðfisk, namminamm! Við förum á morgun til Guðrúnar og Jóa í páskahúllumhæ. Annars ekki mikið planað. Kannski maður komi því í verk að pakka í nokkra kassa. Og þó, mér finnst best að gera allt á síðustu stundu, helst nóttina fyrir.


fimmtudagur, mars 17

Skíðaferðin

Jæja, kominn tími til að gera upp skíðaferðina sem var afskaplega vel heppnuð í alla staði. Við bjuggum í frábærum fjallakofa sem uppfyllti allar okkar þarfir. Byrjuðum auðvitað á því að leysa "Stóra herbergismálið" á farsælan hátt; við fengum besta herbergið og hinir slógust útá palli. Húsið var í sjálfri skíðabrekkunni, var hægt að setja á sig skíðin við útidyrnar og skíða síðan heim að degi loknum, óskaplega mikill kostur fannst okkur. Þetta var mjög góður hópur af fólki sem þekktist misvel í upphafi ferðar en skemmti sér konunglega. Börnin höfðu félagsskap hvort af öðru og af vídeótækinu sem var stöðugt í notkun.
Dögunum eyddum við auðvitað í brekkunum, öllum fór mikið fram nema mér (ég held að ég sé orðin of gömul til að bæta einhverju við). Ingi orðinn þrælgóður eftir Frakklandsferðina og börnin auðvitað bæði orðin betri en ég. Krakkarnir byrjuðu í skíðaskóla en hættu síðan að mæta og að minnsta kosti í Sölva tilviki var það mikið gæfuspor. Fyrstu 2 dagana gekk þetta ekkert hjá honum, hann lét sig bara detta út í eitt og harðneitaði að reyna að búa til pizzu (fara í plóg). Um leið og við tókum hann úr skólanum gerðist eitthvað; hann fattaði þetta og þá var ekki aftur snúið. Eftir það brunaði hann niður brekkurnar eins og hann hefði aldrei gert annað. Vildi alltaf vera fyrstur og fór ansi hratt að mati móðurinnar sem skíðaði á eftir honum galandi skipanir um að stoppa og hægja á sér. Að lokum fékk hann nóg, stoppaði og sagði við mig frekar pirraður: "Mamma, viltu hætta að tala við mig, þú truflar taktinn!" Sama dag vorum við að skíða með Gullu og Þorra sem er talsvert vanari en Sölvi og öruggari eftir því en datt eitt skiptið eins og gengur. Sölvi renndi sér upp að honum og sagði við hann þar sem hann lá í snjónum: "Þorri minn, þetta er bara of bratt fyrir þig!" Katla hafði engu gleymt síðan á Ítalíu, finnst skemmtilegast að fara í hopp og hoss og mjóa stíga inní skóginum. Ingi var eini í fjölskyldunni sem treysti sér í svartar brekkur og gerði það með glæsibrag.
Á kvöldin var síðan skipst á að elda fyrir allan hópinn og kom það skipulag mjög vel út, hver dýrindis rétturinn af öðrum galdraður fram. Við ætlum samt að þróa þetta aðeins nánar á næsta ári, svo að við lendum ekki í því að 4 af 6 séu með kjúklingarétti.
Ég átti svo afmæli á fimmtudaginn og var það afar góður dagur. Dekrað við mig á allan hugsanlegan hátt og fékk rosa fínar gjafir. Ég hafði upphaflega hugsað að við myndum elda þann dag en Ingi fékk mig ofan af því og reyndist það góð ákvörðun. Við elduðum svo á föstudaginn og það fór svo klaufalega að ég skar mig í fingurinn ("mamma skar AF sér puttann" sagði litli maðurinn). Af þessum 8 læknum í ferðinni þá var einn með viti, Arnar Guðjóns, sem var með allar græjur með sér, þar á meðal deyfingu og saum, og saumaði 3 falleg spor í fingurgóminn. Ég eyddi afganginum af deginum í að baða mig í samúð og umhyggju vina minna. Einn hinna svokölluðu "vina" þoldi þó ekki athyglina sem ég fékk og af einskærri öfund kastaði hann sér á sturtuhurð úr gleri sem auðvitað smallaðist og rispaði hann aðeins á bringunni. Ókei, það voru reyndar saumuð 7 spor, en það var bara af því að hann grenjaði svo mikið og vildi líka vera saumaður. Í mínum huga mun hann samt alltaf ganga undir nafninu Siggi rispa.
Á kvöldin var kjaftað, sungið, spilað á gítar, horft á klassískar bíómyndir (Sódóma Reykjavík) og kjaftað meira. Úrslitin í söngvakeppninni voru á laugardagskvöldið og fylgdumst við spennt með henni. Það er agalega sætur strákur á leið til Kiev, Martin Stenmarck að nafni (skyldleiki við Ingemar ekki þekktur). Nú er bara að gera upp við sig hvort maður heldur með honum eða Selmu.
Katla átti svo afmæli á mánudaginn, var vakin á hefðbundinn hátt með söng og köku í rúmið. Opnaði alla pakkana áður en hún fór í skólann og var mjög ánægð með allt. Frábært að hafa bæði pabba hennar og afa á afmælisdaginn. Hún ætlar að bjóða nokkrum stelpum hingað á morgun í tilefni afmælisins, vill hafa köku, pizzu og vatnsmelónu.



Skíðakappar á fleygiferð gegnum skóginn Posted by Hello


föstudagur, mars 4

...hann er tannlaus greyið, takið eftir því, tönnunum hann týndi...

Já, nú er blessuð tönnin farin og lent í boxi sem eigandinn fékk með sér heim. Ég komst að því mér til ánægju að það er rétt að Dormicum valdi afturvirkri minnistruflun, hlustaði mér til undrunar á Sölva lýsa því fyrir ömmu sinni í símann áðan að þetta hefði sko ekki verið neitt vont og hann hefði ekkert grátið. Það er nú ekki alveg eins og ég upplifði þetta allt saman, en hvað um það. Ég var ekki alveg undir það búin hvað hann breytist mikið í útliti. Mér finnst litli engladrengurinn minn allt í einu vera búinn að breytast í Denna dæmalausa!



Sölvi sæti Posted by Hello


Ég var á vakt í nótt, mikið að gera sem er frekar óvenjulegt, blæðandi nef og munnar og guð veit hvað. Hérna setja læknarnir yfirleitt ekki upp nál sjálfir, ég held að margir kunni það ekki eða halda jafnvel að það sé fyrir neðan þeirra virðingu. Hvað um það, ég var að minnsta kosti að setja nál í sjúkling í nótt og hjúkkunni fannst ástæða til að útskýra fyrir sjúklingnum af hverju ég gerði það: "Þessi læknir er sko búin að vinna svo mikið á eyjunni sinni..." Ég sprakk úr hlátri, ..á eyjunni sinni.., þetta hljómar eins og ég sé frá Straumey í Færeyjum eða kannski eini eyjarskegginn á Fagurey (Fimm á Fagurey, þið vitið).
Nú eru mamma, pabbi, KBS, Maggi og Þóra á leið til Selva á morgun, sjúbb sjúbb. Það verður ekki slæmt, góða skemmtun! Sjálf leggjum við í hann snemma á sunnudagsmorguninn, börnin eru búin að fá nýjan útbúnað frá toppi til táar; galla, skíði, skó, hjálma... verða að öllum líkindum flottust í Idre fjäll!


miðvikudagur, mars 2

Mínus 24!

Já, það féll kuldamet á Bildhuggarvägen í morgun, 24 stiga frost! Hvernig þætti ykkur að hjóla 8 km í slíkum kulda? Ég barði nú bara í borðið og bætti einu atridi í starfslýsingu Rannveigar: Þú keyrir mig í vinnuna í dag!
Reyndar var ekkert mikið hlýrra í gær og í fyrradag og þá hjólaði ég. Það er svo kalt að það rífur í hálsinn og frýs í manni horið (ég vona að allir átti sig á því að þarna er ég að sjálfsögðu að tala á fræðilegum nótum, það er að segja EF ég væri með hor þá myndi það frjósa, ég er auðvitað ekkert nema kvenleikinn uppmálaður og ALDREI með hor!) Ég vona svo sannarlega að það verði ekki svona kalt í fjöllunum næstu viku. Veðrið er hins vegar mjög fallegt, það má eiga það, ekta skíðaveður.
Annars lítur út fyrir að ég muni sofa í bílnum í skíðaferðinni. Ég ákvað ad klára dæmið sem aðal skipuleggjandi ferðarinnar og tilkynnti um herbergjaskipan (hvað var ég að spá?!!). Húsið er búið bæði herbergjum með hjónarúmum og kojum... Í stuttu máli sagt, ýmis ljót orð voru látin fjúka á alla kanta, vinir eru orðnir að fyrrverandi vinum. Það er ekki komin niðurstaða í málið en ýmsar hugmyndir verið nefndar: hreinlega að slást um þetta úti á palli, karlmaðurinn með flottasta rassinn fær að velja fyrstur, einvígi í Friends-spilinu. Mér líst vel á allar þessar hugmyndir, tel okkur Inga mjög sigurstrangleg í öllum flokkum.
SÖLVI fékk að vera heima í dag hjá Rannveigu, hann segir reyndar á hverjum einasta morgni að hann sé veikur en í morgun bar hann sig óvenju aumlega, sagði að sér væri illt í fótunum, höndunum, maganum, höfðinu og að horið væri fast. Það var erfitt að sannreyna neitt af þessu en ég gat þó staðfest að hann var verulega stíflaður. Nú tekur maður engar áhættur, barninu verður pakkað inn í bómull fram að skíðaferð svo að hann verði ekki veikur. KATLA er hins vegar á fritids þessa dagana, það er sportlov hér og enginn skóli í vikunni. Hún fór á þotu í gær og í sund í dag svo að hún kvartar ekki. Svo kom ný vinkona í heimsókn í gær, Sabine sem er með henni í bekk. Verst að við flytjum eftir mánuð...


Free Hit Counters
Free Counter