Katla og Sölvi

mánudagur, febrúar 28

6 dagar í skíðaferð!

Best að gera grein fyrir afrekum síðustu daga... hmm... Við tókum rosa vel til á laugardagsmorguninn því það átti að sýna húsið þann dag, eigandinn er sem sagt ennþá að vinna í því að reyna að selja. Alveg mátulega þegar allt var orðið spikk and span (þetta getur ekki verið skrifað svona!) þá ákvað Sölvi að fá sér kakó. Setti smávegis mjólk í bolla, mikið af kakódufti og svo inn í örbylgjuofn í dágóða stund. Svo heyrði ég bara ópin í systur hans: "Mamma, eldhúsið er allt fullt af reyk!!" Það kom svona skemmtileg brunalykt sem festist í öllu þrátt fyrir að við reyndum að viðra af bestu getu. Skildum svo eftir opna glugga og skelltum okkur í bíó áður en fasteignasalinn kom. Ef væntanlegum kaupendum hefur ekki súrnað fyrir augum er ég illa svikin, ég finn ennþá brunalykt núna 2 dögum seinna!
En við fórum sem sagt á Bangsímon og ég varð mjög ánægð að sjá að stóri strákurinn minn er ekki vaxinn uppúr því að verða hræddur á Bangsímon sem eru saklausustu teiknimyndir sem til eru. Við fórum svo og keyptum skíðaútbúnað á bæði börnin; skíði, bindingar, stafi, skó og hjálma. Ég er ennþá í íslenska pakkanum, hélt að við gætum fengið þau strax og skellt okkur á skíði seinna um daginn, en nei ó nei, ég fæ þau á fimmtudaginn.
Í gær skelltum við okkur á þotu með Össa og fjölskyldu, tilvonandi nágrönnum á Herrhagsvägen. Þau komu svo í kaffi sem var nú bara ansi vel heppnað þótt ég segi sjálf frá, nú kom stóri frystiskápurinn að góðum notum. Ég fann í honum bæði kanelsnúða og kanellengju og meira að segja Sörur! Þetta er náttúrlega til háborinnar skammar að það séu enn til Sörur, en ég kenni frystinum um, hann er hreinlega svo stór að það týnist allt innan um afganga sem ég tek með mér í vinnuna og eplin hennar móður minnar. Svo bakaði ég stóran stafla af pönnukökum á pönnunni hennar Imbu sem stendur alltaf fyrir sínu!


fimmtudagur, febrúar 24

Í gær var ég í fríi í vinnunni, það var helv.. fínt þótt þetta hafi verið nauðungarfrí, það er að segja ég var þvinguð til að taka mér frí vegna ofmönnunnar á deildinni. Við kúrðum þess vegna aðeins lengur, Katla þurfti ekki að mæta fyrr en kl. 9 enda skógardagur hjá henni. Þegar við liggjum þarna og höfum það notalegt segir hún allt í einu: "Mamma, hvernig geturðu verið með svona rosalega stóran rass, þú sem ert svo falleg?" Ehemm, hvernig svarar maður svona... takk.. eða eitthvað... Minnir mig á þegar hún var aðeins yngri og horfði á mig með aðdáun um leið og hún sagði: "Mamma, mig langar svo að fá svona blátt undir augun eins og þú ert með!" Það er ekki hver sem er sem nær þvílíkum hæðum í baugasöfnun að dáðst sé að!
Ég fór svo í klippingu og er agalega fín um hárið, aðeins dekkri en ég hef áður verið og ánægð með það. Eina sem ég var ekki ánægð með var verðið, það var himinhátt. Mun líklega leyfa hárinu að vaxa að vild fram að næstu Íslandsferð.
Sölvi er eins og allir vita karlmaður í húð og hár (það var byrjuð að vera táfýla af honum löngu áður en hann eignaðist sína fyrstu skó). Hann var að lesa Bamse (hvað annað?) í gær, sögu þar sem Lille Skutt ásamt fleirum voru að keppa í skíðagöngu. Hann var yfir sig hneykslaður á því að kærastan hans Lille Skutt væri ekki að horfa á, og svo sagði hann: "Veistu mamma, kærustur eiga að vera þar sem menn geta hitt þær!" Rétt hjá þér vinur, og ef þær hlýða ekki þá bara dregur maður þær á hárinu!


þriðjudagur, febrúar 22

Ég er nú ekki alveg eins dugleg að blogga og stóð til, en myndirnar bæta þetta upp, ekki satt?
Við erum búin að eiga fína viku frá síðustu færslu. Ég sagði upp leikskólanum í dag þannig að nú verður ekki aftur snúið. Geri ráð fyrir að við flytjum fyrstu helgina í apríl, Ingi heldur væntanlega uppá 35 ára afmælið sitt með því að bera húsgögn!
Ég fékk að vita í dag að ég fékk sumarfrí eins og ég bað um og ekki nóg með það heldur fæ ég líka að fara á ráðstefnuna í Reykjavík í júní eins og ég óskaði mér, þetta var algjör draumur í dós og ég tók Stuðmannahopp út allan ganginn eftir þessar fréttir! Krakkarnir verða líklega heima mest allt sumarið, ég verð í fríi á Íslandi í júní í 2 vikur og svo verðum við öll saman í fríi hér í Sverige í ágúst.
Við förum á morgun að hitta nokkra krakka úr bekknum hennar Kötlu og foreldra þeirra, bekknum var skipt í nokkra hópa og á að hittast tvisvar á önn, við komum til með að borða saman och diskutera viktiga frågor.
Ég: "Sölvi, af hverju ertu með kúlu á enninu?" Sölvi: "Sko, ég datt á hökuna í leikskólanum." Hann spurði líka í gær uppúr þurru: "Rannveig, ert þú konan hans Spiderman?"
Börnin eru nú búin að uppgötva Bamse-blöðin, ég ræni þessu af biðstofunni í vinnunni (já, ég skila þeim aftur) og þetta lesum við öll kvöld. Þau eru orðin áskrifendur en safnið er bara ekki orðið nógu stórt ennþá, fullnægir engan veginn Bamse-þörfinni. Þetta eru reyndar fín blöð, algjörlega politically correct, um Bamse sem er sterkasti björn í heimi en meiðir aldrei neinn.
Ég fór um á laugardagskvöldið út að skemmta mér í Stokkhólmi, við vorum 9 íslenskar stelpur saman, agalega gaman. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fer eitthvað út síðan við fluttum, alveg kominn tími til. Fékk að kúra á svefnsófanum hjá Sunnu og Sigurði á eftir, síðasta lest í sveitina fer kl. 23.37, þá var nú fyrst að færast fjör í leikinn og ómögulegt að yfirgefa fjörið.
Svo fer að styttast í skíðaferðina, sjúbb sjúbb (svona heyrist þegar við þjótum niður brekkurnar), mjög spennandi.
Nú er Sölvi hættur að kveðja með "bless kex klukkan sex", finnst það ekkert flott lengur en er hins vegar kominn með nýjan frasa. Best að ég kveðji a la Sölvi: "bless bless, úti er ævintýri!"



Þóra okkar á afmæli í dag, til hamingju! Posted by Hello


fimmtudagur, febrúar 17


Feðginin úti að leika í snjónum Posted by Hello


þriðjudagur, febrúar 15

Fólk virðist almennt frekar hissa á því að tölvunördinn í mér sé kominn út úr skápnum, Bragi í sjokki yfir því ad ég hafi getað sett inn myndir án hans hjálpar en ég get ljóstrað því upp hér með að ég fékk hjálp annars staðar frá... takk Sara! En til að gleðja litla bróður minn vantar mig hjálp með annað atriði, geturðu ekki komist að því fyrir mig hvernig maður lætur kommentin hægra megin hverfa?
Já, það væri ekki svo slæmt að geta gefið róandi annað slagið. Hann finnur meira að segja fyrir því sjálfur, finnst svo leiðinlegt hvað hann er lélegur í feluleik, segir að það sé af því að hann eigi svo erfitt með að vera "ussaður" (lausleg þýðing: að láta ekkert í sér heyra).
Enn allt í snjó. Ég fór á bílnum í morgun því að ég er á vakt, vil síður lenda í því að vera á hjólinu í einhverjum skafli á miðri leid og vera kölluð út. Sölvi fór hins vegar á þotu í skólann, mjög ánægður með það en Katla í skólabílnum eins og venjulega. Hún er alltaf sein í gang á morgnana, bað mig í gær ad vekja sig kl. 6.30 svo að hún hefði nógan tíma til að vakna en guggnaði svo á planinu og ákvað að sofa aðeins lengur. Sölvi hins vegar sprettur á fætur um leið og klukkan hringir og fylgir mér upp í sturtu, tekur með sér kodda og leggst á gólfið. Það er skömm að segja frá því en þau sofa bæði uppí hjá mér, það er svo notalegt. Helst á ég að sofa í miðjunni, stundum færi ég mig samt út á kant til ad sofa betur. Svo vaknar Sölvi, leggur handlegginn yfir næstu manneskju sem hann finnur í rúminu og spyr "mamma, ertetta fú?" (Hann er ekki alveg kominn med þ-in á hreint, amk. hættur að segja h í stad þ, veit um eina sem er ánægð með það, er það ekki Þóra?) Svo fær hann spark eða harkalegt olnbogaskot frá systur sinni, "nei þetta er ég!"


mánudagur, febrúar 14

Ég er svo agalega ánægð með þetta blogg og með sjálfa mig að hafa getað komið þessu af stað. Þessu áttuð þið ekki von á, ég er greinilega ekki eins vitlaus og ég lít út fyrir að vera! Mitt alter-ego sem bloggari hefur líka gert það að verkum að ég hef yngst um heilan helling, mér líður eins og ég sé 10 árum yngri en raunaldur og hrukkur segja til um!
Engar stórfréttir héðan annað en óveður á sænskan mælikvarða, snjóar og snjóar.
Ingi var hjá okkur um helgina og það var auðvitad æðislegt. Ég var reyndar á vakt á laugardaginn sem var hálf mislukkað. Þau hin áttu hins vegar quality time saman á meðan. Ég náði þó að horfa á fyrstu undankeppnina í söngvakeppninni. Já, það eru sko 5 undankeppnir og 1 aðalkeppni fyrir Eurovision, ekkert verið að velja einhverja Selmu Björns hér. Frekar dapurleg lög svo ekki sé meira sagt, vonandi lagast það þegar á líður.
Í gær fórum við svo í 4 ára afmæli til Kötlu litlu (sem heitir reyndar Katla Sigurðardóttir Snædal) í Stokkhólmi og fórum þaðan södd og sæl. Vel lukkað í alla staði nema að húsbóndinn harðneitaði að spila fyrir okkur á saxófóninn og voru það óneitanlega mikil vonbrigði.
Á föstudaginn fór Sölvi til tannlæknis sem gekk í alla staði mjög vel (hann var farinn að gapa áður en hann komst uppí stólinn) þangað til það kom í ljós að það þarf að draga úr blessuðu barninu tönn. Eins og glöggir menn hafa kannski tekið eftir er önnur framtönnin uppi grá og guggin eftir að hann datt á hana fyrir lifandi löngu. Nú er komin einhver fistilmyndun út í góminn og þá þarf víst að taka hana til að fullorðinstönnin verði í lagi. Við fengum nýjan tíma fyrir það og þá fær hann víst róandi litla skinnið. Það var tekin mynd og komu í ljós þessar fínu og STÓRU fullorðinstennur, hann verður víst tenntur eins og móðir sín og systir þar sem tennurnar komast engan veginn fyrir í þessum annars nettu stúlkum, önnur með framtennurnar hálfa leið út og hin með augntennurnar.
Nú eru börnin farin að sofa, búin að borða falukorv (namminamm) og síðan lesið fyrir þau Bamse-blað, sænskara getur það varla orðið!


sunnudagur, febrúar 13

Sjáiði hvað ég gat, ótrúlegt ekki satt?!!


Nadia og Katla með Sölva í gullstól Posted by Hello


mánudagur, febrúar 7

Tjena!

Helgin var með rólegasta móti, eins og reyndar flestar aðrar. Á laugardaginn fór Katla í heimsókn til Nödiu, við Sölvi fylgdum henni og var boðið inn en þá harðneitaði drengurinn, gat ekki hugsað sér að fara inn því að það væri svo skrýtin lykt heima hjá henni! Rannveig fór til Stokkhólms að hitta íslenskar stelpur og við hin fórum á McDonalds (aftur!) sem var auðvitað hápunktur helgarinnar. Í gær fórum við svo í sund í Sala, þar er lítið ævintýrabað með öldum og rennibrautum. Fórum með Sænsku Vinunum (eigum bara eina), það eru Fredrik sem vinnur með mér og fjölskylda, þau eiga 2 stelpur sem eru jafngamlar Sölva og Kötlu. Endaði síðan með að þau komu í mat, voða gaman. Hegðuðu sér eins og almennilegir Svíar og voru farin uppúr kl. 19! Fjölskyldufaðirinn varð fyrir þónokkrum árásum af hendi Sölva og þeir skylmuðust eins og sannar hetjur. Sölvi talar greinilega sænsku þegar hann vill, "Du är DÖD!" hljómaði hér um allt. Hann er líka farinn að blanda ansi mikið, heyrast stundum setningar eins og "kann ég fá meira mjólk" og "sjáðu den". Svo er auðvitað romsan sem hann fer með við matarborðið: "Maten är på boret, händena i knät, vassego å ät."
Annars lítið um tíðindi, pabbi kemur á morgun, mikil tilhlökkun! Hjólið mitt streikaði aftur í morgun, verð eiginlega að fara með það í viðgerð en læt kannski pabba kíkja á það fyrst....
Auglýsi eftir kommentum, ekki hika við að tjá ykkur. Annars held ég að enginn lesi þetta.

Katla segir: Hæ allir og bless!



fimmtudagur, febrúar 3

Hún er æði!

Ókei, það er varla liðinn sólarhringur en nýja au pairin lofar mjög góðu. Hún spjallar og talar að fyrra bragði, er áhugasöm og spyr, alls ekki matvönd og hrósar matnum (jííhaa!) og krökkunum líst mjög vel á hana. Við höldum í þumlana (nýyrðasmíð, beint úr sænskunni).
Ég fór hjólandi í vinnuna í dag í fyrsta skipti í langan tíma, lítið getað nýtt hjólið á meðan við vorum ein. Í fyrsta skipti sem ég bremsaði á leiðinni festist bremsan á framhjólinu og hélt á móti alla leiðina í vinnuna! Þetta var þvílíka púlið og það tóku ALLIR frammúr mér, gott ef það var ekki gamall kall í hjólastól og krakki á þríhjóli í þeim hóp. Klinikchefinn minn tók meðal annars frammúr mér og ég kallaði á eftir honum að ég væri ekki í svona lélegu formi heldur væri bremsan föst (fremur lamað...) Komst þó loks á áfangastað algjörlega búin að vera, löðursveitt og með blóðbragð í munninum. Gat eiginlega ekki hugsað um neitt annað í allan dag en að ég ætti eftir að hjóla heim!
Komið nýtt kerfi í uppeldið, Katla sagðist ekki vilja vera í neinu asnalegu liði og þar með var sá draumurinn úti. Núna er það límmiðakerfið, enn sem komið er virkar það fínt, amk. á Sölva, Katla gefur nú ekki mikið út á þetta, en þau hafa rifist og slegist mun minna síðustu 3 dagana. Ekki komið neitt helgarplan ennþá, óljóst hvort Ingi kemst vegna aðalfundar Landsbankans, en ef hann kemur þá getur vel verið að við skellum okkur á skíði allihopa til að æfa okkur aðeins fyrir Idre-ferðina, verðum að vera flottust í brekkunum þegar vinir okkar sjá til! Hélt að okkur yrði jafnvel boðið í barnaafmæli um helgina, er það ekki Sunna? Ég er að minnsta kosti ekki búin að gefa upp alla von um að okkur verði boðið! Annars finnum við bara uppá einhverju miklu skemmtilegra, snökt....
Svo kemur afinn í næstu viku, hlökkum mikið til!


Free Hit Counters
Free Counter