Katla og Sölvi

þriðjudagur, ágúst 29

Hvað varð um alla ljósu lokkana?!!

Kannast einhver við þennan dreng? Þessi ungi drengur með ljósu lokkana er hinn verðandi skordýralæknir sem getur ekki hugsað sér neitt fallegra og betra en skordýr og því er ekki annað hægt en að túlka það sem ástarjátningu þegar hann segir eins og hann sagði við mig um daginn þegar hann var sérstaklega ánægður með mig: "Elsku engisprettan mín..."
Nú er afinn horfinn á braut, því er nú ver og miður, var ótrúlega duglegur að dytta að öllu milli himins og jarðar og svo þreif hann bílinn að innan og utan og allt húsið hátt og lágt (við erum að tala um including eldavél og klósett...) Svo er auðvitað alveg ómetanlegt að geta bara stungið af á morgnana án þess að spá í börnunum og þurfa ekki að stinga af fyrr úr vinnunni til að ná að sækja þau. En nú er sá draumurinn úti.... Í gær hófst svo alvara lífsins; ég lagði af stað í vinnuna kl. 7.40 og tíu mínútum síðar löbbuðu systkinin af stað og læstu á eftir sér, voru líka samferða heim og allt gekk eins og í sögu. Ætlum að reyna að hafa þetta þannig á meðan vel gengur. Eina vandamálið var að ég gleymdi að segja þeim að fara í regnföt: "Ég blev blautur", sagði Sölvi.
Skólinn lofar góðu, reyndar sagðist Sölvi ætla að hætta um daginn og varð alveg uppveðraður þegar ég ætlaði að hræða hann með því að ef hann lærði ekkert gæti hann aldrei orðið neitt annað en götusópari: "jaaá, ég sá einu sinni mynd af strák sem var götusópari og hann hafði bundið sópinn við hjólið sitt, ég get gert svoleiðis!" Þorri var að segja mér frá því að bekkurinn hefði verið að læra að reikna og ég spurði Sölva hvernig honum hefði gengið í því. "Ég missti af því, ég var sofandi!" Veit ekki hversu mikill skaði er skeður þegar maður missir af stærdfræðitíma í 6 ára bekk, vonandi nær hann að vinna þetta upp með aukatímum.
Katla byrjaði aftur í píanótímunum í síðustu viku, fór ekki beint með bros á vör, þurfti að snúa uppá eyru og hendur og allt mögulegt annað til að hún samþykkti að fara. Þær stöllurnar ætla að vera til áramóta og svo mega þær ráða hvað þær gera, mig grunar að þar með sé einleikaraferillinn á enda.


föstudagur, ágúst 25

"Iiii.... bara djóóók"....

.... svona mun ég framvegis skrifa fyrir aftan þegar ég er eitthvað að reyna að vera fyndin. Dettur fólki virkilega í hug að ég færi að skrifa skemmtisögur af sjálfri mér á barnaland.is, þar sem ófædd börn segja frá sjálfum sér í 1. persónu ("ég er ennþá inní mallanum á mömmu minni, það er voða dimmt, en bráðum kem ég út og ég hlakka voða mikið til að hitta mömmu og pabba...") Annað hvort er ég bara svona hrikalega ófyndin, eða þá að vinir mínir og vandamenn hafa engan húmor. Ég held að ég vilji ekki vita hvort er, bæði mjög slæmt....


þriðjudagur, ágúst 22

Haustönnin hafin


Ok, ég er búin að vinna úr tölulegum upplýsingum skoðunarkannannarinnar (púff, erfitt orð...) og niðurstaðan er sú að ég er búin að koma á fót persónulegri heimasíðu eingöngu fyrir mig á barnaland.is, leyniorðið er herrhagen. Framvegis verður því einungis minnst á börnin á þessari síðu.... en myndahornið mun halda sér, að minnsta kosti fyrst um sinn.
Nú á ég engin leikskólabörn lengur, bara skólakrakka... Skólinn byrjaði í gær með pompi og prakt, Katla glaðvaknaði fyrir 7 og hristi mig, var svo afskaplega spennt. Var meira að segja tilbúin þegar Guðrún Sara kom, það er teljandi á fingrum annarrar handar hversu oft það hefur gerst, mesta furða hvað þær eru ennþá góðar vinkonur. Sölvi skveraði nýju skólatöskunni á bakið og þrammaði af stað þessa 100 metra sem eru í skólann, með móður, föður og móðurafa í humátt á eftir. Honum leist vel á þetta allt saman, þau eru bara 14 krakkar saman í bekk (þar af 3 íslendingar) og kennarinn lofar góðu.
Brúðkaupsvertíðin er búin í bili, lauk með afar skemmtilegu brúðkaupi þeirra Ídu og Tóta, og var ekki laust við að ég fyndi fyrir móðurlegu stolti því það var eiginlega ég sem kynnti þau (ok... reyndi að vísu lengi vel að fá Ídu ofan af þessu rugli, en ákvað svo að hún yrði bara að læra af eigin mistökum, og leyfði þeim að byrja saman í friði... held að það hafi verið með betri ákvörðunum sem ég hef tekið um ævina...) Mæli með því fyrir alla sem fara í svona helgarferðir og þá sérstaklega í brúðkaup, að kjólnum, skónum, tannburstanum og snyrtidótinu sé pakkað í handfarangur, því það er ekki gaman þegar taskan manns kemur ekki fyrr en brúðkaupið er byrjað. Það er samt alltaf hægt að redda öllu ef maður á góða að, takk Kristín Björg og Þóra!


miðvikudagur, ágúst 16

Nýkomin og rétt ófarin


Ég var á Íslandi um síðustu helgi, gæti alveg hugsað mér að lifa svona lífi; vera hér í miðri viku, gleypa í mig visku og öðlast reynslu í starfi, fljúga svo til Íslands á föstudögum og skemmta mér þar um helgar (helst í brúðkaupum!) og vera mætt í vinnu hérna úti á mánudagsmorgnum. Síðustu helgi var sem sagt brúðkaupið þeirra Sunnu og Sigurðar Yngva, óskaplega skemmtilegt í alla staði, góður matur, fallegt og skemmtilegt fólk (sbr. mynd!), glæsilegar ræður og dans fram eftir nóttu. Svo verður instant replay um næstu helgi því þá ætla Ída og Tóti að ganga í það heilaga og auðvitað lætur Sigríður sig ekki vanta!
Börnin eru hress og kát eins og venjulega, gátu ekki beðið lengur eftir því að byrja í skólanum og fengu því að byrja á fritids, hæstánægð með það. Svo byrjar skólinn á mánudaginn og það er mikil spenna hjá litla manninum, spurði mig í gær með áhyggjuróm: "mamma, getur maður verið rekinn úr skólanum?"
"Úff", sagði hann í dag við afa sinn, "ég var næstum búinn að pissa í mig í skólanum í dag, gat ekki losað beltið, en svo gerði ég bara svona" og svo sýndi hann hvernig hann hafði náð að troða typpinu upp úr buxnastrengnum og reddað málinu þannig (get ímyndað mér að sitthvað hafi farið útfyrir klósettið en það er aukaatriði því ég þarf ekki að þrífa það...). Afinn spurði af hverju hann hefði ekki bara rennt niður buxnaklaufinni og reddað málinu þannig, en þá varð Sölvi þvílíkt svekktur: "Oohhh, ég hefði getað gert þannig!"
Við Sölvi skelltum okkur til Stokkhólms í gær og aðstoðuðum Gunnu og Didda við flutningana, þau eru búin að kaupa sér æðislegt raðhús, frábært að öllu leyti nema það er ekkert nær Uppsala en gamla húsið... Við mæðginin tókum vel á því, má vart á milli sjá hvort okkar er sterkara!
Arna og Einar Gunnar eru orðin stoltir þriggja barna foreldrar, eignuðust enn einn soninn seint á föstudagskvöld, innilega til hamingju með drenginn kæru vinir, hlökkum hrikalega til að fá að koma í heimsókn!

Og svo smá skoðanakönnun í lokin:
Finnst lesendum bloggið, sem ætlað var fyrir fréttir af börnunum, vera farið að snúast of mikið um móðurina?
Finnst lesendum of mikið af því góða þegar myndir fylgja hverri færslu?


fimmtudagur, ágúst 10

Síðustu sumarleyfisdagarnir



Jæja, þá erum við komin aftur til meginlandsins, búin að fara í sturtu og skola sandinn úr hárinu, var ekki vanþörf á því. Þetta var frábær ferð, erum reyndar dáldið brunnin öllsömul en það var alveg þess virði. Eyjan sem við fórum á heitir Utö og er syðst í skerjagarðinum, frábærar strendur, skógarstígar og sveitastemmning. Leigðum hjól og hjóluðum um allt, fórum í minigolf, út að borða, vaða í sjónum og veiða engisprettur. Sem sagt eitthvað við allra hæfi (mér fannst best að liggja á ströndinni og lesa bók, var að klára Flugdrekahlauparann, hrikalega er það góð bók, mæli eindregið með henni!) Um hálfátta leytið í gærkvöldi tókum við okkur smá pásu í minigolfinu því einhver þurfti á klósettið, þegar við komum í herbergið ákváðum við að leggjast aðeins upp í rúm og lesa Harry Potter, en það fór ekki alveg sem áhorfðist því við vöknuðum 12 tímum síðar, ennþá í sundfötunum og með ókláraðan golfleik á bakinu.... Svona getur maður orðið þreyttur af mikilli útiveru, þetta er kannski eins hollt eins og sögur fara af.
Við sóttum afann á flugvöllinn áðan og urðu þar fagnaðarfundir. Ég fer síðan til Íslands á morgun bara rétt yfir helgina til að vera viðstödd þann merkisatburð þegar tvíeykið Snædal-Kristinsson verður eitt, og hlakka mikið til. Svo byrja ég að vinna á mánudaginn, hef varla hugsað um vinnuna síðustu fjórar vikurnar og get ekki sagt að ég hlakki til þótt mér finnist gaman í vinnunni, krakkarnir verða hins vegar í fríi í viku í viðbót og verða í góðu yfirlæti hjá afa sínum.
Læt fljóta með myndir af stemmningunni á Utö til að styrkja mál mitt, frábær eyja í alla staði!


þriðjudagur, ágúst 8

Ofsóknir geitunga

Börnin nýklippt eins og sjá má og mjög ánægð með sig. Katla spurði hversu stutt hárið á henni þyrfti að vera til þess að hún slyppi alveg við að greiða sér. Ég sagði að það yrði þá að vera eins og á Magga frænda, en hún var ekki alveg tilbúin að klippa það svo stutt....
Sölvi var aftur stunginn af geitungi í dag, í rassinn í þetta skiptið, og nú var ég persónulega vitni að því að drengurinn var alsaklaus, þetta var oprovocerat våld eins og svíarnir segja. Það er víst mjög gott geitungasumar, en á móti kemur að það er ekkert mý og þá finnst mér nú lítil fórn að leyfa geitungunum að vera (segi ég, þar til ég verð sjálf stungin í rassinn...)
Á morgun ætlum við að skella okkur í smá ferðalag, búin að panta hótelherbergi fyrir okkur á eyju í skerjagarðinum og ætlum að dvelja þar í tvo daga, reyndar ekki á bátnum okkar (ekki það að ég kunni ekki á hann, hóst hóst, heldur finnst mér réttara það séu fleiri fullorðnir um borð og þar sem meðeigendurnir eru allir annað hvort að fara að gifta sig eða fjölga sér á næstu dögum tökum við bara áætlunarbát út í eyjuna). Förum heim mátulega til að pikka ættföðurinn (afa með skeggið) upp á flugvellinum en hann ætlar að vera hjá okkur í rúmar 2 vikur, vei vei!


mánudagur, ágúst 7

Verslunarmannahelgi


Óskaplega höfum við það gott, það er helst hægt að kvarta yfir hitanum, börnin segja að það sé ekki hægt að vera úti fyrir hita. Sölvi var stunginn af geitungi áðan og var það í fyrsta sinn, sem kemur þó verulega á óvart þar sem hann er stöðugt að veiða geitunga og önnur skordýr. Held samt að þetta áfall aftri honum þó ekki frá framtíðaráformunum, en hann ætlar að verða skordýralæknir!
Verslunarmannahelginni við ásamt Gullu og börnum hennar í stærsta skemmtigarði Svíþjóðar sem heitir Skara Sommarland og er tívolí/vatnsrennibrautagarður og gistum við í litlum kofum um nóttina til þess að geta notað 2 daga í herlegheitin. Vorum afskaplega heppin með veður, eina sem ég klikkaði á, en margir aðrir höfðu greinilega haft vit á, var að vera með bjór í kæliboxi. Ætla að muna það næst!
Nú annars ekkert merkilegt í fréttum, búin að fara einu sinni á ströndina, kaupa ný blóm í blómakerin í stað hinna undurfögru en steindauðu blóma sem þar voru fyrir, sulla í plastsundlaug í garðinum, bjóða Össa og Gullu í sushi/hvítvín/diskó, en aðallega erum við að farast úr hita...


miðvikudagur, ágúst 2

Meira frí

Afrek dagsins:
- Vakna fyrir hádegi
- Líkamsrækt dagsins sem telst líka til góðverks dagsins: aðstoða við að tæma gáminn hjá hinum nýinnfluttu Einari Þór og Guðrúnu (já ég veit, ég hugsaði líka eins og þið þegar ég var á leið til þeirra: hafa þau einhverja hugmynd um hvað ég er veikbyggð...?)
- Taka til á leifturhraða
- Reiða fram hlaðborð í kaffinu handa Örnu og sonum sem lögðu land undir fót og heimsóttu okkur alla leið frá höfuðborginni
- Leika við Guðrúnu Söru og Þorra frá því að þau stukku út úr leigubílnum og alveg fram á kvöld
- Reiða fram dýrindis kvöldverð fyrir áðurnefnd Einar og Guðrúnu ásamt börnum þeirra
- Gera heiðarlega tilraun til að láta börnin sofna fyrir miðnætti, virðist ekki ætla að takast....
Ég var búin að vara ykkur við; hér verður bloggað oft og mikið og um ekki neitt! Get svo ekki annað en bent á snilldarkomment frá litla bróður við síðustu færslu.....


þriðjudagur, ágúst 1

Sumarfrí - seinni hluti

Þá erum við loksins mætt aftur til Herrhagen, afar ljúft að vera úti að leika í stuttbuxum og bol (í sandölum og ermalausum bol eins og í hinu sígilda lagi þið vitið: Á Spáni er gott að djamma og djúsa, diskótekunum á, Hey!) Búin að hafa það mjög gott á Íslandi undanfarið, ég í 2 vikur og börnin í heilar 6 vikur.
Sölvi hélt uppá 6 ára afmælið sitt með pompi og prakt í síðustu viku, fékk meira að segja tvær veislur, eina á Hólavöllum og hina á Sigríðarstöðum í Útey (ehemm, gæti verið búið að breyta nafninu, hvað veit ég....) Hann spurði mig á leiðinni í flugvélinni: "Mamma, þegar ég verð 7 ára, hvaða dag á ég þá afmæli?" Hélt sem sagt að dagsetningin myndi breytast með hverju afmæli en ég gat glatt hann með því að hann þyrfti ekki að leggja annan afmælisdag á minnið en 27. júlí, enda nýbúinn að læra þá dagsetningu!
Pála sem átti að þjóna hlutverki grimma varðpáfagauksins í fjarveru okkar hefur eitthvað aðeins misskilið fyrirmælin og er búin að kroppa mestallt veggfóðrið af inni hjá Sölva, næst þegar við bregðum okkur burt ætla ég að "gleyma" að láta nágrannana fá lykil og vonast til að fuglinn .....ist á meðan.
Afrek so far:
- leika, leika og leika aðeins meira, mest við Margréti og Gunnar Björn en Margrét ætlar einmitt að gista hér í nótt
- innkaupaferð til að minnka tómahljóðið í ísskápnum sem hefur varla verið opnaður síðan 10. júní nema þegar Jóhanna braust inn um daginn og stal hvítlauk
- líkamsrækt dagsins: slá blettinn (og raka!)
- bjór og grillaðar pylsur hjá Jóhönnu og Gísla
- ganga frá ótrúlega miklu dóti sem við drösluðumst með frá Íslandi (þurftum samt að skilja slatta eftir...)
Á morgun koma svo Guðrún og Þorri og verða þar væntanlega fagnaðarfundir, sérstaklega þar sem Snorri og Óli skelltu sér foreldralausir til Íslands og því engir leikfélagar í næstu húsum (það er að segja íslenskir, við leikum ekki við svía...)
Stefni að öflugu bloggi í fríinu, þær örfáu góðhjörtuðu sálir sem af einskærri góðsemi lesa ennþá þetta vesældarblogg geta því búið sig undir mikinn leiðindalestur, því hápunktar tilverunnar hérna hjá okkur eru afar fábrotnir.....


Free Hit Counters
Free Counter