Katla og Sölvi

sunnudagur, júlí 27

Takk fyrir okkur!

Hann Sölvi minn er 8 ára í dag, litla ungabarnið mitt. Því miður er heilt Atlantshaf á milli okkar, en hann var búinn að fá gjöf áður en hann fór og svo koma afmælisdagar eftir þennan... Ég er hins vegar á vakt, hinni síðustu á sænskri grundu!

Heimilið er eins langt frá því að vera kósý og hugsast getur. Pabbi kom í gær og tók til við að stýra pökkunarverkefninu af fullum krafti, hvergi slakað á. Gámurinn kemur á þriðjudaginn og þá er að raða í hann á skynsamlegan hátt, því miður kemst hann ekki fyrir framan húsið hjá okkur þannig að þetta verður smá spotti sem þarf að bera allt en ég er búin að virkja fullt af fólki og þetta ætti allt að ganga upp.
Yfirlæknirinn skrifaði klausu í vikubréfið um daginn:
Nú er komið að því að kveðja Siggu. Föstudagurinn er síðasti dagurinn sem hún er skemalögð á sænskri grundu. Við hefðum gjarnan viljað hafa þig áfram. Allir vonast í fyrsta lagi til þess að allt muni fara á besta veg á Íslandi, og í öðru lagi að einhver geri breytingu á handritinu og að þú sért skyndilega meðal okkar á ný. Takk fyrir þitt fína framlag, ég er viss um að þú veist hversu vel við kunnum að meta þig. Og ef einhver vill sýna þakklæti sitt í verki á enn greinilegri hátt þá býðst tækifæri til þess á þriðjudaginn þegar sett verður í gáminn!
Þetta þótti mér vænt um. Það er frábært fólk sem ég hef verið að vinna með og mun sakna þeirra mikið, fórum einmitt nokkur saman út að borða á föstudaginn og að dansa á eftir. Allir á hjólum auðvitað, krökkt af hjólum fyrir utan skemmtistaðinn og fólk skilar inn hjálmum í fatahengið. Um 4-leytið þegar ég var að hjóla heim í stuttu pilsi og bol varð mér hugsað: "Hvenær mun ég gera þetta aftur, hjóla léttklædd heim af djamminu?" Líklega verður það ekki á næstunni.

Jæja.... komið að kveðjustund.
Þann 23. janúar 2005 var fyrsta bloggfærslan skrifuð og ég verð að segja að þetta hefur gefið mér mjög mikið. Svo er auðvitað ómetanlegt að eiga skriflega heimild um þessi ár okkar, mjög margt úr hversdagslífinu myndi gleymast annars. Þetta eru sem sagt rúmlega 3 og hálft ár sem lesendur hafa fengið að skyggnast inn í hið æsispennandi líf okkar. En nú er mál að linni. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa nennt að fylgjast með okkur og vona að hver og einn einasti sem les þessa færslu kvitti fyrir sig, enda síðasti séns!
Takk fyrir elskurnar!


laugardagur, júlí 19

Óðir apar, white trash líf og kaffidrykkja

Jæja, börnin eru þá formlega flutt til Íslands, fóru í gær, nákvæmlega uppá dag fjórum árum eftir að við fluttum hingað. Ég sit ein eftir í húsi sem er fullkomin rúst, drasl og kassar út um allt!

Við reyndum að mjólka síðustu dropana úr Svíþjóðardvölinni og fórum í 2 ferðalög á 5 dögum. Fyrst til Gautaborgar með Malin vinkonu minni úr vinnunni og syni hennar, bjuggum á fínasta hóteli í miðbænum í 2 nætur og skelltum okkur í helstu afþreyingu borgarinnar, sem sagt Liseberg tívolíið og Universeum sem er mjög skemmtilegur staður nema hvað að ég fékk símtal inní miðjum "regnskóginum": "Ég heiti Jonas og vinn hérna í Universeum, sonur þinn varð bitinn af apa!" Það er ekki símtal sem maður fær á hverjum degi. Ég skundaði auðvitað á staðinn, fylgdi blóðslóðinni og fann drenginn minn kaldsveittan og náfölan inni á klósetti, allan í blóði þótt erfiðlega hafi gengið að staðsetja sárið vegna þess hve lítið það var. Læknarnir tveir skelltu piltinum á gólfið og lyftum upp fótleggjunum, enda vanar að sjúklingar líði út af í skoðunarstólnum hjá okkur í vinnunni, það er víst ekkert geggjað að láta opna kýli í hálsinum hef ég heyrt. Anyway, við slógum okkar klóku hausum saman, hringdum þar að auki í þriðja lækninn og niðurstaðan varð að best væri að setja hann á sýklalyf. Fengum líka frímiða til að komast aftur í Universeum við tækifæri, anyone??

Daginn eftir að heim var komið var svo lagt af stað í næstu ferð og það til stórborgarinnar Malmköping. Vinahópurinn vildi ólmur komast saman í útilegu, og á íslenskan máta var farið af stað að hringja út um allt 2 dögum fyrir, allt staðar fullt nema á þessum úrvalsstað og því var ferðinni heitið þangað. Frábær staður, lifðum poor white trash lífi í 2 daga og fíluðum það í tætlur. Þarna var allt sem við þurftum og meira til, þar að auki gott veður og mikil stemmning, meira að segja live tónlist á laugardagskvöldið á tjaldstæðinu, hin víðfræga hljómsveit Rhythm Boys lék fyrir dansi við mikinn fögnuð viðstaddra.
Í vikunni fór Katla ein í lest til Stokkhólms til að hitta nýja vinkonu, þær fóru svo saman í Gröna Lund og hún ein í lestinni heim. Gekk ótrúlega vel og stúlkan auðvitað að rifna úr stolti, en ég veit ekki hvað barnaverndaryfirvöld segðu um þetta (uss... þetta er bara okkar á milli!)

Gunna og Diddi eru orðin 3ja barna foreldrar og geri aðrir betur! Eignuðust yndislega dóttur 8. júlí, innilega til hamingju kæru vinir!

Að lokum verð ég að bæta við að móðirin er loksins orðin fullorðin. Til glöggvunar vil ég taka það fram að þetta er kaffi í bollanum!!




mánudagur, júlí 7

Ítalía og fleira

Er ekki alveg búin að leggja upp laupana enn, spái því að þetta sé... hmmm... þriðja síðasta færslan, enn er tækifæri til að kommentera áður en síðan kveður að eilífu!

Komum heim frá Ítalíu fyrir viku síðan, besta afmæli sem við höfum verið í. Amma Kriss var að fagna verðandi sextugsafmælinu með því að bjóða la grande famiglia til Toscana í 2 vikur, og þar dvöldum við í la dolce vita á miðri vínekru, í risa húsi með einkasundlaug og fínerí. Sem betur fer er ég áfram í sumarfríi, hefði verið erfitt að fara beint í vinnuna eftir þetta lúxusfrí.




Kvöldið áður en við lögðum af stað í ferðalagið fórum við Gulla á tónleika með Dolly Parton og hún var algjört æði.
"People ask me if I get offended by dumb blond jokes. Why should I? I know I'm not dumb... and I know I'm not blond either!" Hún er nýja idolið mitt!!

Sölvi hamast við að vera kaldhæðinn:
"Sölvi minn, viltu hafragraut í morgunmat?"
"Nei. Kaldhæðni!"
"Hmm... Sölvi minn, það er ekki nóg að bæta orðinu kaldhæðni fyrir aftan það sem maður segir til að það verði kaldhæðið... þú skilur þetta þegar þú verður eldri!
Katla, sem er dottin kylliflöt í Vina-pakkann, er samt farin að fatta. "Mamma, er Chandler ekki með kaldhæðnishúmor?"

Við erum byrjuð að pakka búslóðinni, hér er allt í rúst, og mikið óskaplega er leiðinlegt að flytja, var alveg búin að gleyma því...


mánudagur, júní 9

Gleði gleði

Takk fyrir öll kommentin elskurnar mínar!! Mikið óskaplega gladdi þetta mitt gamla hjarta. Ég á líklega eftir að skrifa örfáa pistla til viðbótar áður en yfir lýkur, þannig að þið fáið nokkur tækifæri enn til að gleðja mig!

Hér er alltaf gott veður. Ekki hægt að tala endalaust um það.

Börnin fóru til Íslands um helgina og gerðu eflaust margt og mikið, en eitt hið merkasta var þó að Sölvi bjargaði ömmu sinni frá bráðum bana. Til allrar lukku voru þau stödd hjá ömmu Kriss þegar hún kom að hamstri uppi á eldhúsborði (hverra manna hann var veit enginn...), hljóp æpandi og skrækjandi niður í kjallara og læsti að sér, en Sölvi sá um að koma óargadýrinu út. Get ekki hugsað þá hugsun til enda ef móðir mín hefði verið ein heima, því hún er með músafóbíu á háu stigi. Auðvitað veit ég að hamstrar eru ekki mýs og eflaust veit hún það líka, en sumt er bara ekki hægt að útskýra.

Ég fór hins vegar til Malmö ásamt nánast öllum vinahópnum, áttum þar frábæra helgi enda ekki við öðru að búast þegar sómahjónin Halla og Hákon standa fyrir heimboðinu.

Í dag er fyrsti dagurinn í bökunarvikunni miklu. Ég þarf að fara með köku í vinnuna, á 4 ólíka staði, samtals um það bil 60 manns, þar að auki ætlar Sölvi að halda afmælis/kveðjuveislu fyrir strákana í bekknum á miðvikudaginn. Og ég sem á ekki einu sinni hrærivél...


sunnudagur, júní 1

Heitt og sveitt

"Mamma, hvað var fyrsta orðið þitt, var það kaldhæðni?"
Hmmm.... ekki líklegt...

Hér hefur verið þvílík og önnur eins bongóblíða síðustu daga, uppundir 30 stiga hiti og glampandi sól. Þótt Svíarnir eigi að heita frændur okkar virðast þeir vera af allt öðru sauðakyni því þeir eru flestir orðnir hressilega kaffibrúnir nú þegar, á meðan við erum meira í litunum ljósbleikt og yfir í hárautt. Spáð áframhaldandi veðurblíðu næstu daga, ótrúlega ljúft þegar börnin geta hlaupið út berfætt í sundfötum, beint í garðslönguna til að kæla sig. Og hér hafa svo sannarlega hlaupið börn bæði út og inn um helgina því ég hef verið einstæð 5 barna móðir síðan á föstudaginn, og er enn. Gengið ótrúlega vel, greinilega ekkert mál að bæta á sig þremur gríslingum!

Góða veðrið hefur gert það að verkum að maður er svona mátulega spenntur að flytja heim í jarðskjálfta, 9 stiga hita og súld. Við bætist svo að kostnaðurinn við að flytja gáminn er gríðarlegur svo ekki sé meira sagt, held ég hafi ekki efni á þessu, tími því að minnsta kosti ekki...

Nú fer þessi síða að syngja sitt síðasta innan tíðar, og mikið óskaplega þætti mér vænt um að fá dáldið af kommentum svona undir lokin, bara til að finnast ég ekki hafa setið að skrifum til einskis. Þó ekki væri nema bara að kvitta fyrir komuna, bara fyrir mig, plís...?


mánudagur, maí 19

Móðir, kona, maraþonhlaupari

Ójá, maður rúllaði þessu auðvitað upp, nema hvað! Hljóp á 2.02.19 og var mjög ánægð með árangurinn, leið ótrúlega vel allan tímann og nýt nú harðsperranna í botn...
Ég vona að þið gerið ykkur öll grein fyrir hvað þetta er mikið persónulegt afrek hjá mér, hef aldrei getað hlaupið nokkurn skapaðan hlut, þegar ég byrjaði fyrir rúmu ári hafði ég ekki hlaupið síðan ég var unglingur (minnist ekki að það hafi verið mikið hlaupið þá heldur...) fyrir utan þetta eina skipti sem við Ingi fórum út að hlaupa vorið 1995, ég gafst upp eftir 200 metra og labbaði heim!

Ákvað að keyra til Gautaborgar þar sem hlaupið fór fram, fannst svo dýrt bæði að taka lest og fljúga, en ég hefði betur flogið og það jafnvel á fyrsta farrými því ég var stoppuð af lögreglumanni í gervi venjulegs mótorhjólatöffara og hlaut sekt sem hefði auðveldlega borgað fyrir flugið og rúmlega það. Afar svekkjandi svo ekki sé meira sagt, reyndi svo að slaka á og njóta útsýnisins það sem eftir var ferðarinnar, en það var nokkurn veginn svona: Barrtré, lauftré, barrtré, lauftré... í 6 klukkutíma...

Börnin skelltu sér hins vegar til Íslands um helgina, urðu miklir fagnaðarfundir við endurkomuna hingað í dag. Nú eiga þau bara eina helgarferð eftir og svo pantaðan miða aðra leiðina til Íslands!


þriðjudagur, maí 13

Síðasta vorið í Uppsala



Mikið ofsalega ætlum við að njóta þessa síðasta vors og sumars í Uppsala. Það verður auðvitað lítið mál, ekki síst þegar veðrið er eins og var hérna um helgina, 26 stiga hiti og sól.... ahhh...

Það var keppt á ýmsum vígstöðvum um helgina. Á laugardaginn voru úrslitin í skákkeppninni, Katla stóð sig eins og hetja og vann 3 skákir af 5 þótt bekknum hennar hafi í heildina ekki gengið neitt framúrskarandi vel. Hún sagðist hafa notað mikið sóknina með tveimur hrókum og pressað kónginn til uppgjafar. Þar hafið þið það!
Á sunnudaginn var síðan fótboltamót hjá Sölva, fremur dræmur árangur með 2 jafntefli og 2 töp. Sölvi var samt bara sáttur: "Já, ég var bara ánægður með þetta, mér fannst ég dáldið góður og veistu mamma að sumir segja að ég sé besti passarinn!" Að passa er sem sagt að gefa boltann og auðvitað er nauðsynlegt að vera góður í því. Og auðvitað á maður að taka þetta viðhorf til fyrirmyndar, það er alltaf eitthvað sem maður er góður í. Ætla að reyna að muna eftir því á laugardaginn í hálfmaraþoninu þegar allir hlaupa fram úr mér: "Já hlaupiði bara, ég er góð í ýmsu öðru, ég er viss um að þið kunnið ekki að prjóna!"


fimmtudagur, apríl 24

Gleðilegt sumar!

Hér var yndislegt veður í dag og nú finnst manni sumarið vera komið. Kirsuberjatréð meira að segja farið að blómstra. Tuttugu stiga hiti og glampandi sól, svona á sumardagurinn fyrsti að vera! Allir úti á stuttbuxum og freknum heimilisins fór snarfjölgandi í dag.
Bíllinn okkar er nú enn á ný fær um að bakka, það var smá skortur á því um tíma. Var farin að gera mér grein fyrir að þetta gengi ekki lengur. Það er ekki endalaust hægt að leita að stæðum sem eru uppí brekku svo að það sé hægt að láta bílinn renna úr stæðinu. Það er ekki hægt að bjóða börnunum sínum eða óléttum vinkonum uppá að þurfa að ýta bílnum í tíma og ótíma. Það gerði eiginlega útslagið þegar við Katla vorum að verða of seinar í dansinn á mánudaginn, sé þetta ennþá fyrir mér: ég við stýrið með svip sem átti að virka uppörvandi en gæti mögulega hafa túlkast sem uppgjöf eða jafnvel örvænting, Katla eins og karfi í framan að ýta bílnum út úr bílskýlinu og nágrannarnir útí glugga með svip sem er ekki hægt að túlka sem annað en undrun í sambland við hneykslun. En... bílinn kominn í lag! Þvílíkur lúxus að geta bakkað! Fyrirgefðu elsku UDJ 199 ef ég hef ekki sýnt þér tilhlýðilega virðingu í gegnum árin, jafnvel tekið þér sem sjálfsögðum hlut. Ég kann svo sannarlega að meta þig núna!
Ofurafinn er væntanlegur á laugardaginn, erum búin að panta kúlusúkk, SS-pylsur, remúlaði og léttlopa, allt eintómar nauðsynjavörur...

p.s. náði prófinu!


fimmtudagur, apríl 17

Vikan okkar


Karatemeistarar



Ég á leið í galaveislu ásamt Clöru og Össa.



Skákmeistararnir


Húsið selt!
Fór eftir ráðum Sunnu þar sem hún er sú vinkona mín sem hefur mesta reynslu af flutningum; keypti afskorin blóm, viðraði vel og var með nammi í skál. Svínvirkaði!
Mér skilst að vísu að söluverðið myndi ekki duga fyrir ósamþykktri 2ja herbergja kjallaraíbúð í Sandgerði, en það er nú annað mál.

Dóttir mín er ekki bara bókagleypir, bakarameistari og svefnpurrka, heldur nú einnig nánast alþjóðlegur stórmeistari í skák og er á leið í hina merku höll Globen (þar sem ég hef meðal annars séð George Michael þenja raddböndin) ásamt bekknum sínum að keppa í úrslitum. Nú verðum við að leggjast yfir taflborðið og æfa, lumar einhver á góðum vörnum/sóknum sem hún gæti nýtt sér á ögurstundu?

Hlaupin ganga ekki alveg nógu vel, búin að vera með hósta og barkabólgu síðustu daga og logsvíður í pípurnar, hef ekki komist út að hlaupa í viku. Hef samt engar áhyggjur af hlaupinu mikla þótt einungis séu rúmar 4 vikur til stefnu (ó mæ god!) því nú er ég komin á gullskó sérinnflutta frá Ameríku og er án efa glæsilegasti keppandinn fyrr og síðar. Fyrir algjöra tilviljun er ég líka með rétta lagið í Ipod-inum:

Diggelo diggeley alla tittar på mig,
när jag går i mina gyllene skoooooor...


Sölvi: Mamma, ég er alltaf með svo mikið ansvar (ábyrgð).
Mamma: Nú, hvernig þá?
Sölvi: Æi bara, tek til dæmis oft ansvar af hinum. Eins og um daginn þá tók ég ansvarið af öllum strákunum nema tveimur.
Mamma: Ha, hvernig gerðirðu það?
Sölvi: Náði í mjólk fyrir alla í matsalnum.
Mamma: Frábært! Svo veistu að þegar þú ert einn heima þá ertu með ansvar á húsinu.
Sölvi: Já, ég og lásinn! En veistu mamma, þegar ég er einn heima, þá er ég yfirleitt að brjóta saman þvott og svona.

Og mamman (sem vissi mætavel að þetta með þvottinn var ekki alveg sannleikanum samkvæmt) fékk tár í augun af stolti...


fimmtudagur, apríl 10

Hús til sölu

Prófið búið, gekk þokkalega. Hefði gengið mun verr ef við hefðum ekki verið svo heppin að hafa súperafann hérna alla vikuna, hann hélt á spöðunum á heimilinu og rúmlega það. Pabbi var sífellt dyttandi að, fór helst ekki úr vinnufötunum og það yrði of langur listi að telja upp allt sem hann náði að betrumbæta hérna á heimilinu. Farinn að minna meir og meir á afa Magnús (svo sannarlega ekki leiðum að líkjast!), vantar bara lúrinn eftir hádegi (þann tíma notar pabbi hins vegar í að spjalla við nágrannana sem hann þekkir umtalsvert betur en við hin...)

Fór í klippingu í gær. Þetta var í annað skiptið sem ég neyðist til að treysta svía til verksins, hef yfirleitt reynt að treina slík ævintýri til Íslandsferða, en Nanna klippari var búin að taka af mér heilagt loforð um að ég mætti ALLS EKKI láta hárið vaxa óáreitt til næstu heimferðar. Fór sem sagt á dýrustu stofu Uppsala sem var svo sem ekki frásögu færandi. Hef yfirleitt ekki gaman af því að láta þvo mér um hárið, er með einhvern anatómískan varíant á hálshrygg sem gerir það að verkum að kanturinn á vasknum borast alltaf inn í mig, hvorki afslappandi né þægilegt. Þar að auki er ég hárssárari en bæði skrattinn og amma hans til samans (sérstaklega skrattinn ku vera mjög hársár, enda með þykkan og mikinn makka...), og þegar álpappírinn er rifinn harkalega úr mér þá langar mig mest að fara að gráta. Getið rétt ímyndað ykkur hversu mikill gleðidagur það var á mínu heimili þegar hætt var að nota strípuhetturnar, halelúja! Í gær varð ég hins vegar fyrir yfirnáttúrulegri upplifun því þvottastóllinn var samtímis nuddstóll! Ahhh... Fann ekki fyrir nokkrum hlut og borgaði með bros á vör fúlgu sem hefði nægt fyrir útborgun á litlu einbýlishúsi.

Talandi um hús þá er næsta mál á dagskrá að selja elsku litla húsið okkar. Seinna í dag verður formleg sýning og svo aftur um helgina. Ég er svo bráðheppin að dóttirin er með 39 stiga hita og hósta og við erum því báðar heima, önnur undir teppi og hin með tuskuna á lofti. Það verður gott að koma þessu máli frá svo að hægt sé að fara að einbeita sér að öðru, til dæmis að kaupa eitthvað fallegt fyrir allan hagnaðinn af húsinu!


þriðjudagur, mars 25

Próflestur á gamals aldri

Þegar ég skrifaði undir ST-samninginn minn var klausa um að ég yrði að taka svokallað ST-próf í lok námsins. Á sínum tíma fannst mér þetta hið besta mál, auðvitað væri sjálfsagt að sýna hvað maður kann og yrði bara hressandi að lesa sér til um það sem á vantaði. Nú hefur eftirfarandi hugsun tekið völdin hjá mér: "Það stendur bara að ég þurfi að taka prófið, ekki að ég þurfi að ná því...."
Síðast þegar ég sat við próflestur var árið 2000. Ég var ólétt af barni sem er núna nánast unglingur og nær mér upp að þriðja rifbeini, þótt hann deili reyndar rúmi með mér því það er svo notalegt!
Mér finnst eiginlega ekki hægt að ætlast til þess að ég geti þetta komin á þennan aldur, orimligt eins og svíinn myndi segja.

Bragi bró kom í heimsókn á skírdag og var fram á laugardag. Voða gaman að fá hann og hann fær líklega fálkaorðu heimilisins fyrir að hafa komið oftast af systkinunum. Kristín Björg var reyndar einu sinni í 6 vikur, hún fær að deila verðlaununum með ástkærum stórabróður sínum.
Við fórum á Naturhistoriska museet á föstudaginn langa, vorum reyndar óviss hvort það væri opið, en þessir hundheiðnu svíar eru sko ekki heima að láta sér leiðast þennan dag, allt opið. Gunna sagði mér í gær frá sænskri stelpu sem kom til Íslands um páska og skildi ekkert í því að alls staðar væri flaggað í hálfa stöng á föstudaginn langa, spurði hvort einhver frægur íslendingur hefði dáið!

Börnin fóru svo til Íslands á laugardaginn og verða í 8 daga, hentaði mér í raun mjög vel út af þessu prófi, en svo kemur í ljós algjörlega óvænt að próflestursúthaldið er ekkert. Er í alvöru að spá í hvort þurfi ekki nauðsynlega að þvo gluggana að utan í dag (hef aldrei gert það síðan við fluttum hingað), já þetta getur ekki beðið mínútunni lengur!


fimmtudagur, mars 13

Hver vill elska 49 ára gamlan mann?

Var það ekki eitthvað á þá vegu sem Stuðmenn sungu hérna um árið?

Hver vill elska 37 ára gamla konu? Klæðist náttfötum í vinnunni og eyðir afgangnum af sólarhringnum í æsispennandi húsmóðursstörf...

Hólí mólí hvað tíminn líður hratt, ég sem er andlega og líkamlega ennþá mesta lagi 29! Þetta var ósköp rólegur afmælisdagur enda mánudagar strembnir á okkar heimili. Til hátíðarbrigða var keypt sushi til að taka með heim og maðurinn sem ég deili rúmi með fékk pylsur. Það er örugglega ólíkt skemmtilegra að verða 11 ára, Katla er að minnsta kosti mjög spennt fyrir morgundeginum. Við Sölvi ætlum í bæinn í dag að reyna að kaupa eitthvað handa henni, það verður einfalt því hún vill bara bækur. Á morgun er planið að fara í sund, út að borða með Guðrúnu Söru og Co, drífa sig svo heim að horfa á Lets Dance. Fullkominn dagur í huga heimasætunnar. Afmælispartýið er síðan á sunnudaginn og byrjar 15.55, spurning hvort Svíarnir fatti að hún sé að gera grín að því hvað þeir eru alltaf stundvísir. Síðast þegar hún átti afmæli voru allir nema einn mættir fimm mínútum fyrir auglýstan tíma, þessi eini var Guðrún Sara sem var enn niðrí bæ að kaupa afmælisgjöf. Munur á Íslendingum og Svíum í hnotskurn...


miðvikudagur, mars 5

Hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað?

Ég man þá tíð, að fagnaðarlátum ætlaði seint að linna og hamingjukommentin rigndu inn við afrek á við Tjejvasan.... því þetta er svo sannarlega afrek, þið skuluð ekki láta ykkur detta í hug að slíkt sé gert af hálfum hug. Ég kýs að túlka þetta á þann veg að ég sé formlega komin í hóp afreksfólk í íþróttum og að fólk geri bara ráð fyrir persónulegum metum og stöðugum framförum!
Guð hjálpi mér hvað ég er búin að eyða miklum peningum í dag! Fór með bílinn í skoðun, það var hitt og þetta sem mátti betur fara, til dæmis vantaði hliðarspegil bílstjóramegin, hann varð á einhvern óskiljanlegan hátt eftir í bílskýlinu þegar ég var að bakka út um daginn.... Anyway, þá kostaði þetta dágóða summu. Fór svo beinustu leið og keypti tölvu til heimilisins (sit og hamra á nýja gripinn einmitt í þessum töluðu orðum, eiginlega hálfsjokkeruð yfir að allt virki...) og kórónaði svo innkaupin með að fjárfesta í nýjum skíðum og skíðaskóm á sjálfa mig. Kýs að telja útgjöld dagsins ekki saman að svo stöddu.
Er á leið á skíði á morgun með vinnunni og verð fram á sunnudag. Amma Kriss kemur til að vera hjá börnum og búi, ekki amalegt að eiga svona ömmu! Í raun átti fasteignasalinn að koma á morgun líka til að taka myndir en ég neyddist til að fresta honum, ætlaði að drífa það af áðan að gera húsið söluhæft en það reyndist mér algjörlega ofviða.
Katla er búin að jafna sig á handleggsbrotinu, byrjuð aftur í bæði badminton og dansi, áfallið í brekkunni vonandi gleymt og grafið. Hún er á leið á skauta með bekknum á morgun í vorblíðunni, túlípanarnir eru sko komnir talsvert upp...
Sölvi sprækur sem endranær, gengur sífellt betur með lesturinn þótt enn ég talsvert í að hann geti kallast fluglæs. Við vorum í viðtali hjá kennaranum hans um daginn og hún var mjög ánægð með hann. Hjúkk...!


mánudagur, febrúar 25

Sjúbb sjúbb

Erum búin að vera á skíðum síðustu vikuna, algjörlega frábær ferð. Vorum ásamt 6 öðrum fjölskyldum í tveimur samliggjandi íbúðum og gekk sambúðin furðu vel, maður ætti kannski bara að stofna kommúnu, greinilega ekkert mál að búa saman 13 fullorðnir og 15 börn...

Einn fjölskyldumeðlimurinn fór reyndar ekkert á skíði, er enn í endurhæfingu eftir handleggsbrotið í síðustu skíðaferð, en hún las, fór í göngutúra og ýmislegt fleira. Sölvi skellti sér í skíðaskóla eins og venjulega, gekk mjög vel og fór stöðugt fram. Á laugardaginn skelltum við Dísa okkur í Tjejvasan, fyrir þá sem ekki vita hvað það er, þá er um að ræða 30 kílómetra skíðagöngukeppni sem fer fram einu sinni á ári. Færið var afleitt, snjórinn líktiskt mest hálfbráðnuðum sorbet, en mér til mikillar gleði náði ég þrátt fyrir það að bæta mig um 38 mínútur frá því í fyrra og var samt ekki nærri því eins þreytt í þetta skiptið. Ég held að þetta hljóti að vera afrakstur hlaupanna síðustu vikurnar, það er ekkert annað sem hefur breyst frá því í fyrra. Þetta var samt hörkupúl, líkaminn undirlagður af hreyfingu. Í gær var þó allt annað uppi á teningnum, líkaminn undirlagður af harðsperrum....

Í bílnum á heimleiðinni í gær var verið að spila Abba og Sölvi vildi sífellt heyra Money, money aftur. Ég var aðeins að reyna að draga úr þessum peningaáhuga drengsins sem er víst nógur fyrir, en síðan þegar ég spurði hvort hann skildi hvað sungið væri um kom í ljós að hann hélt það væri verið að syngja um mömmu. Hann fékk því að halda áfram að hlusta og syngja af hjartans lyst: "Mamí, mamí, mamí...."


laugardagur, febrúar 16

Mother of the year?

Já maður vinnur víst seint þann titil þetta árið, ekki þegar maður lætur sjá sig með annað barnið í fatla og hitt með saumaða kinn...
Við erum að undirbúa okkur undir hina árlegu og ofurskemmtilegu skíðaferð, leggjum í hann í fyrramálið. Sumir fara reyndar ekkert á skíði vegna beinbrota, en eru þess í stað með ógrynnin öll af afþreyingarefni til að láta sér ekki leiðast. Held reyndar að það verði engin hætta á því, alltaf einhver heima við til að spjalla við og svo hefur þessari stúlkukind ekki þótt leiðinlegt hingað til að liggja bara og lesa. Á laugardaginn er svo hin æsispennandi keppni Tjejvasan sem stendur til að taka þátt í þrátt fyrir að hafa ekki stigið á skíðin í heilt ár vegna snjóleysis. Nú finnst mér hins vegar vera smá pressa á mér, verð að ná betri tíma en síðast! Fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með gangi mála á www.vasaloppet.se.
Að öðru leyti er bara allt við það sama. Ég rembist við að hlaupa annað slagið og er formlega búin að skrá mig í hálfmaraþon sem fer fram 17. maí, nú verður víst ekki aftur snúið. Það gengur alveg þokkalega, en það er víst smá munur á því að skottast nokkra kílómetra eftir vinnu og að hlaupa 21 km viðstöðulaust. Kemur eflaust allt í ljós...


föstudagur, febrúar 1

Harmsaga heimasætunnar

Börnin komust loks af stað til Íslands fyrir viku síðan, eftir langa bið og 12 klukkutíma seinkun vegna þess að það var óveður á Íslandi.... eina ferðina enn! Sem betur fer var ofurafinn með í för sem gerði þetta allt saman bærilegra. Þau fóru svo nánast sömu leið til baka daginn aftur, bara aðeins lengra og sunnar, enduðu á Ítalíu þar sem til stóð að skíða í ítölsku brekkunum sem samkvæmt minni reynslu eru algjörlega frábærar. Þetta fór þó ekki betur en svo, að eftir fyrsta daginn stóð Katla uppi með brotinn upphandlegg. Hún var þó fljót að sætta sig við orðinn hlut og hafði mestar áhyggjur af því hvernig hún ætti að geta skrifað í skólanum.

Sjálf hef ég haft nóg að gera, eftirfarandi stóð til á meðan börnin eru í burtu:
- 4 daga kúrs í Stokkhólmi um heyrnarfræði - check, lærði margt og mikið
- innebandy með sænska liðinu mínu - check, skoraði tvö mörk!
- badminton með einni úr innebandyinu - check, gríðarharðsperrur í hægri úlnlið
- 2 vaktir - næstum check, búin með eina og hálfa
- saumaklúbbur með Uppsalapíum - fyrirhugaður á sunnudaginn
- 35 ára afmæli hjá Gunnu og Didda - stendur til annað kvöld
- disputation hjá Tomas vinnufélaga mínum - check, gífurlega gaman
- hlaupa þrisvar - hmmm... 1/3 check... hlýt að ná einu skipti í viðbót




Hér má sjá Dr. Sveinsdóttur á hor- og slefvaktinni, svindlaði aðeins þarna og var í operationsfötum sem má í raun alls ekki, en er ekki blátt klæðilegra en hvítt þegar maður er svona fölur og fár?
Sjáið þið ekki annars muninn? Ekki lengur ST-læknir, heldur sérfræðingur sem situr þarna fölur og fár og brosir sínu blíðasta...


föstudagur, janúar 25

Spjall við Sölva

Jæja Sölvi, þá er bara komið nýtt ár, hvernig líst þér á það?
Bara vel, ég verð 8 ára á þessu ári og kannski mun ég fara í fullt af afmælum.
Mannstu hvaða ár var síðast?
Já það var 2007, þá varð ég 7 ára og fór í fullt af afmælum og svona.
Já já, nóg um þessi afmæli, hvaða árstíð er núna?
Það er vetur.
En finnst þér vera vetrarlegt?
Nei það er bara eins og haust úti.
Hvað ertu búinn að vera að læra í skólanum?
Í dag vorum við að læra um sex.
Tölustafinn sex?
Nei, svona sem mömmur og pabbar gera.
Ó þú meinar það.... og lærðirðu eitthvað?
Nei, ég vissi þetta nú allt, ég vissi bara ekki að þetta væri kallað sex!
Ókei... En segðu mér, hvað er þetta á kinninni á þér?
Þetta er sár, það var stelpa sem potaði með pinna í augað á mér og svo verður það alltaf rauðara og rauðara og ég meiði mig og það þarf bráðum að skera og sauma.
Viltu bæta einhverju við?
(bendir á hálsinn á blaðamanni): Mamma þú ert með svo mikla húð hérna sem þú notar ekki!
Ehemm.... ég held við segjum þetta bara gott í bili...


mánudagur, desember 24

Jóla hvað?

Þessi mynd var tekin á föstudagskvöldið fyrir framan steindauða jólatréð okkar, því þá voru litlu jólin á heimilinu, pakkarnir opnaðir, pappír á víð og dreif og svaka fjör, eða svo ég noti orð Gullu: "Það er bara alveg eins og jólin, allt útum allt!"
Bráðum fer vaktinni minni að ljúka, bara 7 og hálf klukkustund eftir, svo þarf ég að drífa mig heim að pakka eldsnöggt og svo beint út á völl. Seinkun á fluginu er ekki efst á óskalistanum, á að lenda klukkan 4 heima og það má ekki seinna vera ef ég á að ná steikinni hjá mömmu. Annars væri örugglega áhugavert að eyða jólunum á Arlanda, án efa einstök upplifun...
Sjáumst og heyrumst á nýju ári!


fimmtudagur, desember 6

Dundað á aðventu

Hmmm... hvað höfum við afrekað síðan síðast? Allt jóladótið (og þá meina ég ALLT, þar með talið jólatréð!!!) fór upp um helgina. Við sáum enga ástæðu til að bíða með þetta... verðum ekki hér á jólunum og um að gera að njóta aðventunnar í botn. Ég er hins vegar alin upp við að tréð færi upp á Þorláksmessukvöld svo að það var óneitanlega undarleg tilfinning að horfa á það inn í stofu 2. desember!
Ég er líka búin að baka yfir 300 sörur með Gunnu samkvæmt venju og það var auðvitað ekki klikkað á föstu punktunum eins og hinni sígildu jólamynd Love Actually.
Síðan settum við saman piparkökuhús núna áðan, tókst bara furðu vel. Jólajólajól...

Glóðaraugað mitt er nánast horfið (já það gengur á ýmsu þegar handlagna húsmóðirin er í ham!) en Sölvi kominn með glóðarauga í staðinn. Það var víst einhver stelpa í 6 ára bekk sem réðst á hann með pinna. Þetta var víst fyrir honum algjörlega óþekkt stúlkukind sem hann hafði aldrei átt neitt sökótt við, en að ósk kennarans gat hann bent á hana (ég sá fyrir svona line-up eins og í bíómyndunum þar sem Sölvi stóð bakvið speglagler svo að hinn grunaði sæi hann ekki, en það er nú ekki víst að þetta hafi verið svo dramatískt).
Mér fannst hins vegar merkileg upplifun að vera svona á mig komin, svíar eru svo dannaðir að það var enginn sem spurði hvað hefði gerst, þrátt fyrir að ég mætti með augljóst glóðarauga í vinnuna. Það var ekki fyrr en ég hafði sjálf orð á þessu og spurði hvort þetta sæist mikið. "Jáhá!" var sagt einum rómi á kaffistofunni. Kannski hafa þeir verið hræddir um að opna fyrir táraflóð og endalausar frásagnir af heimilisofbeldi ef ég yrði spurð!

Sölvi áðan: "Nú er ég búinn að fatta hver er Snorri og hver er Óli!"
Þó fyrr hefði verið segi ég, við erum nú bara búin að þekkja þá hátt á þriðja ár og þeir eru ekki einu sinni það líkir!


mánudagur, nóvember 26

27 dagar til jóla

Það er kominn snjór. Að vísu ekki mikið, ekki nægilegt til að komast á skíði, en vonandi styttist í að hægt verði að skella sér á gönguskíðin og æfa sig af kappi. Við stöllurnar erum búnar að skrá okkur í sömu keppni og síðast, og að sjálfsögðu verður tíminn að vera betri í ár en í fyrra!

Katla er bókagleypir. Fékk að minnsta kosti þá umsögn hjá kennaranum sínum að hún væri á efsta stigi í lestri og þá er maður svokallaður Bokslukare!

London var frábær eins og við mátti búast. Fremur kalt í veðri en ekkert sem ekki var hægt að klæða af sér. Við afrekuðum margt og mikið, fórum meðal annars upp í London Eye, á söngleikinn Lion King, og svo auðvitað út að borða og almennt spóka sig í stórborginni. Sölvi var alls óhræddur við að nota þessi þrjú ensku orð sem hann kann (yes - no - fire) en frökenin var tregari þrátt fyrir umtalsvert meiri orðaforða. Á heimleiðinni náðum við ekki sætum saman, ég sat hins vegar fyrir framan Sölva og hlustaði á mjög athyglisvert samtal sem átti sér stað fyrir aftan mig, eða samtal er líklega ekki rétta orðið, einhliða yfirheyrsla væri nærri lagi. Pilturinn sat við hliðina á ósköp vinalegum sænskum manni og spurði hann gjörsamlega spjörunum úr: "Hvað vinnurðu?", "Hvað heitirðu?" "Áttu einhver dýr?" o.s.frv., sem sagt frekar sakleysislegt. Ég fór samt ekki að svitna að ráði fyrr en ég heyrði "Ertu giftur?" og "Ertu ríkur?" og fór að hugsa hvort drengurinn væri kannski að leita að manni handa mömmu sinni, alltaf jafn hugulsamur þessi elska! Sölvi lét það þó ekki á sig fá þegar í ljós kom að viðkomandi var hvorki ríkur né einhleypur, og hann var mjög svekktur þegar við lentum: "Ohh.. ég ætlaði að spyrja hann 1000 spurninga í viðbót!"

Bragi bjó á besta stað, nánast á hóteli. Ég varð alveg græn af öfund þegar það kom í ljós að hann þarf ekki að sjá um nein þrif sjálfur. "Ég bað um að það yrði skipt á rúmunum áður en þið kæmuð!" Þetta er sko húsnæði að mínu skapi!



Frændur með Big Ben (og langferðabíl...) í baksýn

Sölvi í gær: "Mamma, ég teiknaði mynd í skólanum og hún var fett skön!"
(ok, líklega mun 95% lesenda finnast þessi setning hvorki fyndin né merkileg, en mér fannst hún samt þurfa skráningu einhvers staðar!)


miðvikudagur, nóvember 21

Sudoku-snillingar og sjónvarpsstjörnur

Mér finnst eitthvað svo stutt þar til við flytjum heim. Fæ hálfgert kvíðakast í hvert sinn sem þetta ber á góma, því þótt það sé komið á hreint hvar við munum búa á ennþá eftir að finna draumastarfið (gefur mjög mikið í aðra hönd og krefst lágmarks viðveru...) Mér finnst samt svo stutt í þetta, það tekur því varla að taka til, þrífa bílinn eða hvað þá hengja hluti upp á vegg eins og spegilinn í ganginum sem hrundi niður í gær. Hann fær líklega að standa og halla sér upp að veggnum þar til yfir lýkur!

Sölvi er búinn að uppgötva sudoku, móður sinni til mikillar gleði þar sem hún er algjörlega ofurseld þessum þrautum. Að hugsa sér, að þessar einföldu tölur frá 1 til 9 geti valdið svona miklum heilabrotum og fölskvalausri gleði. Getur ekki verið annað en hollt fyrir líkama og sál!
Vona bara að þetta verði ekki til að draga úr áhuga hans á heimalærdómi, það er hreinlega ekki á það bætandi. Það er annað en systir hans sem elskar að gera lexur og er iðulega búin með vikuskammtinn á þriðjudögum (eina ástæðan fyrir að þetta klárast ekki á mánudögum er að þá er svo mikið að gera hjá okkur; dans, badminton, karate og innebandy, púff!)

Við stefnum að því að gerast heimsborgarar eina ferðina enn um helgina og í þetta skipti munum við heiðra Lundúnaborg með nærveru okkar. Bragi bró gegnir nefninlega hlutverki starfsmanns Landsbanka Íslands í London um nokkurra mánaða skeið og því upplagt að skella sér í skreppitúr til hans. Við hlökkum mikið til, ætlum á Lion King söngleikinn á laugardaginn og sjá svo bara til, ég hef alltaf skemmt mér afar vel í þessari borg hingað til, en reyndar hafa börn aldrei verið með í för hingað til, hlýtur að vera hægt að finna eitthvað skemmtilegt fyrir þau líka.

Ég var í sjónvarpinu í gær. Það er nefninlega raunveruleikaþáttur á TV3 sem heitir Sjukhuset og er tekinn upp á Akademiska. Einn af aðalpersónunum sem fylgst er með er lýtalæknir sem ég kannast ágætlega við og hef af þeim sökum einstaka sinnum slysast til að vera með þegar tekið hefur verið upp. Veit ekki til að ég hafi sést fyrr en í gær, og ef marka má þetta stutta atriði, þá er mitt helsta framlag til læknavísindanna að sitja flissandi á kaffistofunni og drekka te... Spurning hvort ég þurfti ekki að ráða fagmanneskju til að hjálpa mér að bæta ímyndina eftir þetta áfall!


mánudagur, nóvember 12

Nóvemberslen

Er kvefuð í fyrsta sinn í þrjú ár. Hélt að ég væri alveg ónæm fyrir slíku þar sem ég fæst við hor og slef alla daga, þetta hlýtur að vera einhver stökkbreyttur stofn sem hefur ráðist á mig af algjöru miskunnarleysi.

Erum farin og komin (eða komin og farin, hvernig sem þið viljið hafa þetta) til Íslands, vorum öll í vikufríi og skelltum okkur yfir hafið. Reyndar ekki beina leið, þegar við komum út á völl kom í ljós að það var búið að umbóka okkur til Köben og þaðan seint og síðar meir til Íslands. Ég var gráti næst en flugvallarstarfsmaðurinn hafði enga samúð með okkur og skildi greinilega engan veginn alvöru málsins, þrátt fyrir að ég skýrði honum skýrt og greinilega frá því að ég yrði að komast heim því ég ætti pantað borð á Domo klukkan 8! Tillitsleysi almúgans never seizes to amaze me!

Er búin að átta mig á því að ég mun þurfa að bakka um 2 vikur í hlaupaprógramminu vegna kvefs og almennrar leti. Á Íslandi var vitlaust veður, gerði reyndar heiðarlega tilraun síðasta daginn því þá var langskásta veðrið, en varð næstum því úti. Verð líklega að sætta mig við að hlaupaferillinn er á enda við flutninginn til Íslands...

Undarlegt samtal sem átti sé stað milli systkinanna í flugvélinni
Sölvi: "Þetta var ganska svårt!"
Katla (með fyrirlitningu, skammar hann alltaf fyrir að blanda sænsku og íslensku): "Ganska svårt?"
S: "Nei, ég meina, ganska erfitt!"
K (enn með fyrirlitningu): "Ganska?"
S: "Ég tala ekki dönsku!"

Ætla svo að lokum að verða fyrst til að óska Kristínu Björgu til hamingju með afmælið, 24 ára á morgun litla krúttið!


sunnudagur, október 21

Afar róleg helgi

Á föstudaginn fyrir rúmri viku voru einungis 6 börn mætt í bekknum hans Sölva. Sjálfur var hann á Íslandi en afgangurinn var heima hjá sér að halda uppá lok Ramadan. Segir ýmislegt um fjölda innflytjenda í hverfinu, að minnsta kosti fjölda múslima!

Er enn ekki hætt við það háleita markmið að hlaupa hálfmaraþon. Er byrjuð í svaka prógrammi sem ég fann á hinum svokallaða veraldarvef. Fór á föstudaginn og keypti mér ný hlaupaföt, sagði afgreiðslumanninum nákvæmlega hvað ég vildi; buxur sem væru alls ekki þröngar en samt andandi. Hann leit á mig með svip sem einkenndist samtímis af samúð og meðaumkun og sagði: "Þú hefðir átt að vera að hlaupa á 80-talet!" Jahá, fékk þar með staðfestingu á því hversu mikil lumma ég er... Skjögraði út úr búðinni með buxur sem eru svo þröngar að þegar ég er komin í þær má velja sér rautt blóðkorn og fylgja leið þess niður arteria femoralis (eða hvað það nú heitir þetta dót, geri mitt besta til að gleyma öllu fyrir neðan viðbein!).

Fórum í bíó í gær að sjá Ratatouille sem er svo sem ekki í frásögur færandi í sjálfu sér, skemmtileg mynd sem við mælum með fyrir unga og ekki síður aldna. Bíóið er kannski ekki það stærsta í Uppsala og augljóslega mjög heimilislegt, í dyrunum stóð vinalegur maður með kokkahúfu (í takt við þema myndarinnar) og bauð okkur hjartanlega velkomin. Síðan þegar allir voru sestir í salinn með poppið sitt þá kom vinalegi maðurinn aftur, trítlaði upp á svið og stillti sér þar upp fyrir miðju og sagði: "Halló kæru börn! Eruð þið ekki spennt að sjá myndina? Munduð þið ekki örugglega eftir að segja mömmu og pabba að slökkva á símanum sínum? Fyrst kemst smá stuttmynd, ekki verða áhyggjufull og halda að ég hafi sett ranga mynd af stað, ónei! Svo yrði ég afar þakklátur ef þið takið með ykkur ruslið og setjið í tunnurnar á leiðinni út. Góða skemmtun!" Huggulegt, ekki satt?! Mér fannst líka svo kósý að átta mig á því að sami maðurinn rifi af miðana, sýndi myndina og þrifi salinn á milli sýninga!


sunnudagur, október 7

Af karlmennsku og kvenleika

Af hverju ætli kvenleiki sé karlkynsorð og karlmennska kvenkynsorð? Tilviljun...? No way. Forfeður okkar hafa augljóslega verið jafnréttissinnaðri en almennt hefur verið talið.

Og svo nokkur orð frá fulltrúum beggja kynja:

Núna er haustið komið, hvað finnst þér vera best við haustið?
Katla: Emmm... hmmm... veturinn er að koma og haustlitirnir eru fallegir.
Sölvi: Þegar ég er búinn að safna hrúgu af laufum þá ætla ég að henda mér ofan á hana, bara ef hún er ekki blaut.
Hvað finnst þér skemmtilegast í skólanum?
K: Tónlist og íþróttir, af því bara.
S: Það er frímínúturnar, þá megum við gera hvað sem er úti.
En leiðinlegast?
K: Mér finnist ekkert leiðinlegt í skólanum!
S: Þegar við erum að gera lexur, því þá þarf maður að hlusta svo vel og maður þarf að vinna svo hart.
Í hverju er þú góð/góður?
K: Að lesa og prjóna.
S: Ég er góður í að taka til og í GameBoy leiknum mínum og ég er góður í að leika mér og búa til Turtles-tjaldið!
En léleg?
K: Að greiða mér og vakna á morgnana.
S: Ég er lélegur að finna símann þegar hann hringir og að fara úr sturtunni því þá er mér svo kalt!
En er mamma góð í einhverju?
K: Hlaupa og gera sudoku.
S: Já! Að knúsast og að tala endalaust við fullorðna.
Kanntu að elda?
K: Sumt... núðlur, kakósúpu og baka alls konar bara ekki kleinur.
S: Já ef þú segir mér hvað ég á að gera.
Hvaða heimilisstörf eru skemmtilegust?
K: Að elda og að gera lexur og taka úr uppþvottavélinni.
S: Það er að taka til.
Hvað ætlarðu að verða þegar þú verður stór?
K: Kennari og rithöfundur, kannski.
S: Ég ætla annað hvort að verða skordýrafræðingur og uppfinningamaður, eða læknir eða vinna í banka, og bara ekkert meira.
Heldurðu að þú munir giftast og eignast börn?
K: Hmmmm... veit ekki...
S: Kannski...
Hvernig manneskja viltu vera?
K: Góð, bara góð.
S: Rosa góður við börn, góður við fátæka, gefa þeim alltaf pening. Ég ætla að vera góður á móti vini mína.
Hvernig á maður að koma fram við aðra?
K: Fer eftir því hvernig þeir koma fram við mig, fer eftir hversu vondir hinir eru, en annars bara vel.
S: Fínlega, bara svona venjulega. Samt ekki við alla, sumir eru svo þreytandi.
Hvað finnst þér vera mikilvægast í lífinu?
K: Skólinn! Og að eiga vini og fjölskyldu.
S: Að hugsa um fjölskylduna og lífið sitt.

Vilt þú bæta einhverju við?
Katla: Einu sinni voru ég mamma og Sölvi úti að labba í bænum og þá sagði Sölvi "mamma hvað blikkarðu oft á dag?" og þá sagði mamma "þúsund sinnum" en ég heyrði vitlaust og þá sagði ég "HA, skiptirðu um nærbuxur þúsund sinnum á dag?"
Sölvi: Einu sinni var ég sofandi, mamma sat í tölvunni og hún heyrði eitthvað svo mikið brölt í mér að hún kíkti frá tölvunni og sá að ég var að ganga í svefni og var að draga niður buxurnar og ætlaði að pissa í fataherbergið!
Sigga: Einu sinni var ég í vinnu þar sem ég varð að vera í aðþrengdum búning og þar var skylda að vera með varalit, ilmvatn, langar neglur og naglalakk, en núna er ég í vinnu þar sem ég er í hólkvíðum náttfatalegum vinnufötum, og þar er stranglega bannað að vera með ilmvatn, langar neglur eða naglalakk!


miðvikudagur, september 26

Enn af heimsborgurum

London, París, Róm, Reykjavík.... fjölskyldumeðlimirnir náðu að dekka tvær þessara borga um helgina. Skiptum reyndar liði enda nær maður engum árangri í þessu lífi nema með því að delegera.
Börnin tóku að sér að fara til Reykjavíkur um helgina og skemmtu sér konunglega sem endranær, Kötlu fannst hápunkturinn að hitta Tinnu frænku "hún er svo hrikalega sæt og mikil dúlla, og veistu mamma hún segir Gattla og það er eina nafnið sem hún kann!"
Sjálf fór ég á aðeins suðrænni slóðir, það er að segja til Rómar. Óskaplega skemmtileg ferð með læknum deildarinnar, mikið borðað, skoðað, verslað og almennt mikið stuð í hreint út sagt frábæru veðri, hefði ekki getað verið betra. Verð að segja frá mjög fyndnum atburði sem átti sér stað á föstudagskvöldið, gæti reyndar verið að þetta sé svona "guess you had to be there"-saga, en ég tek áhættuna. Við fórum öll út að borða voða fínt og svona, síðan vorum við nokkur sem vorum í stuði til að fara að dansa á eftir. Það var rifið í hnakkadrambið á næsta þjóni og spurt um góðan klúbb, settumst svo í leigubíl og þustum af stað út í óvissuna. Þetta reyndist vera mjög huggulegur staður sem var utandyra, klukkan var reyndar ekki mjög mikið og það var frekar fátt á staðnum þegar við komum. Eftir smá stund ákváðum við að skella okkur bara á dansgólfið þrátt fyrir að það væri tómt og sýndum alla okkar bestu takta, en eftir smá tíma tók ég eftir að það var farið að safnast fólk í kringum dansgólfið sem STÓÐ OG HORFÐI Á OKKUR OG HLÓ! Að vísu vorum við ekki bara miklu eldri en allir þarna (meðalaldurinn hefur verið hámark 22 ár á meðan meðalaldur okkar var 45 ár og ég yngst...) heldur líka 30 cm hærri en allir aðrir. Meira að segja Össi sem telst meðalmaður á Íslandi gnæfði yfir unglingana eins og Gulliver í Putalandi. Þar að auki var einn 57 ára með í för, kann augljóslega ekki að dansa en er búinn að vera mjög mikið í eróbikk og notaði sporin þaðan óspart ásamt frekar ótaktföstum rykkjum og skrykkjum. Ungviðið veltist um af hlátri og reyndu meira að segja nokkrir að herma eftir honum en áttu auðvitað ekki roð í hann. Persónulega þurfti ég að passa að snúa baki í hann til að fá ekki óvart hláturskast.

Ég gæti verið formlega gengin af göflunum en ég er búin að gefa yfirlýsingu um það í vinnunni að ég ætli í hálfmaraþon í maí. Gæti stefnt í smá hóp sem skellir sér, höfum auðvitað nokkra mánuði til að æfa, en hvaða mid life crisis er þetta eiginlega hjá manni? Ég sem lýsti því staðfastlega yfir fyrir nokkrum mánuðum að ég myndi aldrei hlaupa lengra en 10 kílómetra. Svo fann ég bara eftir keppnina að það datt algjörlega botninn úr æfingunum, nánast hætt að hlaupa og finn að ég verð að hafa eitthvað að stefna að. Þá er þetta svo sem ekki verra en hvað annað, kemur svo í ljós hvort úr þessu verður!


mánudagur, september 17

Heimsborgarar


Úff, hvar á ég að byrja? Ferðalagið var afskaplega gott í alla staði, finnst ég ekki hafa gert annað en að hvíla mig og borða...

Ferðin hófst í Feneyjum og gistum við þar eina nótt á hóteli:



Alltaf sígildar myndirnar þar sem eitt myndefnanna smellir af um leið og allir klessa sér saman til að reyna að komast fyrir....



Ég gat ekki séð að dúfunum á Markúsartorginu hefði fækkað neitt síðan ég var þarna síðast árið 1980! Þær eru auðvitað afskaplega gæfar og féll þetta allt saman dýravininum vel í geð:



Þarna erum við Sölvi í gömlum bæ sem heitir Alberobello og er í nánd við Bari á Ítalíu, þetta var fyrsta stoppið með skipinu.



Næst var stoppað í Katakolon á Grikklandi, það voru alltaf nokkrar ferðir í boði og í þetta skiptið völdum við að fara á ströndina.



Í Tyrklandi var fyrst stoppað í Izmir en þann dag ákváðum við einróma að vera bara eftir um borð, mjög notalegt.
Næsta stopp var Istanbul sem var mikil upplifun, mjög mikið fólk, ys og þys, og kebab-lykt yfir öllu... Þarna er Sölvi fyrir framan hina frægu bláu mosku.



Í Dubrovnik í Króatíu fann skordýrafræðingurinn þessa líka fínu eðlu sem hlaut nafnið Tómas. Sölvi dröslaðist með hana um allt þar til það rann upp fyrir honum að þetta væri líklega eðlustrákur sem hann væri að taka frá mömmu sinni, og var Tómasi því gefið frelsi á ný!



Í kringum gamla bæinn var borgarvirki sem hægt var að ganga uppá allan hringinn.



Dubrovnik kom skemmtilega á óvart, mjög gaman að koma þangað fannst okkur öllum þótt að minnsta kosti 2/3 hluta hópsins hafi þótt ívið of heitt.



Og svo þessar endalausu spurningar sem dundu á manni í sífellu:

"Mamma, var langalangalangalangalangalangafi minn risaeðla?" Hmm... ætti maður kannski að kenna honum frekar sköpunarsöguna, hún er einhvern veginn einfaldari en Darwin...
"Í hvaða stjörnumerki var Gustav Wasa?" Eigum við ekki bara að segja að hann hafi verið ljón eins og þú gullið mitt!
"Eru Inga og Ella nógu gamlar til að ráða yfir sér sjálfar?" Já ástin mín, þær eru 51 árs gamlar afasystur þínar og ráða reyndar yfir sér sjálfar!


miðvikudagur, september 5

Hitt og þetta í upphafi hausts

Jæja, þá er búið að halda uppá afmælið hans Sölva... aftur! Í íslenska afmælið vantaði auðvitað alla aðal vinina þannig að það var loksins slegið upp veislu á laugardaginn til heiðurs árunum 7. Veislan gekk bara nokkuð vel og fyrir utan eitt beinbrot fór hún friðsamlega fram. Eins og allir vita er ekki hægt að tala um almennilegt partý nema einhver endi á Slysó... Þetta var hann Viktor litli Helgason, 2ja ára snáði kominn af Keflvíkingum í báðar ættir, sem með hoppi og skoppi tókst að meiða sig svona. Þar sem faðir hans er barnalæknir og þar að auki röggsamur maður var barnið komið upp á bráðamóttöku og í gips upp að nára um það leyti sem gestirnir sporðrenndu síðustu kökubitunum.
Minnir mig á þegar Bragi bró var einmitt 2ja ára og fótbrotnaði, þá átti ég reyndar mun meiri hlut að máli. Þar sem Bragi var svo mikið krútt (og er enn!) með spékoppa og bollukinnar átti hann að vera lukkudýr á fótboltamóti sem ég var að keppa á í skólanum. Ég skellti drengnum því á bögglaberann og hjólaði af stað á fullu spani en neyddist til að hægja á mér þegar upphófust mikil hljóð og drengurinn sat pikkfastur með annan fótinn í afturdekkinu. Ja svei, svona er lífið!

Sé mig tilneydda til að leiðrétta þann misskilning að við séum búin að fara í siglinguna fínu, á erfitt með að segja ferðasöguna svona fyrirfram, en við förum sem sagt af stað á föstudaginn og gistum fyrstu nóttina í Feneyjum og höldum síðan úr höfn með öll segl þanin á laugardaginn. Ítalía, Grikkland, Tyrkland og Króatía - here we come!

Sölvi er kominn á sundnámskeið enda ekki seinna vænna að drengurinn læri að synda. Hann fílar það bara vel þótt móður hans finnist fullsnemmt að mæta í sund klukkan hálftíu á laugardagsmorgnum. Og ekki nóg með það heldur er hann líka kominn í karate. Fór með hann og Þorra í fyrsta tímann í fyrradag og það var stórkostlega fyndið. Þeir eru langyngstir og þar af leiðandi ekki einungis minnstir heldur líka vitlausastir. Við Katla hlógum svo tárin runnu en blessaðir drengirnir voru hæstánægðir og eru mjög spenntir að halda áfram. Mánudagarnir eru að verða ansi strembnir hjá okkur því Katla er í bæði badminton og dansi, Sölvi í karate og ég í innebandy. Katla ætlar líka að halda kórsöngnum áfram og svo eru þau auðvitað bæði í íslensku, nóg að gera hjá þessu unga fólki nú til dags!

Næst kemur ferðasagan...


föstudagur, ágúst 31

Um skóflur og fleira

Nú gæti einhver bölsýnismaður ályktað sem svo að þar sem 5 dagar eru liðnir frá hlaupakeppninni og ekkert verið bloggað að það hafi ekki gengið vel, en ég get með gleði í hjarta og sinni staðfest að svo er alls ekki. Gekk betur en áhorfðist, hafði sem takmark að hlaupa á undir klukkutíma, þá hafði ég reyndar ekki gert mér grein fyrir að það yrði troðið af röltandi kellingum sem tefðu för mína til muna. Fyrsta einn og hálfan kílómeterinn hefði ég eins getað labbað, komst ekkert áfram, en eftir það var gefið í og kláraði ég á 59 mín og 10 sek. Var mjög sátt...

Annað fréttnæmt er að ég er hvorki meira né minna en orðinn eigandi fasteigna í tveimur löndum. Fjárfesti í íbúð í Reykjavík í síðustu viku með stuttum fyrirvara og það er mjög gott að vita að minnsta kosti hvar við munum búa þótt margt annað sé enn óljóst.
"Sölvi, veistu hvað?!! Við vorum að kaupa íbúð!!"
"Í alvöru?? Vá, vorum við að kaupa ísbúð?!!!"
"Nei.... Íbúð!"
"Nú..."


Allt er að komast í fastar skorður, börnin byrjuðu í skólanum og ég að vinna í síðustu viku. Katla og Guðrún Sara voru að byrja að æfa badminton og sögðu sigri hrósandi frá því eftir fyrstu æfinguna að þær hefðu sko ekki verið lélegastar! Þær voru ekki með badmintonspaða og spurðu því kennarann: "Kan man få låna spade?" Þjálfarinn horfði furðu lostinn á þær og skildi ekki hvað þær ætluðu að gera við skóflu á æfingunni...


sunnudagur, ágúst 19

Hundalíf



Vorum á einhvern óskiljanlegan hátt orðin hundaeigendur í vikunni, reyndar bara tímabundið. Litla loðna veran á myndinni er hún Vaka vinkona okkar sem stendur á höndum þegar hún pissar og eyddi 3 geltandi dögum hjá okkur í vikunni.

Hlaupin ganga misvel, nú er ekki nema vika til stefnu og kvíðinn eykst óðum. Reyndar held ég að það hljóti að vera hægt að fara þetta á þrjóskunni, eða það er að minnsta kosti mitt plan. Takmarkið er að hlaupa alla 10 kílómetrana, en í versta falli labba ég bara, það nær þá bara ekki lengra. Gekk hræðilega síðast þegar ég fór út að hlaupa, alltof heitt og sveitt. Mental note: vera eins fáklædd í hlaupinu og blyðgunarkennd leyfir...

"Mamma mannstu þegar ég prumpaði framan í þig?"
"Jahá, ég gleymi því sko aldrei!"
"Jú þegar þú verður komin á gleymideildina á elliheimilinu, þá muntu gleyma því!"


mánudagur, ágúst 13

Legoland in action



Varð bara að láta þessa fylgja með, tekin í svakalegasta tækinu í Legoland. Bendi á mismikil viðbrögð farþeganna í vagninum, við Sölvi erum dauðhrædd en skemmtum okkur þó, Kötlu finnst bara gaman, en amman er á svipinn eins og hún sé á leið á aðalfund félags bókasafnsfræðinga. Gaf samt þá skýringu eftirá að hún hefði einfaldlega lamast af skelfingu og verið ófær um svipbrigði!


Free Hit Counters
Free Counter